133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:34]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég sé mig knúinn til að fara í örstutta ræðu eftir að vinur minn, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, hefur hér talað. Ræða hans er auðvitað byggð á misskilningi því að ég þekki hann ekki að öðru en góðu samstarfi og heiðarleika. Ég veit að hann vill hafa það sem réttara er í allri umræðu. Það þýðir ekki að halda því hér fram að bændur hafi ekki gert þann samning sem þeir gerðu við ríkisvaldið. Hv. þingmaður er upptekinn af útflutningsskyldunni svokölluðu. Í þessum góða samningi liggur það fyrir og liggur fyrir í umræðunni við bændur að útflutningsskyldan standi mjög völtum fótum, það sé mjög tvísýnt um framtíð hennar, ekki síst vegna WTO-samninga sem geti skollið á nánast á þessu ári eða því næsta, fyrr en varir og þá sé útflutningsskyldan úti. Svo vitum við líka hitt sem ég hef margsagt, að hún er í andstöðu við samkeppnisreglur hér heima fyrir og mjög einkennilegt líka að landbúnaðarráðherra skuli vera nánast svona eins og frystihússtjóri einnar búgreinar sem ákvarðar og tekur ákvörðun um að hluti af þessari afurð skuli á erlendan markað. Nú var ekki einhlít regla um þetta eins og hv. þingmaður sagði. Stór hluti bænda, eða töluverður hluti, var undanþeginn útflutningsskyldu, það voru bændur sem bjuggu við svokallaða 0,7-reglu. Bændur voru í tveimur hópum hvað þetta varðaði þá útflutninginn í gegnum árin.

Í viðræðum við bændur sem vildu eðlilega halda í þessa reglu eða geta mætt framtíðinni kom það upp í þessum viðræðum að þeir töldu að — nú er gríðarlega gott ástand á kjötmarkaðnum, frekar vantar lambakjöt í dag og engin frystihús eru troðfull af kjöti eins og var hér áður. Bændur voru að hugsa um framtíðina og töluðu um að auðvitað gæti það komið upp að það sköpuðust vandræði. Ljóst er að gerð búvörusamninga hefur verið með þeim hætti að greinarnar færist nær markaðnum, beri ábyrgð á sínum markaði. Mikið hefur verið gert til að hagræða í afurðastöðvum landbúnaðarins á síðustu árum, þar á meðal sláturhúsunum. Nú eru nánast þrjár stórar keðjur eftir og tvö til þrjú lítil sláturhús. Bændurnir sjálfir með afurðastöðvum sínum mega og geta staðið saman að markaðssetningu og útflutningi. Þeir ráða við það og það er nánast sá pallur sem þeir þurfa að hugsa um að búa til með félagshyggju sinni. Þegar þeir fóru að hugleiða það að ef útflutningsskyldan færi gæti komið offramboð á markaðinn og verð fallið ræddu þeir það við fulltrúa ríkisvaldsins og til að mæta því strax varð þessi samningur til eins og hér hefur verið rakið í umræðunum, að ef það gerðist mundi auðvitað verðið á lambakjöti lækka til neytenda og bændur mundu í slíku verðfalli tapa hluta af afurðum sínum. Þess vegna var samningurinn hækkaður um 10%.

Það koma 300 milljónir á ári til að mæta því að útflutningsskyldan fer út, til þess að bændur haldi sínum hlut. Um þetta sömdu þeir, 1,8 milljarða, og sú greiðsla sem ekki er skert, þessar 300 milljónir, kemur strax inn á árinu 2008. Þetta varð niðurstaðan, um þetta var samið, og margir bændur hafa sagt við mig: Það var mikilvægt að ná þessu ákvæði fram, við erum betur undir framtíðina búnir með þessa peninga en ef við hefðum kannski staðið frammi fyrir því á árinu að útflutningsskyldan hefði samkvæmt erlendum samningum WTO farið bara hreint út og þeir hefðu staðið frammi fyrir því.

Ríkisstjórnin skildi hvað um var að vera. Þess vegna getur þetta verið með þeim hætti að bændurnir halda sínu þó að breyting verði. Þeir vissu allan tímann að þetta ákvæði átti að fara út, það var enginn að tala um að þeirra háa heimild ætti að standa í lögunum. Heimild er reiknuð í WTO-samningunum sé hún til staðar sem vald landbúnaðarráðherra. Hún er metin á 1,5–2 milljarða í beinum stuðningi. Bændurnir vissu að það færi út, en auðvitað varð misskilningur í því, og það er alveg hárrétt og þess vegna er þetta bréf hér frá ákveðnum hluta samninganefndarinnar, að þegar þetta var að gerast var reiknað með því að þetta mundi gerast með þeim hætti að lagabreytingin yrði sérstaklega flutt haustið 2008, eins og samkomulagið staðfesti, þá yrði sérstakt frumvarp um þessa breytingu. Bændurnir vilja standa við samninga sína. Þeir eru ekki með neina aðra hugsun í þeim, þeir vissu að endalok útflutningsskyldunnar færu út úr lögum 1. júní 2009. Niðurstaðan varð svo sú þegar farið var að semja þetta frumvarp og ganga frá búvörusamningnum að af lagatæknilegum ástæðum og ýmsum öðrum ástæðum þótti einfaldara að hafa allan samninginn og allar þessar gerðir inni í samningnum. Allt annað hefði verið flókin vegferð og vegferð sem hefði kannski verið sú að haustið 2008 hefðu menn nánast farið að rífa þennan samning upp á ný. Í staðinn eru menn með hann öruggan út árið 2013 sem er gríðarlega mikið atriði.

Hér eru engin svik í tafli eins og sumir halda fram. Hér hefur verið staðið við allt sem bændur sömdu um í þessum samningum. Þessi (Gripið fram í.) breyting lögum samkvæmt er í gildi til 1. júní 2009, útflutningsskyldan, þá fer hún út. Allt sem um það var samið er inni í þessu og ástæðulaust að vera að vefengja það eða tortryggja.

Ég vil hafa það alveg á hreinu, ég ræddi það við hæstv. forsætisráðherra í hvaða búning þetta mál væri komið. Niðurstaðan af þeim viðræðum varð sú að hann féllst á þetta og taldi mikilvægt að þetta allt saman væri inni í samningnum í lagagjörðinni hér í þinginu. Ég frábið mér allar umræður um að við höfum ekki staðið hér við það sem verið var að semja um og bændurnir vita að þeir sömdu um þetta með þessum hætti. Þeir hafa útflutningsskylduna til 1. júní 2009, þá fer hún út í sólarlagsákvæðum, 0,7-reglan fer út á sama tíma og þeir sitja allir við sama borð vorið 2009. Þetta vil ég hafa alveg á hreinu, í þessu eru engin svik. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að þeir sem bréfið skrifuðu reiknuðu með hinu sem ég var að segja hér, að sérstök lagabreyting kæmi. Ég sé í sjálfu sér ekki hverju hún breytir því að ég þekki íslenska bændur ekki að öðru en því að standa við gerða samninga, ég tala nú ekki um þegar komið er til móts við þetta viðhorf þeirra og áhyggjur með þeim hætti að bæta í upphafi 300 milljónum inn í samninginn og þær koma á hverju einasta ári til að mæta þessari hugsun og auðvitað líka til að styrkja byggðirnar og búin.

Bændur eru hér með mjög góðan samning og ég trúi því að sauðfjárræktin muni mjög styrkjast á þessum árum. Ísland er eitt af sérstæðustu og bestu sauðfjárræktarlöndum heimsins.

Ég vil að þetta komi fram og þessum misskilningi sé eytt, að menn séu ekki á pólitískum refaveiðum, að við séum að svíkja eitthvað eða gera það öðruvísi en við sömdum um. Við erum að gera nákvæmlega það sama og við sömdum um, það er allt í þeim pakka sem um var samið og kemur til framkvæmda á tilteknum tíma eins og samningarnir segja.

Ég hvet hins vegar bændur til að bera ábyrgð og þeir vilja bera ábyrgð á markaðssetningu sinni, bæði innan lands og erlendis, og þeir gera það í gegnum afurðastöðvar sínar. Ég vil líka segja hér, af því að útflutningsskyldan hefur líka haft það í för með sér að lambakjötið hefur vikið út af markaðnum og misst hlutdeild: Ég þekki það, hv. þm. Jón Bjarnason, því að árið 2002 fór ég gegn þeirri tillögu sem Bændasamtökin gerðu mér um útflutningsskyldu og vildu að útflutningsskyldan yrði hátt í 40%, líklega 37%. Mig minnir að ég hafi ákvarðað hana 26% eða 27%. Þetta var áfall fyrir sláturleyfishafana sem ætluðu að senda lambakjötið úr landi og selja kjúklinga og svínakjöt í staðinn. Lambið átti sem sé að víkja eins og alltaf út af markaðnum af því að það fæst þó verð fyrir það úti í heimi þótt það sé ekki nægilegt. Þetta varð til þess að lambakjöt fór að seljast í ríkari mæli, skapaði sér olnbogarými og tókst á á markaðnum en vék ekki til hliðar. Útflutningsskyldan hefur á sér ýmsar hliðar sem geta gert það að verkum að sá atvinnuvegur, þessi elsti atvinnuvegur Íslendinga, var í þeirri hættu að víkja fyrir búgreinunum sem nánast eru orðnar verksmiðjur á okkar mælikvarða.

Það er heldur ekkert gott. Ég veit að enginn þekkir lögmál markaðarins betur en hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sem hefur getið sér frægan orðstír bæði í þjóðarsáttarsamningum sem bjargvætturinn frá Þingeyri — nei Flateyri. Ekki má mér verða hér á, að nefna skakkt þorp í þessari umræðu miðað við fjallið forðum. — Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er vinur landbúnaðarins og stuðningsmaður og ég hef átt einstakt samstarf við hann, þess vegna finnst mér frekar leiðinlegt ef við förum að vera í þessu hnútukasti. Svona er staðreynd málsins eins og ég hef hér rakið. Ég bara segi við íslenska bændur: Þessi langtímasamningur er sauðfjárræktinni gríðarlega mikilvægur. Hún er í dag að þróast eins og kúabúin, öflugra ungt fólk sér mikil tækifæri í þessari atvinnugrein, þessir 3,3 milljarðar sem eru álíka upphæð og — ég hef nefnt það áður — fer í feðraorlofið á ári, munu gera það að verkum að ungt fólk á mikil tækifæri í þeirri búgrein, ekki síst á byggðasvæðum þar sem víðáttan er mikil og möguleikarnir meiri í sauðfjárræktinni. Þetta sjáum við, verið er að byggja fjárhús, þetta fólk er að búa sig undir þessa atvinnugrein sem mikla framtíðaratvinnugrein og aðalatvinnugrein sína því að sannarlega hefur sauðfjárræktin verið aukabúgrein með öðru. Slík þróun mun fylgja þessum samningi, við sjáum að landbúnaðurinn verður í miklum friði næstu árin hvað sem um pólitíkina má segja, og bændurnir geta unað glaðir við það og ég vona og trúi að þeir styrki bú sín og efli þau í byggðunum.