133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

lánshæfismat ríkissjóðs.

[20:35]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Þrjú fyrirtæki meta lánshæfi íslenska ríkissjóðsins. Tvö þeirra hafa nýverið lækkað okkar einkunn sem þó er enn þá mjög góð miðað við mörg önnur ríki. Þriðja fyrirtækið, sem þekkir nú best til hér á landi og er með starfsfólk í sinni þjónustu sem hefur fylgst með íslenskum málum afar lengi, metur Ísland í hæsta gæðaflokki, þ.e. í AAA-flokknum. En auðvitað er það ekkert gamanmál þegar einkunn lækkar eins og gerðist í gær og það ber að taka alvarlega. Viðbrögð markaðarins í dag og síðdegis í gær eru hins vegar með þeim hætti að það er ekki að sjá að þar hafi orðið veruleg eða varanleg viðbrögð við þessari lækkun og það er ánægjulegt.

Hins vegar er rétt að hafa í huga að matsfyrirtækið Fitch er formlega að meta lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Í því felst að sjálfsögðu mat á því hvort ríkissjóður er líklegur til að standa í skilum með skuldir sínar. Auðvitað er hann mjög líklegur til þess því að hann er orðinn nánast skuldlaus og ekki líklegur til að þurfa að taka lán í útlöndum og nýta sér lánshæfismatið. Það sem matsfyrirtækið gerir hins vegar er að leggja mat á þjóðarbúið í heild og byggir mat sitt á því að skuldastaða Íslands við umheiminn er há, ekki vegna þess að ríkissjóður hafi verið að taka lán í útlöndum heldur vegna þess að einkaaðilarnir, sérstaklega fjármálastofnanirnar, hafa tekið mikið af lánum erlendis. Ríkissjóður ber ekki ábyrgð á þeim lántökum að öðru leyti en því að fyrir rúmlega tíu árum var heimilað að flytja fjármagn hömlulaust á milli Íslands og annarra landa.

Málið er það að matið er gott. Við viljum hins vegar gjarnan að það hækki aftur en forsendurnar fyrir þessu mati eru að mörgu leyti undarlegar að mínum dómi og eiga ekki fyllilega við rök að styðjast.