133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

lánshæfismat ríkissjóðs.

[20:33]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Í gær urðu þau tíðindi að alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings lækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs í erlendri og innlendri mynt úr AA- og AAA í A+ og AA+. Lækkunin nemur sem sagt einu stigi og eru horfur sagðar stöðugar. Sömuleiðis er matið á skammtímaskuldbindingum lækkað og sjálf landseinkunnin er lækkuð um einn flokk.

Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem alþjóðleg matsfyrirtæki lækka lánshæfiseinkunn Íslands. Í greinargerð Fitch Ratings segir að þeir taki mið af nýjustu gögnum um greiðslujöfnuð og hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins sem bendi til þess að staða Íslands gagnvart útlöndum hafi versnað verulega, og hér er væntanlega vísað til stórfelldrar aukningar erlendra skulda og hreinna erlendra skulda. Stórauknar vaxtagreiðslur til útlanda eigi nú sinn þátt í því að viðskiptahalli mælist meiri en ella. Enn fremur segir að íslenska hagkerfið sé að þeirra mati illa undirbúið undir aukna áhættufælni á alþjóðamörkuðum og hærra vaxtastig erlendis. Fitch telur auknar líkur á harðri lendingu í umhverfi þar sem aðlögunarbyrði þanins efnahagslífs hvílir að mestu á peningastefnu Seðlabankans sem skili sér í hærri vöxtum.

Ekki verður nú sagt, virðulegur forseti, að lesningin sé mjög falleg. Það alvarlega er kannski ekki lækkunin sjálf heldur veruleikinn sem á bak við hana liggur, þær bláköldu staðreyndir sem matsfyrirtækin vísa í. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Telur hæstv. ráðherra enn að allt sé í himnalagi og engin ástæða til að hafa áhyggjur af neinu eins og ætla hefur mátt af málflutningi þeirra undanfarið, ráðherranna? Eða er það kannski þannig að þessi lækkun á lánshæfismati Íslands sé stjórnarandstöðunni að kenna eins og flest sem ríkisstjórnin er að klúðra þessa dagana?