133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[17:03]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við erum að ræða mikilvægan samning sem snertir kjör landsbyggðarfólks mikið. Eins og fram hefur komið vinna mörg þúsund manns við þessa atvinnugrein eða tengt henni þannig að hér er um gríðarlega mikilvægt mál að ræða.

Ég ætla eins og fyrri ræðumaður að hrósa hæstv. landbúnaðarráðherra örlítið. Hann á hrós skilið því að þegar við erum að ræða þessi málefni landsbyggðarinnar treystir hann sér til að ræða þau mál í björtu. Það er ekki svo með hæstv. sjávarútvegsráðherra sem á svo erfitt með að ræða sín mál að hann velur helst fundartíma upp úr kvöldmat og jafnvel undir miðnætti og fram í nóttina. Það er ákveðið hraustleikamerki hjá hæstv. ráðherra að treysta sér til að ræða málaflokkinn í björtu og mér finnst að við eigum að virða það við hann.

Það er ýmislegt um þennan samning að segja. Ég hef áður haldið ræðu um hann sem fór eitthvað fyrir brjóstið á hæstv. landbúnaðarráðherra. Það var þegar ég minntist á stefnu formanns Framsóknarflokksins sem boðaði borgríki fyrir tveimur árum og fleira sem okkur í Frjálslynda flokknum hugnaðist ekki í stefnu Framsóknarflokksins í málefnum landsbyggðarinnar. Þá nefndi ég það sérstaklega að svipta ætti bændur útræðisrétti sínum sem okkur hugnast ekki og sérstaklega ef svipta á þá rétti til að nýta fjöruborðið sem þeir eiga þó með lögum og loks hve Framsóknarflokkurinn gengur hart fram hvað varðar þjóðlendurnar. Þetta fór eitthvað fyrir brjóstið á hæstv. ráðherra og hann kallaði þetta svívirðingar en það er því miður ekki svo því að þetta er allt skjalfest, m.a. í Borgfirðingabók. Þessi framtíðarsýn formanns Framsóknarflokksins hefur því miður birst í stefnu ríkisstjórnarinnar á umliðnum árum.

Við ræðum hér mikilvægan samning eins og áður segir, þ.e. stuðning við framleiðslu á tæplega 9 þúsund tonnum af lambakjöti. Um það bil 2 þúsund bændur framleiða þetta kjöt og það skiptir því miklu máli hvernig við úthlutum þessum styrkjum. Mér finnst það jákvæð þróun hvað þennan samning varðar að verið er að fara úr beingreiðslum sem byggja á mjög gömlum framleiðsluréttindum sem menn áunnu sér fyrir liðlega 25 árum, því að það er auðvitað ekki hægt að vera að úthluta opinberu fjármagni út frá einhverjum réttindum sem menn áunnu sér fyrir liðlega aldarfjórðungi. Vissulega hafa menn að einhverju leyti keypt þessi réttindi en samt er þetta í rauninni grunnur sem gengur ekki upp. Þetta eru peningar sem nema í kringum 1,5 millj. á hvert býli árlega og það er athyglisvert þegar maður veltir fyrir sér styrkjum til landbúnaðarins að þetta virðist vera svipað hlutfall og til grænmetisframleiðenda, að þetta sé svipuð upphæð og á hvern framleiðanda þar. Þetta er sambærileg upphæð hvað það varðar.

Við verðum að hafa það í huga í umræðu um landbúnaðarmál að styrkir til landbúnaðar hafa dregist gríðarlega saman sem hlutfall af útgjöldum ríkissjóðs. Ég tel að margir sem hafa sig mjög í frammi í umræðunni og jafnvel í umræðuþáttum geri sér ekki grein fyrir þessu og telji enn að landbúnaðurinn sé gríðarlegur baggi á ríkissjóði en svo er alls ekki. Ef fjárlög ríkisins eru skoðuð sést að útgjöld til bænda eru liðlega 3% af heildarútgjöldum ríkisins en voru í kringum 8% eða rúmlega það á níunda áratugnum. Þetta hefur dregist gríðarlega saman og er nær þreföld minnkun á ekki lengri tíma. Það skal ekki sagt hvort þetta er þreföld lækkun í krónum talið heldur hefur líka annað gerst sem er það að útgjöld ríkisins hafa bólgnað út til ýmissa annarra málaflokka sem Framsóknarflokkurinn hefur stýrt, eins og t.d. utanríkisráðuneytið þar sem menn eru að opna sendiráð í fjarlægum heimshlutum fyrir einhverja sem eru nátengdir flokknum. Mér dettur strax í hug sendiráð í Suður-Afríku sem maður botnar í rauninni ekkert í að verið sé að leggja í. Útgjöld til landbúnaðarins hafa dregist saman, það er rétt að hafa það í huga í umræðu um hann og sýna þessum málaflokki fulla sanngirni hvað það varðar. Hann er ekki sá baggi sem hann var áður á samfélaginu heldur hafa útgjöld til hans minnkað gríðarlega. Eins og kom fram í umræðunni hefur sá hluti útgjalda heimilisins sem fer í matarkaup minnkað á síðustu árum og er núna rétt liðlega 13% og þar af eru útgjöld vegna innlendra landbúnaðarvara rétt liðlega 5%. Þetta er því ekki sú upphæð sem munar hvað mest um fyrir heimilin í heimilisbókhaldinu. Það er af og frá þó svo að stundum hafi verið látið að því liggja í umræðunni .

Ýmsir hafa farið mjög geyst í umræðunni og ég vil sérstaklega nefna hv. þm. Einar Odd Kristjánsson sem flutti mjög langa ræðu um útflutningsskylduna. Maður furðar sig í rauninni á að slík ræða um að koma á einhverri útflutningsskyldu komi frá aðila í flokki sem boðar viðskiptafrelsi. Það er mjög öfugsnúið en auðvitað er það eins og margt annað sem Sjálfstæðisflokkurinn boðar nú á síðustu árum sem er mjög öfugsnúið eins og það að vilja viðhalda kvótakverfi í sjávarútvegi þó að sýnt sé að það er algerlega árangurslaust og að koma á verðlagningu í sjávarútvegi sem styðst ekki við markaðslögmál. Það er kannski eftir öðru hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, þegar öllu er á botninn hvolft og málflutningur hans er skoðaður þá er hann kannski mjög lítið fyrir það að eðlileg markaðslögmál ráði, því miður. Við í Frjálslynda flokknum teljum það til bóta að útflutningsskyldan verði lögð niður og að bændum verði bætt upp sú mögulega skerðing sem verður á kjörum einhverra þeirra við það. Sumir komast eflaust betur af eftir að útflutningsskyldan er tekin af með þessu framlagi sem er aukið til bænda í þessum samningi vegna þess. Það er því ýmislegt jákvætt um það að segja.

Auðvitað hefur dreifbýlið farið mjög illa út úr stjórnartíð Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Því er ekki á móti mælt. Það er orðinn meiri munur á kjörum fólks á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Það er orðinn gríðarlegur munur og það er rétt að taka fram að núna munar u.þ.b. hálfri milljón króna á meðaltekjum Norðlendinga og höfuðborgarbúa. Stefna stjórnvalda hefur í rauninni miðað að því að hefta sjávarútveginn, sem hefur verið aðalatvinnugrein landsbyggðarinnar, og draga þannig úr störfum og uppbyggingu starfa á landsbyggðinni. Það hefur valdið því að laun þar hafa dregist aftur úr og eru nú um hálfri milljón króna lægri á Norðurlandi eystra en á höfuðborgarsvæðinu

Annað hefur líka valdið þessu sem er rétt að taka fram vegna þess að menn hafa verið að ræða kjör íbúa í landinu og það er skattastefnan. Skattastefna ríkisstjórnarinnar hefur valdið því að kjör meðaljónsins og -gunnunnar á Norðurlandi eystra hafa versnað við skattbreytingarnar. Ef þessar skattbreytingar hefðu farið í að hækka skattleysismörk og persónuafsláttur hefði fylgt launaþróun þá má vel áætla að meðalfjölskylda fyrir norðan hefði úr að spila liðlega 200 þús. kr. hærri upphæð árlega. Skattastefnan hefur því leikið landsbyggðarfólk mjög grátt. Þetta er ekki endilega bundið við þá sem búa á landsbyggðinni heldur má í rauninni segja sömu sögu um alla sem eru með meðaltekjur og lægri tekjur að munurinn er þessi. Það eru liðlega 240 þús. kr. árlega sem þessir tekjuhópar hefðu úr meiru að spila árlega í beinhörðum peningum ef skattastefnan hefði verið önnur. Þetta eru staðreyndir sem sýna það að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hugsa ekki um hag venjulegs launafólks, langt í frá, heldur hafa skattbreytingarnar í raun allar verið á þá leið að lyfta undir þá sem höfðu meira fyrir. Það er mjög sérkennilegt en þetta er sú stefna sem þeir velja og hafa með því aukið misskiptinguna í landinu með stjórnvaldsaðgerðum og skattbreytingum.

Það sem mig langar að ræða að lokum af því að við erum að ræða kjör dreifbýlisins er óbilgirnin sem birtist þegar verið er að úthluta styrkjum til ungra námsmanna sem búa á landsbyggðinni og umsóknarfresturinn er útrunninn. Hvað gerist þá? Unga fólkið er svipt styrknum og það gerir hæstv. menntamálaráðherra. Það eru dæmi um það. Ég fékk bréf úr Þingeyjarsýslu um dæmi þar sem kerfið vinnur svona grimmilega, ungur maður sótti um styrk en umsóknartíminn var liðinn og þó að hann væri í námi og hefði skilað sínu námi vann kerfið sitt verk og svipti þessa fjölskyldu öllum rétti til dreifbýlisstyrkjar sem nemur 90 þús. kr. fyrir önnina. Mér finnst það vera nokkuð grimmúðlegt að geta ekki sýnt meiri sveigjanleika en þetta gagnvart fólki sem býr á landsbyggðinni.

Þetta birtist því miður víðar. Það eru ljósritaðar heilu reglugerðirnar beint frá Brussel, Evróputilskipanir, og þær síðan látnar gilda hér alveg óbreyttar og þá er ég að tala um rafmagnið. Menn ljósrita að því er virðist heilu reglugerðabálkana frá Brussel og innleiða það sem eitthvert regluverk fyrir íslenskan rafmagnsmarkað. Það hefur því miður komið mjög illa út og valdið hækkunum, tugprósentahækkunum hjá bændum landsins. Ég heyrði það á andsvari hæstv. landbúnaðarráðherra að hann vildi leiða þetta hjá sér og ég skil það vel, hann vildi leiða það hjá sér að svara fyrir þetta. Mér finnst í rauninni að það sé kannski ekki aðalatriðið að menn svari fyrir þetta heldur bæti þetta, breyti þessu og komi þessu í samt lag. Mér finnst það vera aðalatriðið að láta ekki þessa reikninga hækka upp úr öllu valdi á hverju ári. Mér finnst það ekki vera líðandi.

Að lokum vil ég segja að við í Frjálslynda flokknum styðjum þennan samning og munum greiða honum atkvæði okkar. Hér er eflaust ýmislegt sem útfæra mætti með öðrum hætti eins og gæðastýringuna en maður hefur heyrt margan bóndann kvarta yfir því að þetta sé mjög flókið kerfi og erfitt að átta sig á þessum greiðslum. Ég tel að einfalda þurfi kerfið og gera það skýrara þannig að þeir sem vinna í því átti sig í raun betur á því hvað þar fer fram. En að lokum er rétt að ítreka það að við í Frjálslynda flokknum styðjum þennan ágæta samning.