133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[18:18]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér er um að ræða lítið frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 22, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. Eftir sem áður er efni frumvarpsins eingöngu um veiðar og vinnslu erlendra skipa utan fiskveiðilandhelgi Íslands. Ég benti á þetta í meðförum sjávarútvegsnefndar og spurði embættismenn sjávarútvegsráðuneytisins hvort ekki væri rétt að fara að huga að því að setja sérstök lög varðandi það sem er utan lögsögunnar. En ég fékk þau svör að við hefðum nú kannski ekki heimild til þess að vera að setja lög um það sem þar er og því væri þessu skotið inn í lögin.

En það hljómar samt ankannalega að vera með lög um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi og það eina sem fram kemur í frumvarpinu eru veiðar slíkra skipa utan landhelgi.

Annað sem umræða varð um í nefndinni var að nú hlyti að verða algjörlega nauðsynlegt að efla Landhelgisgæslu Íslands þar sem hún á vera með meira eftirlit og skipta sér meira af umræddum skipum og mér heyrðist vera samhljómur um það í nefndinni að full ástæða væri til þess.

En mig langar að spyrja hv. formann sjávarútvegsnefndar, Guðjón Hjörleifsson, hvort hann sé ekki sammála mér í því að nauðsynlegt sé að efla Landhelgisgæsluna verulega frá því sem nú er, m.a. til þess að hún geti sinnt því aukna hlutverki sem hér er verið að leggja til að hún eigi að sinna, því að Landhelgisgæslan er jú lögreglan okkar á sjónum og það er alveg ljóst að verði þetta frumvarp að lögum eru lagðar talsverðar starfsskyldur á herðar Landhelgisgæslunni og því langar mig að spyrja hv. þm. Guðjón Hjörleifsson hvort ekki sé nauðsynlegt í beinu framhaldi af þessu og samhliða því að efla Landhelgisgæsluna verulega.