133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

lánshæfismat ríkissjóðs.

[20:40]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Aðhald á ríkissjóði hefur verið mjög mikið á undanförnum árum, eitt það mesta sem um getur í þessum heimshluta. Slakað hefur verið á aðhaldinu á þessu ári en vaxtagreiðslur og afborganir erlendra lána sem hafa áhrif á viðskiptahallann núna tengjast ekki því sem er að gerast á þessu ári.

Á ríkissjóður að banna greiðslur á vöxtum og afborgunum? Hvaða afleiðingar hefði það í för með sér? Nei, frú forseti, það sem skiptir máli í þessu samhengi er hvaða áhrif þessi breyting getur haft í för með sér. Hún hefur að sjálfsögðu engin áhrif á ríkissjóð því að ríkissjóður er ekki að taka nein lán og þar af leiðandi skiptir þetta ekki máli fyrir hann en þetta getur haft áhrif á lántökur bankanna vegna þess fjármagns sem þeir síðan lána á innlendum markaði. Það þýðir að vextirnir hækka og það þýðir að það styður við þá stefnu sem Seðlabankinn hefur rekið með því að hafa vexti háa, og það hefur einmitt verið umræðuefni margra hv. þingmanna að vaxtahækkanir Seðlabankans séu ekki að skila sér. Þetta þarf ekki að vera neikvætt. Þarf það að vera neikvætt ef matið hjá Fitch styður við stefnu Seðlabankans? Hins vegar getur það verið neikvætt ef lántökukostnaður bankanna vegna lánveitinga þeirra erlendis hækkar og þá skaðar það samkeppnisstöðu þeirra á þeim mörkuðum. En lánveitingar bankanna á þeim mörkuðum og öryggi þeirra lánveitinga og tryggingarnar á bak við þær lánveitingar hafa nákvæmlega ekkert með efnahagsástandið á Íslandi að gera. Það er auðvitað ýmislegt sem huga þarf að í þessu sambandi en það eru áhrifin sem skipta máli eins og ég fór yfir og þau, frú forseti, eru engin fyrir ríkissjóð.