133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[18:35]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Ég vildi þakka fyrir þær góðu undirtektir sem þetta mál hefur fengið í þinginu. Ég átti von á því miðað við þær umræður sem hafa farið fram um þessi mál áður.

Það er ástæða til að undirstrika alvöru þessa máls og er kannski ekki öllum ljóst hvað hér getur verið í húfi. Bæði eru miklir hagsmunir í húfi vegna veiða skipa sem hafa neikvæð áhrif á stofninn og taka þannig tekjur frá íslenskum sjómönnum, útvegsmönnum og íslenska þjóðarbúinu. Hitt er einnig ástæða til að undirstrika en það er að enginn vafi er á því að tilkoma þessara skipa og veiða hefur grafið undan markaði fyrir fiskafurðir okkar á erlendum mörkuðum. Þessi fiskur hefur verið falboðinn á lægra verði vegna þess að menn hafa ekki getað rakið uppruna hans. Áhrifin hafa fremur orðið til að lækka verð á íslenskum afurðum þannig að óbeinu áhrifin sem við getum kannski ekki mælt í rauninni hafa verið heilmikil.

Það er mikilvægt fyrir okkur að taka á þessum málum af fyllstu festu. Við höfum verið í ákveðinni forustu í þessum efnum undanfarin ár. Það hefur vakið athygli. Það er ljóst að mikil vakning hefur verið í þessa veru meðal margra þjóða, strandríkja og hjá erlendum valdhöfum á vettvangi. Síðast á fundi hjá FAO fyrir fáum dögum voru þessi mál mikið til umræðu. Það er alveg ljóst mál að hér erum við bæði þátttakendur í alþjóðlegri þróun en líka á vissan hátt í forustu í þeim efnum. Þess vegna er það mjög mikilvægt að einmitt við skulum leiða í lög breytingar sem er ætlað að herða róðurinn fyrir okkur áfram

Ég tek síðan undir það sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði og hv. þm. Jón Gunnarsson við 1. umr. um málið, að það er ástæða til að hyggja að því hvernig við getum fylgt þessu eftir. Það er gert á margan hátt. Efla þarf þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar, kaupa nýtt varðskip og allt er það liður í að reyna að gæta réttar okkar sem strandveiðiríkis og til að nýta þennan mikilvæga stofn sem úthafskarfinn er.