133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:44]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. formanni sjávarútvegsnefndar fyrir orð hans í garð nefndarinnar og minn garð einnig. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs. Verðlagsstofan er eins og allir vita tæki til að ganga úr skugga um að sjómenn hafi tryggingu fyrir lágmarksverði á skipum sem þeir róa á. Eitt meginhlutverk Verðlagsstofunnar hefur verið að koma í veg fyrir að sjómenn séu látnir taka þátt í kvótaleigu eða kvótakaupum.

Ég lýsti því við 1. umr. að mér finnst Verðlagsstofa skiptaverðs ekki hafa verið að sinna starfi sínu almennilega undanfarin ár. Þá horfi ég tvö ár aftur í tímann Mig langar að spyrja hv. formann sjávarútvegsnefndar hvort hann telji að Verðlagsstofan hafi staðið sig eins og hún hefur lögheimildir til. Að mörgu leyti eru þær breytingar sem við erum að gera á lögunum um Verðlagsstofuna núna gerðar til þess að ýta við stofnuninni, að hún fari að sinna því hlutverki sem hún hefur að að mínu viti hingað til haft lögheimildir til að sinna.

Ég verð að segja eins og er, að miðað við það sem gerst hefur hjá Verðlagsstofu þá hefur hún minnt á bréfalúgu til að taka við samningum um verð fremur en að hún sé raunverulega að leggja á það mat hvort það verð sem fram kemur sé hið rétta. Við fengum upplýsingar um það í nefndinni að meðalverð í þeim samningum sem Verðlagsstofa er að blessa í þorski eru 140 kr. sem er innan við helmingur af því verði sem gengur og gerist á frjálsum markaði. Því langar mig að spyrja hv. formann sjávarútvegsnefndar: Er hann ánægður með hvernig Verðlagsstofa hefur unnið undanfarin tvö ár?