133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[16:32]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er svo erfitt í svona umræðum þegar verið er að ræða um sauðfjársamning að þá kemur þessi hv. þingmaður aftur og aftur með málaflokka sem heyra undir önnur ráðuneyti og hafa verið í vinnslu og eru í vinnslu. Ég verð að segja fyrir mig að ég ber mikla virðingu fyrir verkum iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem raforkuverðið heyrir undir, og fjármálaráðherra sem fer með þetta hvað þungaskattinn og flutningskostnaðinn varðar. Unglingar í framhaldsskóla heyra undir hæstv. menntamálaráðherra. Allt er þetta í vinnslu og skoðun sem þessir hæstv. ráðherrar gætu svarað við þessa umræðu. En ég læt ekkert teygja mig inn í þá umræðu. Hér er verið að ræða um sauðfjársamning, hv. þingmaður, (Gripið fram í.) og þá klára menn auðvitað þá umræðu. Hér er á dagskrá ákveðið mál, frumvarp (Gripið fram í: Er þetta viðkvæmt?) um ... Það er ekkert viðkvæmt. Þetta er ekkert viðkvæmt. Auðvitað liggur fyrir að hagsældin á Íslandi hefur verið mikil og að kjör allra landsmanna hafa stórbatnað á síðustu árum. (Gripið fram í: ... seinn á ferðinni.) Ja, vegna frelsis og vegna svo margra hluta. Hér hefur sannarlega verið góðæri í efnahagsmálum og menn hafa brotið í blað í sögunni og ný þróun er hafin á svo mörgum sviðum. Landsbyggðin eins og hún leggur sig hefur líka notið þess þó ég viðurkenni það vel að það eru auðvitað svæði á landsbyggðinni sem ég mundi vilja taka með sértækum aðgerðum og skoða nánar.

Sannarlega er það nú svo að hér standa menn upp og hafa rifist yfir álveri á Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð þó það hafi bætt kjör alls fólksins þar. Menn deila um það sem Húsvíkingarnir eru að hugsa og Þingeyingarnir þannig að það er engin heil brú í þessari umræðu. Ég ætla ekki að láta teygja mig út (Forseti hringir.) í það í þessari umræðu, hæstv. forseti, að svara því sem heyrir undir aðra hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.)