133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:02]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit að ég sannfæri ekki hv. þingmann. Hann vill halda þessari umræðu áfram og með þessum hætti. Hann veit í hjarta sínu að hann fer með rangt mál.

Hér er staðið við allt sem segir í samningnum. Útflutningsskyldan er inni áfram þegar þetta verður að lögum, til 1. júní 2009. Bændurnir sömdu um það vegna aðstæðna sem þeir sáu að gætu verið fram undan í WTO-samningum, að útflutningsskyldan færi út. Þeir sömdu um það gegn þessum upphæðum sem ég hef rakið hér, 300 millj. kr. á ári til að mæta þeim sveiflum að hún færi út.

Hins vegar varð það niðurstaða eins og ég hef rakið, af lagatæknilegum ástæðum og ýmsu öðru, að menn vildu þegar til kom hafa þetta allt inni í frumvarpinu þannig að búgreinin og þessi samningur hefðu frið út árið 2013 eins og líkur eru á núna. Það getur vel verið að það væri erfitt að taka hana upp. Og hafi menn ætlað sér eitthvað annað haustið 2008 hefði það getað þýtt stórdeilur um samninginn. Ég held að allir hljóti að sjá að þótt menn hafi einhvern tímann sagt að frumvarp yrði flutt haustið 2008, o.s.frv., þá er þetta bara heiðarlegt. Þetta sólarlagsákvæði kemur til framkvæmda og er eins og um var samið.

Hv. þm. Jón Bjarnason og aðrir þurfa ekkert að búa til einhverja svikaumræðu og halda því fram. Því bændurnir skilja hygg ég betur markaðsmálin en hv. þingmaður. Þeir vita að þeim er mjög mikilvægt sjálfum og afurðastöðvum þeirra, sem hafa verið styrktar stórlega á síðasta ári og eru sterkari en nokkru sinni fyrr til að annast öll sín markaðsmál og bera ábyrgð á útflutningi til útlanda og því að lambið geti hiklaust keppt á innanlandsmarkaði (Forseti hringir.) og þurfi ekki sífellt að minnka hlutdeild til þess sífellt.