133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[18:23]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hér er frumvarp til laga um breytingar á lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands og síðan nefndarálit sem fjallar um veiðar og vinnslu erlendra skipa utan fiskveiðilandhelgi Íslands, eins og hv. þm. Jón Gunnarsson benti á. Í sjálfu sér styð ég þá nálgun og málið sem slíkt. En ég velti því áfram fyrir mér, eins og ég gerði í nefndinni, hvaða raunverulega möguleika við höfum til að taka á slíkum málum ef brotaviljinn er einbeittur. Við höfum verið að tala um alþjóðlega samninga, færa skip til hafnar. Þá þarf nú heldur betur að styrkja Landhelgisgæsluna ef hún á að geta tekið skip með einbeittan brotavilja til hafnar. Við erum aðilar að alþjóðasamningum hvað þetta varðar og auðvitað getum við leitað réttar okkar þar.

Ég heyrði ráðherra, hvort það var hæstv. sjávarútvegsráðherra eða nýskipaður utanríkisráðherra, sem sagði hreinlega að mig minnir opinberlega, hvort sem það var í gríni eða alvöru, að kannski yrði að fara að beita klippunum aftur. Fara að beita klippunum aftur og sló sér upp á því.

Ég vil spyrja hv. formann sjávarútvegsnefndar hvaða aðferðir höfum við til að beita í þessum málum? Megum við beita klippunum? Eigum við að fara að beita klippunum? Eigum við að fara að setja klippur um borð í varðskipin, eins og mig minnir að hæstv. utanríkisráðherra hafi sagt á síðastliðnu sumri? Eigum við að fara að setja klippurnar í skipin? Er það löglegt eða er það ólöglegt?