133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:47]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hv. formaður sjávarútvegsnefndar Guðjón Hjörleifsson ekki svara spurningu minni nægjanlega skýrt. Ef við horfum til ársskýrslu Verðlagsstofu fyrir árið 2006 þá kemur í ljós að þrjú mál bárust úrskurðarnefnd og vörðuðu þrjú skip.

Kostnaður við rekstur Verðlagsstofu skiptaverðs var rúmar 20 millj. kr. það ár. Málsettar skoðanir, sem eru kallaðar svo, þ.e. mál sem hafa verið tekin fyrir og skoðuð, voru ef ég man rétt á árinu 2006, 33. Í lok skýrslunnar frá Verðlagsstofu skiptaverðs kemur fram að verkefnaleysi hrjái stofnunina.

Því veltir maður fyrir sér á sama tíma og maður horfir á að Verðlagsstofan nýtir sér ekki þær heimildir sem hún hefur í lögum til eftirlits og til þess að grípa inn í ef um er að ræða óeðlilega lágt fiskverð eða um er að ræða að ekki sé gert upp við sjómenn í samræmi við þá samninga sem lagðir eru fram, að hún ætti að geta haft kappnóg að gera.

Einhverra hluta vegna hefur Verðlagsstofan samt ekki nýtt sér þær lögheimildir sem hún hefur. Til dæmis er hér verið að skerpa á því í nefndaráliti að Verðlagsstofu beri að ganga eftir því að samningar um fiskverð komi frá bátum í krókaaflamarkskerfinu, þ.e. smábátunum. Hingað til hefur hún ekki gert það þó að lög kveði skýrt á um að henni beri að kalla eftir samningum á öllum skipum þar sem verið er að flytja aflamark á milli skipa, hvort sem það er hið hefðbundna aflamark eða krókaaflamarkið. Því verður ekki hjá því vikist að spyrja áleitinna spurninga eins og þeirra hvort það geti verið að þarna sé pottur brotinn í starfseminni.