133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

lánshæfismat ríkissjóðs.

[20:46]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það sem skiptir mestu máli í þessari umræðu er hvort við séum borgunarmenn fyrir þessum miklu skuldum og þessari háu erlendu skuldasöfnun. Það er einmitt það sem hæstv. forsætisráðherra lagði áherslu á í ræðu sinni. Síðan koma tveir aðrir ráðherrar og reyna að rugla myndina eins og hæstv. viðskiptaráðherra og hæstv. fjármálaráðherra og fara að tala um að ríkissjóður standi vel.

Þjóðarbúið er gríðarlega skuldugt og ég vona að ráðamenn horfist í augu við að það eru alvarleg tíðindi þegar þjóðarbúið skuldar 5.000 milljarða samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands og að þessar skuldir hafa aukist um 2.000 milljarða frá árinu 2005. Þetta eru alvarleg tíðindi. Það sem hafa verður í huga í sambandi við þetta er að skammtímaskuldir eru 1.000 milljarðar, sem nema heilli þjóðarframleiðslu, og hættan er einmitt sú að þessi tíðindi skerði vaxtakjör sem Íslendingum bjóðast á alþjóðamarkaði, þannig að þetta mun koma illa við almenning vegna hærri vaxta. Hæstv. fjármálaráðherra fagnar þessu og telur að þetta vinni með ríkisstjórninni en ég er ekki sammála því. Einnig hafa hreinar skuldir þjóðarbúsins aukist gríðarlega og aukist meira en gert var ráð fyrir í spám þessara matsfyrirtækja og þess vegna erum við að fá lægri einkunn (Forseti hringir.) og við eigum að bregðast við þessu með öðrum hætti en útúrsnúningum.