133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[18:20]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú einu sinni svo með veiðar þessara skipa sem eru að veiða rétt utan landhelgi, t.d. á karfamiðum á Reykjaneshrygg, rétt utan 200 mílna markanna, að ýmsar sögur eru um að þau skip séu að læða sér inn fyrir mörkin og jafnvel koma inn í fiskveiðilandhelgina okkar vegna þess að það sé öllum ljóst að eftirlitið sé takmarkað, eftirlitið sé lítið og við séum ekki í stakk búin til að verjast því að þau skip komi inn í fiskveiðilögsöguna og athafni sig hér.

Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir sjálfstæða þjóð sem á í vandræðum með að byggja upp fiskstofna sína ef við höfum svo ekki þau tæki og tól og það fjármagn sem þarf til að ganga eftir því að eftir reglum sé farið innan landhelginnar þó ekki væri annað. En oft hefur maður horft á það svolítið hissa hversu lítið við höfum sinnt eftirlitinu einmitt með landhelgislínunni þarna suður á Reykjaneshrygg. Við hljótum að þurfa að efla þetta eftirlit verulega og það gerist náttúrlega ekki nema með auknu fjármagni til Landhelgisgæslunnar.

Síðan þarf Gæslan að fá mun betri aðstöðu en hún hefur í dag, bæði fyrir flugflota sinn og skip. Það liggur í hlutarins eðli að við eflum starfsemi Landhelgisgæslunnar með því að flytja hana á Suðurnes, á Keflavíkurflugvöll með flugflotann og skipin í hafnir á Suðurnesjum því þar er aðstaða til að taka við Gæslunni og engin ástæða til að vera að eyða miklum fjármunum í að skapa aðstöðu sem er til heldur að veita fjármuni í aukið eftirlit og aukinn tækjakostnað til að sinna eftirlitinu.