133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

umhverfismengun af völdum einnota umbúða.

693. mál
[18:07]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil bara þakka hv. þingmanni Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að koma þessum mikilvægu skilaboðum til þingheims. Ég er einn af þeim sem hafa látið sig varða miklu hagsmuni Endurvinnslunnar. Ég hef eins og margir hægri grænir barist fyrir því gegnum árin að endurvinnslugjaldið yrði fært yfir á fleiri flokka en bara þá flokka íláta sem nú eru undir.

Við umræðuna fyrir nokkrum dögum spurði ég hv. þingmann hvort í þessu fælist að ríkisstjórnin væri að heimta einhvers konar leyniskatta líka. Ég heyrði það á máli hv. þingmanns að ákveðinn munur væri á ílátum eftir virðisaukaskattsgjaldflokkum. Sum eru í 24,5%, önnur í 7%.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það hafi komið í ljós við rannsókn nefndarinnar og ef svo væri hvort hann gæti upplýst mig um það hversu miklu sú upphæð nemur samtals, ef hann hefur svar við því.