133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[20:59]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég hyggst taka til máls þegar hljóð verður komið á í salnum. (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmenn að gefa ræðumanni hljóð.)

Frú forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Fyrir liggur nefndarálit frá sjávarútvegsnefnd þar sem gerðar eru tillögur um nokkrar breytingar á því frumvarpi sem fyrir liggur.

Verðlagsstofan er eins og flestir vita tæki til að fylgjast með fiskverði, fylgjast með því að lágmarksverð sé virt, tæki sem sett var á í tengslum við kjarasamninga sjómanna og útvegsmanna til að koma í veg fyrir að sjómenn tækju þátt í kvótakaupum. Með aukningu á viðskiptum með leigukvóta hafði það ágerst verulega að sjómenn væru látnir taka þátt í leigu á fiskveiðiheimildum og hún dregin frá verði áður en til skipta kom. Það má segja að það að setja Verðlagsstofu skiptaverðs á laggirnar hafi verið samkomulagsatriði milli útvegsmanna og sjómanna í kjarasamningum. Hugmyndin á bak við Verðlagsstofu skiptaverðs er góð og full ástæða var til að setja hana á laggirnar á þeim tíma sem henni var komið á.

Í lögunum sem um Verðlagsstofu skiptaverðs gilda núna eru þessari stofnun veittar afar víðtækar heimildir til að sinna hlutverki sínu. Hún hefur leyfi til þess að afla ítarlegra gagna um fiskverð og fylgjast með þróun þess. Hún á að vinna mjög skipulega úr þeim upplýsingum sem hún aflar sér og birta upplýsingar um fiskverð og afurðaverð og horfur um þróun á þessu tvennu.

Í lögunum segir að við athugun einstakra mála geti Verðlagsstofa skiptaverðs krafið ansi marga aðila um upplýsingar, sjómenn, útgerðir, kaupendur afla, flutningsaðila, fiskmarkaði, umboðsmenn og aðra þá sem milligöngu hafa um sölu á afla, um upplýsingar sem hún vill fá til að geta sinnt hlutverki sínu. Meira að segja má segja að heimildir í 5. gr. laga um Verðlagsstofu skiptaverðs gangi það langt að hún geti við athugun einstakra mála krafist upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum. Hún getur krafist upplýsinga frá skattyfirvöldum og tollyfirvöldum sem og bönkum og sparisjóðum. Víkur þá skylda banka og sparisjóða um bankaleynd. Þessi stofnun sem sett var á laggirnar hefur afar víðtækar heimildir til að sinna hlutverki sínu.

Það hefur komið í ljós við skoðun málsins að Verðlagsstofa hefur nýtt afar illa þær lögformlegu heimildir sem hún hefur. Verðlagsstofan hefur nánast virkað eins og bréfalúga fyrir samninga sem skrifað er undir milli sjómanna og útvegsmanna, lágmarkssamninga um fiskverð sem sendir eru til Verðlagsstofu. Uppfylli þeir þau skilyrði sem Verðlagsstofa setur eru gefin boð um að það sé allt í lagi að flytja aflaheimildir til viðkomandi skips því að í gangi sé samningur milli sjómannanna og útgerðarmannsins um lágmarksverð á fiski.

Þrátt fyrir að Verðlagsstofa hafi heimildir til þess að ákveða sjálf að ráðast í athuganir virðist hún ekki hafa gert mikið af því, heldur eingöngu farið í úrtakskannanir og sinnt svo málum sem til hennar hefur verið beint og hefur því í raun ekki nýtt, eins og ég sagði áðan, þær heimildir sem hún hefur í gildandi lögum til að rækja hlutverk sitt, passa upp á að sjómenn séu ekki látnir taka þátt í kvótakaupum og fylgjast með því að sjómenn fái uppgerð laun í samræmi við þá samninga sem gilda milli útgerðar og sjómanna á hverjum tíma.

Við fengum upplýsingar um það í sjávarútvegsnefndinni að meðalverð á þorski í þeim samningum sem nú liggja inni hjá Verðlagsstofu skiptaverðs sé í kringum 140 kr. Á grundvelli þessara samninga heimilar Verðlagsstofan það að flutt sé aflamark frá einu skipi til annars þrátt fyrir að vita að í dag er verðið á aflaheimildum mun hærra en þarna kemur fram. Útgerðaraðili sem ætlar að leigja til sín eitt kíló af þorski þarf í dag að borga fyrir það í kringum 180 kr., þ.e. leyfi til að sækja eitt kíló af þorski einu sinni í sjóinn. Samningurinn sem liggur inni hjá Verðlagsstofu skiptaverðs segir að það eigi að skipta á grundvelli verðs sem er 140 kr. Lágmarksverðið sem Verðlagsstofa skiptaverðs stimplar er sem sagt mun lægra en kostar að flytja þetta eina kíló sem verið er að sækja um leyfi fyrir yfir á skipið sem um ræðir.

Þarna er eitthvað ekki í lagi og engin svör hafa fengist við því hvernig á því getur staðið að fjöldi útgerða sækist eftir því að borga fyrir eitt kíló af þorski 170–180 kr. en ætla sér að sækja það sama þorskkíló og selja á 140 kr.

Þetta gengur einfaldlega ekki upp og ætti að vera ástæða fyrir Verðlagsstofu skiptaverðs til að hringja bjöllum og ráðast í einhverja athugun á því hvernig í ósköpunum geti staðið á því að svona margir útgerðarmenn hafi áhuga á að leigja til sín heimildir á verði sem er mun hærra en það verð sem þeir segjast fá fyrir aflann sem þeir ætla að sækja í sjóinn.

Annað sem Verðlagsstofa skiptaverðs hefur ekki gert er að kanna og tryggja að samningar liggi fyrir áður en aflamark er flutt yfir á smábáta eða báta í krókaaflamarkskerfinu. Það hefur Verðlagsstofa ekki gert þrátt fyrir að hafa um það skýrar heimildir í þeim lögum sem nú þegar gilda. Niðurstaða sjávarútvegsnefndar var að leggja á það sérstaka áherslu að auðvitað gildir hið sama um flutning á öllu aflamarki, alveg sama hvort það er í stóra aflamarkskerfinu eða í krókaaflamarkskerfinu, í öllum tilvikum þyrfti að liggja fyrir samningur um lágmarksverð milli sjómanna á viðkomandi bát og útgerðarmanns bátsins.

Við vitum að það hefur orðið mikil breyting á útgerð þessara báta í krókaaflamarkskerfinu. Áður reri einn eigandi á smábát, var ekki með launaða menn um borð. Sú rómantíska mynd hefur breyst, þessir bátar eru orðnir mun stærri og mun fleiri menn eru um borð. Sjómenn eru orðnir í auknum mæli launamenn um borð í krókaaflamarksbátum og auðvitað á að gilda það sama um flutning á aflamarki til þeirrar tegundar báta eins og annarra.

Með því að leggja áherslu á þetta gerði nefndin sér grein fyrir því að það yrði að taka tillit til þess í úrskurðarnefndinni og að fulltrúar Landssambands smábátaeigenda og sjómanna á þeim bátum yrðu að eiga fulltrúa í henni. Hér liggja fyrir breytingartillögur þess efnis og aðlögunartími gefinn til áramóta þannig að Landssambandi smábátaeigenda og þeim sjómönnum sem á þessum bátum eru gefist tími til að búa sig undir það nýja umhverfi sem verið er að taka upp og skýrt er enn frekar í nefndaráliti sjávarútvegsnefndar. Í raun er verið að segja Verðlagsstofu skiptaverðs að henni beri að fara að lögum og skoða flutning á aflamarki frá öllum tegundum skipa innan beggja kerfanna.

Það vekur athygli hversu fá mál koma til úrskurðar hjá úrskurðarnefndinni, sérstaklega þegar maður hefur það í huga sem ég sagði áðan um þá samninga sem inni liggja með mjög lágu verði á t.d. þorski og lægra verði en getur gengið í nokkrum rekstri. Einungis þrjú mál bárust til úrskurðarnefndar á árinu 2006. Kostnaður við að reka Verðlagsstofu skiptaverðs er í kringum 20 millj. kr. á árinu sem var að líða og við hljótum að spyrja okkur á þinginu hvort rétt sé að halda úti jafndýrri stofnun til að sinna hlutverki sem vissulega er mikilvægt en hún virðist hafa sinnt frekar illa á undanförnum árum.

Í ársskýrslu Verðlagsstofu fyrir árið 2006 segir að verkefnaleysi hrjái starfsemina. Það er undarlegt í ljósi þess að Verðlagsstofan hefur allar heimildir til að ráðast í athuganir, vinna á fullu í því að gæta hagsmuna sjómanna og tryggja að þeir séu ekki látnir taka þátt í kvótakaupum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Það mætti fara mörgum orðum um starfsemina eins og hún er og þær nauðsynlegu breytingar sem þurfa að verða til þess að Verðlagsstofa skiptaverðs fari að sinna hlutverki sínu þannig að bragur sé á.

Það er vonandi að það gerist með breytingu á lögunum og að allir aðilar geri sér grein fyrir því að þessi stofnun er þarna til þess að hafa þau áhrif að sjómenn séu ekki látnir taka þátt í kvótakaupum og það komi ekki niður á kaupi þeirra þó að útgerð þurfi að leigja til sín aflaheimildir. Um það hafa allir alltaf verið sammála og það þýðir ekki að horfa á staðreyndir sem segja að raunverulega myndin sé allt önnur og gera svo ekkert í því.

Það eru lög að sjómenn eigi ekki að taka þátt í kvótakaupum, við erum með stofnun til að fylgja því eftir og henni ber að gera það. Takist ekki að tryggja það verðum við að breyta því kerfi sem nú er við lýði og nýta betur þá fjármuni sem settir eru í þetta eftirlit. Vonandi sjáum við það með þeirri breytingu á lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs sem verið er að gera núna. Vonandi sjáum við breytingu á starfsemi stofnunarinnar.