133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[16:34]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir yfir höfuð að koma í andsvar og reyna að svara spurningum mínum, sem hann gerir þó ekki. Hann skýtur sér frá því að svara og tala um þessi atriði sem auðvitað snúa að bændum og fólk í dreifbýli. Við erum að ræða um stóran og mikinn samning sem er töluvert mikið framlag ríkissjóðs til þessarar atvinnugreinar sem er að stærstum hluta beingreiðslur og annað slíkt. En á sama tíma tekur hæstv. ríkisstjórn sem hæstv. landbúnaðarráðherra situr í, ákvarðanir í ráðuneytum um að leggja hin og þessi frumvörp fram sem íþyngja bændum eins raun ber vitni um. Það er allt að 60% hækkun í raforkukostnaði. Svo er stórhækkun í þungaskatti, olíugjaldi og flutningskostnaði. Það eru einna verstu landsbyggðarskattar sem lagðir eru á. Svo er það jöfnunarsjóður til náms sem auðvitað snýr mest að fólki í dreifbýli. Hann hefur ekkert hækkað undanfarin fimm, sex ár. Þetta eru verk hæstv. ríkisstjórnar sem hæstv. landbúnaðarráðherra situr í og ber ábyrgð á alveg eins og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra og menntamálaráðherra sem hæstv. ráðherra kýs að vísa málinu til. Auðvitað er þetta á þeirra borði.

En hefur hæstv. landbúnaðarráðherra andmælt því sem þarna hefur verið gert, bæði því sem hefur verið gert til skattahækkunar og því sem ekki hefur verið gert, sem hefur gert það að verkum að „rekstrarskilyrði“ bændabýla, fólks í dreifbýli hafa stórversnað með þeim landsbyggðarsköttum sem lagðir hafa verið á og með framlagi til dæmis jöfnunarsjóðs framhaldsskólanema sem ekkert hefur hækkað undanfarin ár og að verðgildi auðvitað rýrnar og rýrnar og ekkert skeður?