133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

lánshæfismat ríkissjóðs.

[20:42]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Tvö af þremur virtustu matsfyrirtækjum heims hafa lækkað lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins og hæstv. forsætisráðherra kemur hér í ræðustól og segir að forsendur þeirra séu undarlegar. Hvað ætli Geir H. Haarde finnist undarlegt? Skyldi það vera sú niðurstaða beggja fyrirtækjanna, sem er sama niðurstaða og stjórnarandstöðunnar hér í umræðum í allan vetur, að það sé skortur á aðhaldi í ríkisfjármálum sem valdi hér miklu um? Að á kosningaári sé aðhaldi í ríkisfjármálum enginn gaumur gefinn og því séu vextir Seðlabankans eina stýritækið?

Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því, enda eru stýrivextir Seðlabankans met í þeim löndum sem við berum okkur saman við, og það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að heimilin í landinu og fyrirtækin í landinu geti ekki til langframa þolað svo háa stýrivexti og svo mikla vaxtabyrði. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af þessum tíðindum vegna þess að á heimsmarkaðnum fer áhættufælni vaxandi í kjölfar þess að menn telja kínverska markaðinn jafnvel hafa verið ofmetinn. Í framhaldi af fréttum af vanskilum á fasteignalánum á Bandaríkjamarkaði fer áhættufælni vaxandi og það er hætta á því að vextir á heimsmarkaði vaxi og eftir þá óhóflegu skuldsetningu sem við höfum farið í gegnum getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf.

Niðurstaðan sem við okkur blasir er ákaflega skýr, að andvaraleysi ríkisstjórnarinnar í þessum efnum og aðhaldsleysi í ríkisfjármálum er núna að skila okkur inn á gulu ljósi.