133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[16:03]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Við 3. og síðustu umræðu um lagafrumvarp sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefur flutt, sem er út frá sauðfjársamningnum, vildi ég í lokin leggja orð í belg. Ég sakna þess að hæstv. landbúnaðarráðherra skuli ekki vera í salnum. Ég mun óska eftir því í lok máls míns að hann verði hér viðstaddur vegna þess að ég hyggst bera fyrir hann nokkrar spurningar.

Margt hefur blandast inn í þessa umræðu og sem dæmi má taka matvælaverð. Hver ber ábyrgð á háu matvælaverði á Íslandi? Einnig má nefna byggðastefnu. Hver ber ábyrgð á fólksfækkun í sveitum landsins og mörgum landshlutum? Á Vestfjörðum hefur fækkað um 20% á 10 eða 20 árum. Það hefur fækkað um þúsund manns í Vestmannaeyjum sl. 10 ár og þannig mætti lengi telja. Auðvitað er farið um víðan völl og málin rædd.

Þessi samningur um stuðning við sauðfjárrækt á Íslandi er vissulega einhvers konar byggðastyrkur við mörg svæði þar sem erfiðleikar eru mestir og kannski ekki mikið um aðra atvinnu eða annan rekstur. Þetta er líka menningarstyrkur, það má setja það þannig fram, til þess að halda í sauðfjárrækt og stuðla að því að við Íslendingar verðum sjálfum okkur nógir hvað varðar framleiðslu á lambakjöti, þessu heimsins besta kjöti sem sannarlega er framleitt hér. Hvergi hefur maður fengið betra lambakjöt en hér á Íslandi.

En ég hyggst fara yfir þessa þætti og blanda inn í þetta byggðamálum og þessum samningi, rekstrarskilyrðum sauðfjárbænda og annarra bænda og rekstrarskilyrðum fólks sem býr úti á landi. Ég hef áður vitnað í grein sem ég skrifaði á síðasta ári eftir samtal mitt við sauðfjárbónda sem vakti athygli mína á því að hann fengi rétt um 310 kr. fyrir hvert kíló af innlögðu lambakjöti eða rétt um 4.700 kr. fyrir 15 kílóa þungan skrokk. Ég trúði vart mínum eigin eyrum þegar bóndinn var að lýsa þessu og það gerði það að verkum að ég gerði mér far um að skoða hvar mismunurinn væri. Það er himinn og haf á milli þessara 310 kr. til þess sem maður borgar úti í búð. Greinin hét einfaldlega: Hver fær mismuninn? og kem ég að því síðar hverjir svöruðu og hvaða mismun maður gat fengið út úr þessu.

Lausleg könnun mín, virðulegi forseti, leiddi í ljós að þessi 15 kílóa lambaskrokkur, sem bóndinn fékk 4.700 kr. fyrir, var seldur út úr búð, ófrosinn og niðursagaður eftir kúnstarinnar reglum, fyrir rétt um 23 þús. kr. Verðgildið hafði sem sagt aukist um rúmar 18 þús. kr. eða um rúmlega 400% frá bónda til neytanda. Er rétt að vekja athygli á því að hlutur bóndans var einungis um 20% af útsöluverði. Hlutur bóndans var lítið eitt hærri en hlutur ríkissjóðs í virðisaukaskatti af vörunni seldri út úr búð. Mér reiknast til að virðisaukaskattur til ríkissjóðs af þessum umrædda lambaskrokki hafi verið um 2.200 til 2.300 kr. eða tæpar 200 kr. á kíló. Mér sýndist sem svo að miðað við heildarframleiðslu lambakjöts á ári fengi ríkissjóður til baka í virðisaukaskatt um 70% af beingreiðslum þess árs.

Ég spurði líka hvort menn teldu þetta ábatasaman atvinnurekstur og komst að þeirri niðurstöðu að svo er ekki. Ég tók dæmi af bónda sem leggur inn 300 lömb að hausti, eða um 4.500 kg af kjöti, og fær fyrir það 1,4 millj. kr. og rétt um 1,2 millj. kr. í beingreiðslur eða rétt um 2,6 millj. kr. í heildartekjur. Það átti sem sagt að nægja bóndanum og fjölskyldu hans til lífsviðurværis og reksturs og viðhalds húsakosts og tækja. Ég spurði hvort þetta hljómaði freistandi, hvort einhver vildi taka yfir slíkan rekstur og hvort menn héldu að hann væri ábatasamur. Ég fékk ekki svar við þessum spurningum mínum frá þeim sem ræða þessi mál en ég fékk viðbrögð við greininni frá einum aðila. Fyrrverandi formaður Bændasamtakanna skrifaði grein en sú grein var eingöngu um skiptingu kjöts, hvernig ætti að saga það niður. Eins og ég sagði var það eingöngu bitamunur í orðsins fyllstu merkingu. Útreikningar mínir voru ekki vefengdir þó að þeir hafi ekki verið hávísindalegir. Ég tek skýrt fram að þeir eru ekki fullkomlega réttir, það getur verið spurning hve mikið fer í verðlausa hluti, en engu að síður gefa þeir góða vísbendingu.

Ég sem sagt fékk viðbrögð sem voru engin viðbrögð við því hver fengi mismuninn. Ég hef hins vegar fengið símtal frá aðila sem vinnur í sláturhúsi og í því kom fram að sláturhúsið tók á þessu sama ári 160 kr. í kostnað á hvert kíló. Þá voru komnar 310 kr. til bóndans, 160 kr. til sláturhússins og mismunurinn var verslananna og þeirra sem vinna kjötvörur — í því tilviki sem hér um ræðir held ég að kjötið sé mest sagað niður í búðum. Ég gat ekki séð annað en það væri verslunin sem tæki mismuninn og auðvitað geta alls konar ástæður verið fyrir því. Ein ástæðan, sem m.a. var nefnd einhvern tíma í fréttum, var sú að sú kvöð er á þeim sem framleiða kjöt að þeir taki það þegar komið er fram yfir síðasta söludag og sennilega fargi því. Það leiðir hugann að því hvort reglurnar séu of strangar eða hvernig þessu er fylgt eftir. Ég hef ekki hugmynd um það en það væri fróðlegt að vita hve miklu af lambakjötsframleiðslu ársins er hent vegna þess að hún fer fram yfir síðasta söludag, ef það er þá þannig. Ég mundi reyndar halda að það væri ekki.

Niðurstaða mín er sú, virðulegi forseti, að það er ekki bóndinn sem ber ábyrgð á háu verði á landbúnaðarvörum út úr búð. Hann framleiðir heimsins besta lambakjöt og tekur nánast ekkert fyrir það. Ég sagði í greininni að íslenskir neytendur stæðu í mikilli þakkarskuld við bændur fyrir að framleiða þetta ágæta kjöt og taka ekkert fyrir það og ég segi það enn einu sinni.

Virðulegi forseti. Það eru fleiri þættir sem snúa að rekstrarskilyrðum bænda heldur en það sem gert er í samningi milli Bændasamtaka og ríkisins í stuðningi við viðkomandi grein, hvort sem það er sauðfjársamningurinn eða mjólkursamningurinn sem við gerðum fyrir nokkrum árum. Það er fleira í þessu. Það er ýmislegt í ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar, meðvitað og ómeðvitað, sem gerir það að verkum að lífskjör bænda og landsbyggðarfólks versna. Á ég þá við hinar miklu skattahækkanir sem ég hef oft kallað landsbyggðarskatta og ýmsar álögur sem koma hvað verst niður á landsbyggðarfólki. Í þessu tilviki ætla ég að gera bændur að umtalsefni af því að við erum að ræða samning við þá. Við erum að ræða kaup og kjör bænda og um rekstrarskilyrði þeirra alveg eins og við ræðum um rekstrarskilyrði annarra fyrirtækja, hvort sem er banka, skipafélaga eða hvers sem er.

Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir mikilli skattahækkun á flutningastarfsemi sem er mikilvægur þáttur í rekstrarkostnaði hvers býlis, við aðföng og við að koma frá sér vörum, annars vegar vegna reksturs og hins vegar almennri matvöru. Þar hefur skattlagning hins opinbera hækkað mjög mikið undanfarin ár og alveg sérstaklega nú síðustu tvö þrjú ár eða frá því að þungaskattskerfinu var breytt og olíugjald tekið upp. Ég hef sagt það áður, og hef aldrei fengið svar þó að ég hafi talað við hæstv. fjármálaráðherra um það, að þegar fjármálaráðuneytið var að gera þessa kerfisbreytingu voru einfaldlega notaðar vitlausar tölur við að deila seldum olíulítrum í þungaskattinn og út úr því kom miklu hærra olíugjald en þurfti. Það er staðfest í samgönguáætlun að mismunur er hvorki meira né minna en 50 milljónir lítra, það er sem sagt 70% meira sem kemur inn af olíugjaldi heldur en reiknað var með. Það er vegna þess að það gleymdist að nota 50 millj. lítra af seldri olíu til að deila í þungaskattinn til þess að fá út hvar olíugjaldið átti að vera. Þetta hefur farið þráðbeint út í verðlagið, stórhækkað flutningskostnað, stórhækkað rekstrarkostnað heimilanna og þá alveg sérstaklega bænda vegna þess að ofan á þetta voru bændur áður með afslátt á þungaskatti sem var felldur niður við þessa breytingu. Þess má geta að ríkisstjórnarflokkarnir felldu breytingartillögu frá okkur jafnaðarmönnum á þingi um það að bændur mundu njóta sömu kjara.

Við töldum afsláttinn sem bændur fengu af þungaskattinum á sínum tíma einfaldlega hluta af starfskjörum þeirra. En hann datt út þegar olíugjaldið var tekið upp. Hækkandi flutningskostnaður hefur komið inn í umræðuna, en helmingurinn af því er ekki annað en skattheimta til ríkissjóðs, vegna baráttu Vestfirðinga fyrir umbótum. Ríkisstjórnin brást við með því að skipa enn eina nefnd til að fjalla um vanda Vestfjarða því að fyrirtækin verða að fara, m.a. út af háum flutningskostnaði. En það á að skipa enn eina nefnd til að fara í gegnum þetta.

Má ég, virðulegi forseti, minna á að í aðdraganda alþingiskosninga 2003 tóku þrjú ráðuneyti sig til, þ.e. samgönguráðuneytið, fjármálaráðuneytið og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, og skipuðu nefnd til að fara í gegnum flutningskostnað sem skilaði skýrslu og tillögum til ríkisstjórnar. Því var lofað í kosningabaráttunni að gera ætti eitthvað með hana en eftir kosningar hefur það auðvitað allt verið svikið eins og svo margt annað.

Ég lagði fram fyrirspurn á hinu háa Alþingi um að fá að sjá þessa skýrslu. Það er ákaflega merkilegt, virðulegi forseti, að þáverandi ráðherra byggðamála, Valgerður Sverrisdóttir, neitaði að birta skýrsluna í svari við fyrirspurninni og neitaði að fjalla um þær tillögur sem þar voru lagðar fram. Það var ákaflega furðulegt, virðulegi forseti, en er í takt við það sem áður hefur gerst í þessum málum.

Virðulegi forseti. Ég ætla einnig að gera að umtalsefni skilyrði bænda og dreifbýlisfólks til að senda unglinga sína til náms eins og aðrir Íslendingar. Eðli málsins samkvæmt þarf nánast alltaf að senda námsmenn, börn og unglinga, um langan veg á næsta stað þar sem ríkið rekur framhaldsskóla. Við viljum ekki reka framhaldsskóla í hverju þorpi á landinu heldur er þeim dreift um landið og þangað safnast saman nemendur. Á móti höfum við viljað jafna kostnað fólks af því að senda unglingana sína til náms fjarri heimili. Það eru dæmi um að kostnaður við að senda ungling að heiman í framhaldsskóla geti verið á bilinu 500–600 þús. kr. á ári, fyrir einn ungling. Það eru töluverðir peningar og viðkomandi heimili þarf sennilega að þéna upp undir milljón eða rúmlega það til að eiga þessar 500–600 þús. kr. svo hann geti staðið jafnfætis íbúum á þeim stöðum þar sem framhaldsskóli er rekinn af ríkissjóði, greiddur byggingarkostnaður, kennaralaun og rekstrarkostnaður þar sem sumum íbúum nánast dugar að ganga yfir götuna í skólann. Þetta höfum við viljað jafna út með því sem stundum er kallað dreifbýlisstyrkur en ég kýs frekar að nota nafnið jöfnunarsjóður til náms. Sá styrkur hefur ekki verið hækkaður fjölmörg undanfarin ár. Á tímum verðbólgunnar hefur hlutfall styrksins alltaf lækkað og gert fólki erfiðara um vik að senda unglinga til náms. Þetta finnst mér ósanngjarnt, virðulegi forseti. Þetta er hluti af rekstrardæmi heimilanna. Þetta er sanngjarnt jafnréttismál, snýst um jafnrétti og jafnræði sem við eigum auðvitað að vera stolt af og viljum hafa á Íslandi, eins og við teljum okkur gera en vantar oft mikið á.

Virðulegi forseti. Fleira snýr að rekstrarskilyrðum bænda. Þar kem ég inn á vegamál. Framlag á vegáætlun til tengivega og safnvega hefur lækkað hlutfallslega — í ár er framlag til tengivega rétt um 640 millj. kr. og 350 millj. kr. til safnvega — þegar það er haft í huga, virðulegi forseti, að það er ekkert smáræðis vegakerfi á Íslandi, eða rétt um 13 þús. kílómetrar alls. Ef við förum bara í landsbyggðarkjördæmin þrjú þá sjáum við það að stofnvegir eru þar í kringum 4 þús. km, tengivegir eru í kringum 4 þús. km og safnvegir rétt í kringum 2 þús. km. Þessi upphæð sem ég nefndi áðan, tæpur milljarður, á að fara til tengivega og safnvega á ári, í að byggja upp þetta mikla vegakerfi. Það er auðvitað ástæðan fyrir því að fjölmargar sveitarstjórnir og hagsmunasamtök fólks vítt og breitt um landið hafa sent samgöngunefnd áskorun, kvartanir og bréf þar sem hvatt er til vegabóta á þeirra svæði, eingöngu til þess að fólk komist á milli staða. Spurningin er ekki um á hvaða tíma og á hvaða hraða fólk kemst, eins og það snýst um á höfuðborgarsvæðinu, heldur yfir höfuð hvort fólk komist milli staða eða komi framleiðslu sinni, mjólk eða öðru yfir höfuð frá viðkomandi býli og í næsta kaupstað. Það er dálítið mikið atriði, virðulegi forseti, og rétt að hafa í huga að lítið fé hefur verið sett í þessa vegi sem gerir auðvitað að verkum að ástand þeirra er eins og það er.

Að lokum vil ég koma að því, virðulegi forseti, sem við þingmenn jafnaðarmanna höfum oft tekið til umræðu, þ.e. háhraðatengingar. Ég minnist þess þegar fjarskiptalög voru sett fyrir nokkrum árum. Þá þótti það mjög merkilegt hjá okkur, og við vorum í raun öll mjög stolt af því, þegar við settum upp svokallaða alþjónustu eða ISDN-samband sem átti að vera á hverju heimili. En vegna örra breytinga og framþróunar vorum við rétt búin að samþykkja lögin þegar það var orðið úrelt. Nú er ekki hægt að bjóða upp á slíkt samband, það er einfaldlega allt of hægvirkt. Það er lágmark að hafa ADSL-tengingu, háhraðatengingu sem er auðvitað í mjög mörgum dreifðum byggðum landsins og hjá bændum mjög léleg. Það skekkir samkeppnishæfni þeirra, bæði gagnvart bændum sem vilja stunda fjarnám eða unglinga sem vilja sækja sér gögn vegna skólagöngu, sem auðvitað færist mjög í vöxt. Þarna situr fólk einfaldlega ekki við sama borð. Hið sama gildir um bændur í þeim sveitum þar sem ferðaþjónusta er rekin. Á mörgum stöðum er ekki boðið upp á þetta og háir það auðvitað starfseminni, að ég tali ekki um GSM-sambandið.

Virðulegi forseti. Því miður varð hæstv. landbúnaðarráðherra frekar fýldur yfir því að ég skyldi spyrja hann í andsvari út í raforkukostnað og þá svakalegu hækkun sem hæstv. ríkisstjórn hefur leitt yfir bændur og búalið og fólk í dreifbýli, allt að 60% hækkun. Ég óska eftir því að hæstv. landbúnaðarráðherra verði kallaður í salinn í lok ræðu minnar þannig að ég geti spurt hann nokkurra spurninga. Hann hefur þá tækifæri til að svara þeim en ég geri það, virðulegi forseti, vegna þess að ég kann því illa að í fyrirspurn minni áðan og í stuttu andsvari, spurningu sem ég lagði fyrir hæstv. landbúnaðarráðherra, varð hann eins og ég sagði hvumpinn. Hann tók ekki þátt í því andsvari og svaraði ekki spurningu minni. Mér finnst það mjög alvarlegt og hæstv. landbúnaðarráðherra verður að venja sig af því að fara í fýluköst þegar nefndir eru þeir hlutir sem hann vill ekki heyra. (LB: Er ekki of seint að ala hann upp?) (JBjarn: Nei, það er aldrei of seint.) Nei, það er aldrei of seint og verður áfram hlutverk okkar að reyna að gera framsóknarmanninn, hæstv. landbúnaðarráðherra Guðna Ágústsson, að betri manni þótt það kunni að ganga erfiðlega. Engu að síður held ég að nauðsynlegt sé að ræða þessi mál við hann þannig að hann geri sér grein fyrir því hvernig málin eru stödd og hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram við það fólk sem minnst mátti við að fá svona högg á sig eins og í raforkukostnaðinum. Hann sem ráðherra getur ekki vísað því frá og sagt að það sé ekki á hans sviði. Það var einfaldlega þannig að það var flokkssystir hans, hæstv. núverandi utanríkisráðherra Valgerður Sverrisdóttir, sem var iðnaðarráðherra á þessum tíma. Af því að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er í salnum má minna á að hann var formaður iðnaðarnefndar á þessum tíma. Ég hygg að hann geti staðfest það sem ég hef sagt og hef sagt áður, að þau gögn sem iðnaðarnefnd fékk frá iðnaðarráðuneytinu á sínum tíma þegar verið var að vinna þessi mál voru mjög furðuleg. Það voru fögur markmið um jöfnun raforkukostnaðar og okkur var sagt að búast mætti við 1–2% hækkun á raforkukostnaði vegna þessara tilskipana og breytinga á raforkukerfi okkar Íslendinga. Staðreyndin er allt önnur.

Ég ætla að segja það sem ég sagði í andsvari áðan. Ég hef staðið í þeirri trú að það hafi jafnvel verið óviljandi að þau gögn komu ekki til okkar en síðustu daga hef ég komist að í samtölum við menn sem vinna í þessum geira að það hafi verið viljandi. Þetta voru gögn sem sneru að niðurgreiðslum á raforkukostnaði og á húshitunarkostnaði. Ég er viss um að ef þau gögn hefðu komið til iðnaðarnefndar sem þar var unnið með þá hefðum við aldrei afgreitt málið þar eins og gert var.

Nú sé ég að hæstv. landbúnaðarráðherra er kominn í salinn. Í lok ræðu minnar hyggst ég leggja tvær, þrjár spurningar fyrir hæstv. landbúnaðarráðherra. Þær snúa að rekstrarskilyrðum bænda og rekstrarskilyrðum fólks á landsbyggðinni. Hæstv. ráðherra hælir sér mjög af þessum samningi, sem er ágætur og eins og ég áður hef sagt stuðningur við þessa atvinnugrein. Við getum kallað þetta byggðastyrki til margra verst stöddu svæði landsins. En sumt í rekstrarskilyrðum þessarar greinar er mjög íþyngjandi.

Fyrsta spurning mín, virðulegi forseti, til hæstv. landbúnaðarráðherra varðandi raforkukostnaðinn. Ég sagði áðan að ég hefði ekki hugsað mér að taka þátt í þessari umræðu í 3. umr. En ég kunni því illa í stuttu andsvari við ráðherrann þegar ég spurði hann út í raforkulagakostnaðinn að hann svaraði því ekki í seinna andsvari sínu. Hann kaus frekar að sitja kyrr. Í 1. umr. um þetta mál, þegar ég ræddi það, kaus hæstv. landbúnaðarráðherra að ganga úr salnum.

Út af fyrir sig skil ég vel að það sé erfitt fyrir hæstv. landbúnaðarráðherra og varaformann Framsóknarflokksins, ráðherra í þessari ríkisstjórn, að fá þessar spurningar. En ég vil auðvitað taka það skýrt fram að það er ekki garmurinn hann Ketill, það er ekki bara Framsóknarflokkurinn, sem ber ábyrgð á þessu. Sjálfstæðisflokkurinn gerir það líka. En staðreyndin er sú að við þessa raforkulagatilskipun sem innleidd var og breytingu á raforkulögum þá hefur það gerst samkvæmt svari hæstv. iðnaðarráðherra að 25% þegna þessa lands fengu hærri húshitunarkostnað við þessa kerfisbreytingu. Ég ætla að stytta svar hæstv. ráðherra og rifja upp að varið er um milljarði í niðurgreiðslur á húshitun og 230 millj. kr. komi inn vegna þessarar breytingar. Þá var jafnframt sagt að ef þær dygðu ekki yrði að hækka þær. Í gögnum og skýrslum sem send voru iðnaðarráðuneyti kom fram að fyrirsjáanlegt væri, þá eins og þeir segja, að miklar hækkanir yrðu nema til aukinna niðurgreiðslna kæmi. Spurning mín er einfaldlega til hæstv. landbúnaðaráðherra: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera gagnvart þessu? Hvernig á að koma til móts við bændur og búalið hvað þetta varðar? Á þetta bara að standa svona og þeir bændur sem hafa fengið á sig þessar miklu hækkanir, allt að 60% hækkun, eiga þeir að búa við það óbætt?

Í öðru lagi, virðulegi forseti, vil ég spyrja um það sem snýr að flutningskostnaði og þeim miklu hækkunum sem dunið hafa á íbúum sem þurfa mikið á flutningum að halda, þ.e. flestum íbúum landsbyggðarinnar sem eðli málsins samkvæmt þurfa að greiða mest í flutningskostnað vegna þess að öllu er skipað hér á land. Aðgerð ríkisstjórnarinnar við kerfisbreytingu á þungaskatti yfir í olíugjald hefur stórhækkað flutningskostnað. Fyrir síðustu kosningar, virðulegi forseti, tóku þrjú ráðuneyti sig saman og létu útbúa fína skýrslu, að mér skilst, sem alþingismenn hafa ekki fengið að sjá. En því var lofað fyrir síðustu kosningar af núverandi ríkisstjórnarflokkum að þetta yrði gert eftir kosningar en síðan hefur ekkert verið gert. Og spurning mín til hæstv. landbúnaðarráðherra, vegna þess að þetta íþyngir mjög landbúnaði í landinu, bæði aðföng og flutningur á vöru frá bændum: Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera að því leyti gagnvart bændum og búaliði?

Þriðja spurning mín, virðulegi forseti, snýr einnig að bændum. Ég ræddi um þann sjálfsagða hlut að bændafólk sitji við sama borð og aðrir þegnar þessa lands við að senda unglinga sína í framhaldsskóla sem kostar 500–600 þús. kr. fyrir hvern ungling. En svokallaður dreifbýlisstyrkur sem getur aldrei orðið hærri en kannski 150 þús. kr. á móti hefur ekki hækkað í fjölmörg ár. Því hefur ekki komið til tals hjá hæstv. ríkisstjórn að hækka framlag í þennan jöfnunarsjóð til að koma betur til móts við það fólk sem býr í dreifðustu byggðum landsins og þarf að senda unglinga sína í skóla eins og hver annar? Það er skiljanlegt að fólk vilji senda börn sín til náms.

Þetta eru þær spurningar, virðulegi forseti, sem ég ber upp við lok máls míns í 3. umr. um þetta mál. Ég vildi leggja þær fyrir hæstv. landbúnaðarráðherra, varaformann Framsóknarflokksins og óska þess að hann gefi okkur svör og lýsi sýn sinni á þessi mál.