133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:57]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við einn angann af annmörkum kvótakerfisins sem er sá að útgerðarmenn hafa það sterk tök á verðmyndun og þeir hafa nýtt sér þær leiðir sem lögin bjóða upp á að þeir geta hlunnfarið sjómenn um hlut sinn af andvirði fisksins sem þeim ber að öðru jöfnu réttur til að fá laun af og eins hafa þeir orðið uppvísir að því á fyrri tíð að þvinga launþegana, sjómenn, til að taka þátt í að greiða fyrir leigu á kvóta til þeirra báta sem þeir hafa verið ráðnir á.

Reynt hefur verið að bregðast við þessu með því að setja á fót sérstaka eftirlitsstofnun, eina af nokkrum, til þess að fylgjast með þessu kerfi. Það er kannski lýsandi fyrir það hversu meingallað þetta kerfi er að hafa þurfi litlar eftirlitsstofnanir til að fylgjast með mönnum, ekki bara Fiskistofa heldur líka þessi stofa, Verðlagsstofa skiptaverðs. Hún á að geta aflað sér upplýsinga um það verð sem útgerðarmaður sem seljandi og kaupandi ákveður að selja fiskinn á en það ákvarðar auðvitað hlut og laun sjómannsins.

Þetta er töluvert vandamál eins og margir þekkja og hefur verið minnst á í andsvörum. Verð í beinum viðskiptum er allt annað en verð á mörkuðum. Verðmyndun þar sem farið er fram hjá eðlilegum markaðslögmálum er óeðlileg. Við sjáum t.d. á upplýsingum um meðaltalsverð frá Fiskistofu í desembermánuði að í beinni sölu var meðaltal á óslægðum þorski 124 kr. á kíló en á mörkuðum 204 kr. Þarna munaði 80 kr. eða líklega um 40% í meðaltalsverði á óslægðum þorski eftir því hvort markaðslögmálin ákvörðuðu verðið á fiskinum eða beinir samningar milli útgerðarmanns og fiskkaupanda sem stundum eru þar að auki sami aðilinn.

Það þýðir einfaldlega að sjómenn sem róa eftir þessum kjörum fá auðvitað lægra verð sem því nemur, sem nemur því að meðalverð í beinum viðskiptum er lægra en á mörkuðum. Þetta hefur haft víðtæk áhrif um land allt eins og menn geta kannski ímyndað sér. Til dæmis eru ein áhrifin þau að aðsókn að skipsrúmum í bátum þar sem menn selja meira og minna í beinum viðskiptum á verði sem er miklu lægra en fæst á mörkuðum er minni en á bátum þar sem launin eru ákvörðuð á mörkuðum. Þar munar töluvert miklu. Við sjáum líka að útvegsmenn hafa stundum brugðist við því með því að sækja sér vinnuafl sem sættir sig við lægri laun en íslenskir sjómenn. Ég get nefnt að á tveimur stórum línubátum sem ég þekki til, þar sem eru 12–13 manns um borð, eru erlendir sjómenn eða útlendingar í 7 til 8 plássum af þessum 13, þ.e. að nánast allar hásetastöðurnar eru mannaðar Pólverjum og yfirmannastöðurnar Íslendingum. Það er vegna þess að Íslendingarnir sætta sig ekki við þau laun sem í boði eru en þau eru ákvörðuð af útvegsmanninum og því verði sem hann vill borga sjálfum sér fyrir fiskinn. Íslendingarnir fara í aðra vinnu eða í önnur pláss og þá er brugðist við því með því að ráða erlent vinnuafl sem sættir sig við þessi laun. Þetta er auðvitað dæmi um það þar sem verið er að þrýsta launakostnaði niður og útgerðarmaðurinn nær að lækka launakostnað útgerðar sinnar með þessu móti.

Ég held að allir hljóti að vera sammála um að þetta sé ekki æskileg þróun. Það er ekki eðlilegt að launþegar séu berskjaldaðir í þessu tilliti, að þeir eigi það alveg undir útvegsmanni hvaða laun þeir hafi. Þeir geta ekki treyst á að eðlileg markaðslögmál ráði því hvað fæst fyrir fiskinn og eins og hér var komið inn á áðan er stundum ekki vænlegt að gera athugasemdir við það verð sem ákvarðað er fyrir fiskinn. Menn hafa ekki alltaf mikið upp úr því að gera athugasemdir og reyna að fá leiðréttingu sinna mála. Þetta er einn af slæmu ókostunum við kvótakerfið að útvegsmaðurinn hefur alla þræði í hendi sinni. Hann hefur heimildirnar undir höndum. Hann getur meira að segja ákvarðað verðið fyrir fiskinn og launþegarnir og aðrir sem hlut eiga að máli hafa ekki tök á að rétta hlut sinn nema ef menn færu þessa leið í gegnum Verðlagsstofu skiptaverðs og það er allur gangur á því hvað menn telja mikinn árangur mögulegan í þeim efnum.

Hér er ég með viðtal við einn af stórútgerðarmönnum landsins frá Vestmannaeyjum, sem birtist í Dagblaðinu 9. febrúar, þar sem hann lýsir glaðhlakkalega hvernig hann nýtir sér löggjöfina og segir einfaldlega í fyrirsögn: „Við fáum aðra til þess að veiða fyrir okkur.“ Útvegsmaður sem fær veiðiheimildir á grundvelli þess að hafa stofnað til þeirra með veiðum fær leyfi til þess að nýta heimildirnar til annars en að veiða, til þess að ráða til sín aðra til að veiða fyrir sig á þeim kjörum sem hann ákveður. Fyrir vikið fá sjómenn hans þá ekkert í sinn hlut, þeir fá engin vinnulaun eða laun fyrir að nýta þá aflaheimild sem aðrir veiða. Þessi ágæti útgerðarmaður segir beinlínis að hann hagi sinni útgerð iðulega þannig að hafa meiri veiðiheimildir undir höndum en skip hans ráði við að veiða og það sé gert í því skyni að geta fengið aðra til að veiða, það sé einfaldlega hagkvæmara fyrir hann að gera það svo.

Það kom fram á fundi á Ísafirði fyrir skömmu, líklega síðasta sunnudag, að það sé talið að um 35 þús. tonn í þorskígildum hafi verið seld eða flutt frá Vestfjörðum og að útvegsmenn þar hafi aðeins keypt í staðinn eða fengið inn á svæðið um 10 þús. tonn á móti. Það eru því um 25 þús. tonn sem eru nettóflutningur af svæðinu yfir á önnur svæði. Ef við skoðum hvað þetta eru miklir peningar fyrir þá sem gera út, stunda þessa atvinnustarfsemi, og miðum við 150 kr. á kíló af þorski í leigu af kvóta þá eru þessi 35 þús. tonn, ef þau ættu að leigjast öll, um 5,5 milljarðar kr. Ef halda ætti uppi sama atvinnustigi, sama krafti í atvinnulífinu kostar það 5,5 milljarða kr. Það er skatturinn sem menn þurfa að borga einstaklingum sem hafa veiðiheimildir undir höndum og hafa það svigrúm að nýta þær ekki. Það er von að eitthvað láti undan þegar menn skipa svo málum að fela nokkrum aðilum vald til að afla sér tekna með þessu móti. 5,5 milljarðar kr. eru býsna mikið fé og ef þessar veiðiheimildir yrðu keyptar sem hlutdeildir mundu þær kosta um 90 milljarða kr. Þessar aflaheimildir mundu kosta nánast langleiðina upp í Kárahnjúkavirkjun. Það sér hver maður að slíkt er gríðarlegt fé og er auðvitað ekki á lausu. Það blandast engum hugur um að í slíku kerfi með svona framsali, algerlega skilyrðislaust, lætur atvinnulífið einfaldlega undan síga þar sem menn hafa þurft að reiða sig mjög á sjávarútveginn.

Til skamms tíma héldu menn að stórir staðir eins og Akranes og Akureyri mundu ævinlega fljóta ofan á í þessu ágæta kerfi okkar en nú er svo komið að á Akranesi er útgerðin meira og minna komin út úr bænum og á Akureyri gerðist það í byrjun ársins að eigandi Útgerðarfélags Akureyrar, sem heitir núna Brim, ákvað að flytja allan kvótann frá Akureyri til Reykjavíkur. Það voru engar smátölur. Það voru um 18.200 tonn í þorskígildum talið sem fluttust með fjórum togurum frá Akureyri til Reykjavíkur. Skýringin sem eigandinn gaf var einfaldlega sú að hann væri að flýja óvild Sjómannafélags Eyjafjarðar en það sér hver maður hvað eigandinn var að gera. Hann var einfaldlega að segja við félagsmenn í Sjómannafélagi Eyjafjarðar að annaðhvort væru forustumenn félagsins eins og hann vildi hafa þá, þeir sætu og stæðu eins og hann vildi, eða hann færi í burtu með allar heimildirnar og auðvitað færi vinnan á eftir.

Það er ekki hægt, virðulegi forseti, að una slíku kúgunarkerfi þar sem menn leynt og ljóst nota aðstöðuna sem þeir hafa til þess að kúga aðra. Þess vegna er ekki friður um þetta kvótakerfi, þess vegna eru um 70% landsmanna á móti þessu kerfi og munu vera það áfram þar til að gerðar verða þær breytingar á kerfinu sem menn sækjast eftir.

Þetta mál mun áfram verða kosningamál í öllum kosningum, bæði núna og framvegis, þar til menn taka á þessu óréttlæti sem er innbyggt í núverandi löggjöf um stjórn fiskveiða. Þjóðin mun aldrei sætta sig við að búa til einhverja greifa og fursta sem hafa í hendi sinni það vald að geta skaðað stórlega hagsmuni fjölda fólks, bæði atvinnulega og eignalega, og hafa gert það. Um það verður aldrei friður, virðulegi forseti. Menn skulu ekki láta sig dreyma um að það takist að beygja alla íslenska stjórnmálamenn undir vald kvótagreifanna, hversu valdamiklir sem þeir kunna að vera í stjórnarflokkunum.

Það skýrir hvers vegna svona mikill þungi hefur verið í umræðunni að undanförnu um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins þess efnis að koma þar inn ákvæðum sem fyrirbyggja að útvegsmenn geti með tímanum litið svo á að þeir eigi þessar fiskveiðiheimildir um aldur og ævi og breytingar sem síðar kunni að verða gerðar verði háðar þeim annmarka að þurfa að borga þeim fullar bætur fyrir. Það er eðlilegt að þjóðin krefjist þess að slíkar breytingar séu gerðar. Það er að sama skapi fyrirsjáanlegt að vegna þess hversu sterkir hagsmunir eru innan dyra í stjórnarflokkunum báðum hafi þvælst fyrir og tekist að koma í veg fyrir að nokkur árangur varð af þessu starfi og fyrirheitum og í raun og veru afhjúpað það sem suma grunaði að vísu, að það væri engin alvara hjá einstökum talsmönnum stjórnarflokkanna í því að til stæði að breyta stjórnarskránni til að tryggja hagsmuni almennings.

Skýrasta dæmið eru auðvitað yfirlýsingar hæstv. heilbrigðisráðherra sem lýsti því yfir að ef þetta ákvæði kæmi ekki inn í stjórnarskrá mundi ríkisstjórnin trosna upp og verða minnihlutastjórn, sem voru auðvitað skýr skilaboð ráðherrans um að Framsóknarflokkurinn færi úr ríkisstjórninni. En hvað kom á daginn? Hann stóð að því að koma í veg fyrir að málið næði fram að ganga og situr auðvitað áfram í ríkisstjórn eins og ekkert sé og heilbrigðisráðherra ekkert síður en aðrir ráðherrar flokksins. Þetta er eitt af því ömurlegasta sem maður hefur séð í stjórnmálum um langa hríð, að yfirlýsing af þessu tagi reynist svona bersýnilega innihaldslaus og almenningi ljóst að aldrei var nein meining í þessum orðum. Þetta var bara sjónarspil til að reyna að bjarga andlitinu fyrir kosningar.

Ég er eiginlega alveg hissa á því að hæstv. heilbrigðisráðherra skuli sitja enn þá í ráðherrastólnum og þora að láta sjá sig í þingsalnum, því að eftir slíkar yfirlýsingar ætti hver maður sem kann að skammast sín að halda sig fjarri fyrst um sinn á meðan aðeins fennir í sporin. En svo er ekki og ráðherra mætir hér glaðhlakkaleg til starfa áfram í þeirri ríkisstjórn sem hún sagði fyrir fáeinum dögum að mundi trosna upp og verða minnihlutastjórn ef ákvæðið næði ekki fram að ganga í stjórnarskrá.

Það er rétt að þingmenn muni eftir þessum orðum og kjósendur verða auðvitað minntir á þau hvern einasta dag þannig að þeir gleymi því ekki hvað menn sögðu og hvað menn stóðu við. Svo kemur formaður Framsóknarflokksins og bítur höfuðið af skömminni með því að lýsa því hér yfir að stjórnarandstaðan hafi komið í veg fyrir að þetta ákvæði næði fram að ganga. Daginn eftir að hann hafði sjálfur lýst því yfir að það stæði aldrei til að fleyta þessu máli í gegnum þingið með stuðningi stjórnarandstöðunnar vegna þess að þetta væri ríkisstjórnarmál.

Framsóknarmenn verða auðvitað að svara því hér í þessari umræðu, hvernig ætla þeir að svara kjósendum fyrir þessar yfirlýsingar sem þeir hafa gefið síðustu daga og þar áður? Hvernig ætla þeir að útskýra yfirlýsingar sínar fyrir kjósendum?

Hvernig má það vera, virðulegi forseti, að handhafar kvótans hafi svona sterk tök í stjórnmálaflokki að hann hættir að hugsa um almannahagsmuni, hættir að hugsa um hagsmuni venjulegs fólks, sjómanna, fiskvinnslufólks en hugsar bara um þá sem eiga kvótann?

Það hefur vakið sérstaka athygli mína að í þessari umræðu um stjórnarskrárbreytinguna hefur því verið haldið fram af hálfu ráðherra, t.d. hæstv. umhverfisráðherra, að óbreytt löggjöf væri ófullnægjandi. Hún mundi leiða til þess fyrr eða síðar að fiskveiðiheimildirnar yrðu að varanlegri eign sem ekki væri hægt að taka af útvegsmönnum án bóta. Þess vegna yrði þetta ákvæði að ná fram að ganga, til að stöðva eignamyndun útvegsmanna.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur líka sagt svipað. En nú þegar málið liggur fyrir þá hljótum við að spyrja: Hvernig ætla framsóknarmenn og ríkisstjórnin að stöðva eignamyndun útvegsmanna sem samkvæmt þeirra eigin skilningi á sér stað á hverjum einasta degi undir óbreyttum lögum? Hver verður staðan eftir fjögur ár þegar menn fara að huga að því næst að breyta stjórnarskránni í fyrsta lagi? Verður þá að þeirra mati og hæstv. sjávarútvegsráðherra staðan orðin svo að eignamyndun útvegsmanna verði svo langt komin að ekki verði aftur snúið?

Ríkisstjórnin verður auðvitað að svara þessu fyrst hún fór af stað í þennan leiðangur undir þessu yfirskini og hætti svo við. Þá verður hún að svara spurningunni um hvernig eigi þá að stöðva eignamyndunarkröfu útvegsmanna sem mun að óbreyttu eiga sér stað a.m.k. næstu fjögur árin til viðbótar því sem orðið er. Það er ekki hægt að halda því fram fyrir fáeinum dögum að það þurfi að leggja fram frumvarp um breytingu á stjórnarskránni einmitt vegna þess að hættan sé þessi og þetta sé að gerast og segja svo að núna sé þetta allt í lagi næstu fjögur árin.

Auðvitað er það ekki hægt. Menn verða að sjá hvað stjórnarflokkarnir eru að gera, með þessum málflutningi eru ráðherrar ríkisstjórnarinnar að tala eignamyndun útvegsmanna áfram. Þeir eru að gefa þær lögskýringar að eignamyndun útvegsmanna eigi sér stað. Þegar þeir ákvarða að málið nái ekki fram að ganga eftir að hafa gefið þessar skýringar, þá eru þeir búnir að festa það upp á vegg svo allir sjái þá lögskýringu ríkisstjórnarinnar að næstu fjögur árin haldi eignamyndun útvegsmanna áfram.

Þetta eru nánast eins og fyrirmæli frá ríkisstjórninni til dómstóla um að þeir skuli að lokum hundskast til þess að fara að dæma útvegsmönnunum kvótann til ævarandi eignar, sem dómstólum ber að gera ef þeir fara eftir yfirlýsingum ráðherranna.

Dómstólar hafa auðvitað úr fleiru að moða, þeir fá fyrirmæli úr fleiri áttum en bara úr beinum yfirlýsingum. Þeir fá þau líka úr því frumvarpi sem formenn stjórnarflokkanna fluttu vegna þess að þó að yfirskinið væri að það ætti að festa endanlega í sessi eignarhald þjóðarinnar á fiskstofnunum og nýtingarrétti á þeim, þá kom í ljós að það var annað sem fólst í frumvarpinu þegar að var gáð.

Ég er hérna með álit tveggja sérfræðinga sem komu fyrir sérnefnd um stjórnarskrármálið, Eiríks Tómassonar og Bjargar Thorarensen, sem eru nú bærilega virtir lögfræðingar hvor á sínu sviði og gáfu álit fyrir nefndinni skriflega sem ég er með hér í höndum. Þar kemur fram ákaflega athyglisverð ábending.

Þeir minna á ákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða sem kveður á um það í 3. málslið 1. gr. að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt þeim lögum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Þeir minna á það. En segja, eftir að hafa lesið og velt málinu fyrir sér, með leyfi forseta:

„Með skírskotun til fyrirvarans í 1. málslið 1. gr. frumvarpsins“ — þ.e. stjórnarskrárfrumvarpsins — „um að gætt skuli réttinda einstaklinga og lögaðila samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar og í ljósi þess að ekki eru settar neinar skorður við ráðstöfunarrétti á náttúruauðlindum í þjóðareign í frumvarpinu né heldur gerður áskilnaður um tímabundna eða afturkallanlega heimild til handa einkaaðilum til afnota eða hagnýtingar þeirra auðlinda í 3. málslið 1. gr. frumvarpsins, er sá möguleiki fyrir hendi að ákvæði frumvarpsins verði skýrð á þann veg að þau séu ósamrýmanleg fyrirvaranum í 3. málslið 1. gr. laga nr. 116/2006. Verði frumvarpið tekið óbreytt upp í stjórnarskrá og yrði þessi skýringarkostur ofan á, sem styðst eins og áður segir við orðalag frumvarpsins, gengi umræddur fyrirvari í berhögg við stjórnarskrána sem er rétthærri réttarheimild en sett lög. Ef svo færi mundi réttur þeirra, sem ráða yfir veiðiheimildum ótvírætt styrkjast í eignarréttarlegum skilningi.“

Þessir tveir sérfræðingar eru að benda á að ef frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórnarskránni hefði verið samþykkt þá hefði það veikt ákvæðið í lögunum um stjórn fiskveiða sem ég las upp áðan og kveður á um að úthlutun á réttindum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði, mundi þá veikja þann fyrirvara í lögunum og jafnvel upphefja hann alveg, vegna þess að inn í stjórnarskrá væri komið ákvæði sem væri rétthærra en lögin. Það ákvæði vísar í eignarréttinn.

Í því ljósi verða menn að skoða hvað ríkisstjórnin var að gera. Hún var að reyna að plata þingið til þess að samþykkja breytingar á stjórnarskránni sem mundu gefa útvegsmönnum spilin upp í hendurnar og krefjast þess að þeir ættu veiðiheimildirnar. Það var ekki bara að ríkisstjórnin gerði það í frumvarpinu heldur komu yfirlýsingar ráðherranna til viðbótar til þess að tryggja að það færi ekki á milli mála hvernig dómstólar ættu að skilja það sem væri að gerast að óbreyttu.

Nú blasir málið þannig við eftir að þetta frumvarp fór ekki lengra í bili að þegar dómstólarnir næst fá mál til umfjöllunar þar sem er verið að skera úr um eignarréttinn, þá munu þeir sem það mál sækja og vilja fá eignarréttinn viðurkenndan fyrir útvegsmenn draga fram yfirlýsingar ráðherranna.

Þetta eru engir smáaðilar þegar þarf að gá að lögskýringum, því ráðherrar eru þeir sem framkvæma lögin og túlka þau. Þegar fleiri en einn ráðherra hefur ítrekað lýst því yfir að eignamyndun sé í gangi að óbreyttu þá hljóta dómstólar auðvitað að hlusta á það. Við skulum vona að þeir taki ekki allt of mikið mark á því en við getum ekki verið viss um það.

Hvers vegna skyldi nú þessi atlaga hafa verið gerð fyrir útvegsmenn, fyrir einkaeignarrétti útvegsmanna af ríkisstjórninni? Það er ákveðin skýring á því. Hún er sú að fyrir ári síðan var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mál af þessum toga þar sem reyndi á eignarrétt útvegsmanna. Þá var niðurstaða Héraðsdóms sú, og leyfi ég mér að vitna í dómsorð Héraðsdómsins sem féll 7. febrúar 2006, með leyfi forseta:

„Í 2. málslið 1. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 38/1990, segir að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Af þessu leiðir, að veiðiheimildir samkvæmt lögunum eru ekki varðar af ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar.“

Þetta er niðurstaða Héraðsdóms fyrir einu ári, að 72. gr. verji ekki eignarrétt útvegsmanna. Einmitt þess vegna þurfti ríkisstjórnin núna að koma inn í stjórnarskrána tilvísun í 72. gr., til þess að geta upphafið þennan héraðsdóm. Vegna þess að hafi einhver eignamyndunum verið þá var dregið skýrt strik í febrúar í fyrra, í Héraðsdómi Reykjavíkur, sem sagði alveg skýrt: Útvegsmenn eiga ekki þessar veiðiheimildir. Þessum dómi var áfrýjað til Hæstaréttar sem vísaði málinu frá fyrir skömmu þannig að útvegsmenn fóru sneypuför fyrir dómstólum að þessu leytinu til.

Þess vegna er málið komið af stað. Vegna þess að það liggur fyrir dómsniðurstaða í málinu. Það er ástæðan fyrir öllu þessu brambolti hæstv. ríkisstjórnar núna, þ.e. að reyna að komast fram hjá skýrum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Ríkisstjórnin gerir sér grein fyrir því sem eðlilegt er að það er ekki hægt að óbreyttum lögum. Það verður að breyta þeim og hún gerir sér líka grein fyrir því að það er ekki nóg að breyta lögum til að komast fram hjá þessum dómi, það verður að breyta stjórnarskrá.

Þess vegna var málið svona útbúið eins og var um daginn, það átti að opna leiðina aftur. Og ráðherrarnir gerðu sitt til að opna leiðina með yfirlýsingum sínum.

(Forseti (SAÞ): Forseti hyggst gera matarhlé á þessum fundi núna um hálfáttaleytið og spyr þess vegna hv. þingmann hvort komið sé að lokum í ræðu hans.)

Það getur alveg verið það, virðulegi forseti. Ég er alveg til í að hliðra fyrir forseta eins og mögulegt er og ljúka máli mínu bara á örfáum orðum ef forseti fellst á það.

(Forseti (SAÞ): Það væri akkur í því.)

Það er vissulega hægt að hafa mun lengra mál um þetta stóra viðfangsefni sem þingið hefur haft hér til umfjöllunar alla vetur sem ég hef setið á þingi og mun gera það áfram meðan menn hafa þessi þrælalög hér í gildi. En ég er búinn að koma því að sem ég taldi mikilvægast í umræðunni, dómi Héraðsdóms um forræði þjóðarinnar yfir þessum eignarheimildum og að útvegsmenn eigi þær ekki sem ég hygg að varpi ljósi á tilraunir ríkisstjórnarinnar og auðvitað útvegsmannaaðalsins í gegnum stjórnarflokkana, til þess að hnekkja skýrri niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur.