133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:51]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Samkvæmt könnun sem birt var stendur þjóðin á bak við bændur en ekki Framsóknarflokkinn sem betur fer. Ég tók eftir því að hæstv. landbúnaðarráðherra vísar þessu máli frá sér og segir að það sé ekki á sinni könnu. Ég tek þetta til umræðu hér vegna þess að við erum að ræða rekstrarskilyrði sauðfjárbænda. Við erum að ræða hvernig gengur að reka þessi bú og ég er að benda á að aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar í þessu tiltekna máli, sem er ekki svo lítill hluti af rekstrarkostnaði bænda, hefur stórhækkað.

Það getur vel verið að hæstv. landbúnaðarráðherra haldi að hann hafi bætt lífsskilyrði bænda og hafi e.t.v. gert það með vinstri hendinni en þar fara ekki saman hugur og hönd því að með þeirri hægri versna kjör bænda vegna þess sem ég hef sagt.

Ég spyr hæstv. landbúnaðarráðherra: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Hvað ætlar Framsóknarflokkurinn að gera til að bæta hag bænda hvað þetta varðar? Eða eiga þessar köldu kveðjur Framsóknarflokksins til (Forseti hringir.) bænda hvað varðar rekstrarskilyrði búanna, þ.e. raforkukostnað, að standa eftir?