133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

breyting á IV. viðauka við EES-samninginn.

648. mál
[17:47]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Eins og fram kom hjá hv. framsögumanni, Halldóri Blöndal, kom upp við umræðu málsins í utanríkismálanefnd spurningin um það sem þessi þingsályktunartillaga fjallar um, að Ísland muni eða eigi möguleika á að nýta undanþágu frá ákvæðum gerðarinnar um hinn innri raforkumarkað, hvort ekki hafi verið uppi sambærilegt skilyrði þegar við innleiddum hér tilskipun Evrópusambandsins og breyttum raforkulögum.

Svör embættismanna sem komu til nefndarinnar voru á þann veg að við hefðum í raun átt þess kost að sækja um undanþágu frá kröfum um að aðskilja flutning og dreifingu og sölu rafmagns. En ákvörðun hefði verið tekin um það í iðnaðarráðuneytinu að gera það ekki. Raforkulögin fóru á sínum tíma hér fyrir Alþingi og reynt var þrisvar sinnum að koma raforkulögunum í gegnum þingið. Í hin fyrri tvö skipti var lítið gert úr því að möguleiki væri á undanþágu frá ákvæðunum um að aðskilja flutning, dreifingu og sölu, en í þriðja skiptið sem raforkulögin komu hér fyrir var víst í greinargerð talað um að möguleiki væri á að sækja um undanþágu.

Ég hygg að það hafi kannski farið fram hjá mörgum hv. þingmönnum að þannig væri vegna þess að verið var að flytja málið í þriðja skipti og menn ekki að lesa sig í gegnum greinargerðina alveg frá upphafi til enda. Svo virðist sem þarna hafi verið breyting á áherslu, þ.e. að möguleikinn á því að sækja um undanþágu hafi verið dreginn skýrar fram í þriðja skiptið sem málið kom hér fyrir.

Við nefndarmenn óskuðum eftir að fá skýringar á því hvernig þetta hefði átt sér stað og hvað hafi orðið til þess að sú ákvörðun hafi verið tekin í ráðuneytinu að gera ekki ráð fyrir að nýta undanþágumöguleika sem tilskipun Evrópusambandsins gerði ráð fyrir og við fengum í hendur, ég held að það hafi verið í gær frekar en í fyrradag, nokkuð þykkan doðrant frá iðnaðarráðuneytinu þar sem farið var yfir málið. Ég verð að viðurkenna að ekki hefur gefist tími til þess í önnum þingsins að lesa í gegnum þann mikla pappír sem við fengum sem svar við tiltölulega einfaldri spurningu.

Ég held að það sé full ástæða fyrir hv. þingmenn að gefa sér tíma til að velta því fyrir sér hvort það geti verið að á þeim tíma sem við breyttum raforkulögum hafi verið gert minna úr möguleikum okkar til að sækja um undanþágu en raunin var í tilskipun Evrópusambandsins.

Ég man í umræðunum sem hér fóru fram var margoft spurt hvernig í ósköpunum stæði á því að Ísland, þessi einangraði markaður sem ekki væri tengdur neinum öðrum raforkumarkaði, þyrfti að taka upp þessa gerð frá Evrópusambandinu og yfirleitt voru svörin þau að hugsanlega hefðum við getað fengið undanþágu ef við hefðum nægjanlega snemma í vinnuferlinu áttað okkur á því hvað hefði verið á ferðinni og óskað eftir undanþágum á því stigi.

En svo núna þegar þingsályktunartillagan er lögð fram er það dregið fram að í raun sé möguleiki á því fyrir Íslendinga, vegna þess hvernig kerfið hér sé skilgreint, að sækja um undanþágu frá því að þurfa að aðskilja flutninginn, söluna og dreifinguna. Með öðrum orðum, þessi aðskilnaður sem hefur orðið til þess að hækka raforkuverð á Íslandi, því það held ég að sé óumdeilt hjá flestum að rafmagnsverð fyrir meginþorra heimila á Íslandi hefur hækkað við þessa aðgerð, hefði kannski ekki þurft að koma til og hið mikla fyrirtæki Landsnet sem á orðið allt flutnings- og dreifingarkerfi á Íslandi hefði ekki þurft að verða til ef við hefðum sótt eftir undanþágum frá tilskipun Evrópusambandsins.

Ég vildi, þó að það tengist ekki beint þessu máli, og þó, nefna þetta því umræðan í utanríkismálanefnd varð nokkuð mikil um þetta og svör embættismannanna sem komu fyrir nefndina voru ekki alveg hrein og tær. Við erum búin að fá skriflegt svar fá embættismönnunum um hvað var á ferðinni þegar raforkulögin voru tekin hér fyrir. Sá pappír er það mikill að vöxtum að það þarf að gefa sér góðan tíma til að lesa í gegnum hann, því eins og flestir vita er það þannig að þegar tekið er beint upp úr Evrópugerðum vill það oft verða tyrfinn texti og þarf að lesa hann margoft til að átta sig almennilega á hvað verið er að segja með þeim orðum, sem þó eru íslensk, er standa á blaðinu.