133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

lánshæfismat ríkissjóðs.

[20:44]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Enginn dregur í efa mikil áhrif matsfyrirtækjanna þriggja, Standard & Poor's, Moody's og Fitch, en það er mjög mikilvægt að beita varúð við ályktanir og túlkanir á því sem frá þeim koma. Þau meta í fyrsta lagi ríkissjóð, í öðru lagi hagkerfið í heild sinni og í þriðja lagi banka og fjármálastofnanir og það hefur margsinnis komið fyrir að þau meta ekki á sama hátt, komast ekki að sams konar niðurstöðum á sama tíma um sama efni og það eru aðgreindir sérfræðingahópar í þessum fyrirtækjum sem vinna þessar matsgerðir og það virðist vera lítið samband þeirra á milli. Af öllum þessum ástæðum er ástæða til að beita varúð við ályktanir og túlkun þess sem frá þeim kemur.

Það mat sem hér er til umræðu snýst um ríkissjóð en í raun og veru má segja að það snúist alveg eins og jafnvel frekar um ytri skilyrði og ytri stöðu hagkerfisins. Þar er ekki gert mikið úr þeirri hjöðnun sem við höfum séð verða hér samkvæmt þjóðhagsáætlun og upplýsingum frá Hagstofu. Það kemur líka í ljós að það áfall sem ýmsir héldu að kæmi af þessu mati varð ekki því að gengi íslensku krónunnar hefur hækkað aftur og sama gerist með úrvalsvísitöluna. Í þessu mati koma fram sérstaklega ábendingar um einkaneyslu og viðskiptahalla en hvort tveggja, samkvæmt gögnum Hagstofu og þjóðhagsáætlunar og þjóðhagsreikninga, sýnist vera á réttri leið um þessar mundir.

Ríkissjóður stendur ákaflega vel og hefur brugðist við og í raun og veru má segja að þarna sé verið að taka undir með ríkisstjórninni og Seðlabankanum um nauðsyn aðhalds og jafnvægis.