133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[21:11]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér mál sem tengist kvótakerfinu og verðmyndun sjávarfangs. Það mál á sér margar hliðar og þær eru sumar þannig vaxnar að það er erfitt að fá rökrænt samhengi í þær hvernig málin geta gengið upp. Nægir þar að draga fram þá staðreynd sem vikið var að hér áðan, m.a. í máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar, þar sem bent var á að meðalverð á þorski í verðsamningum Verðlagsstofu skiptaverðs er um 140 kr. en þegar menn leigja óveiddan fisk í sjó þarf að borga fyrir hann um 180 kr. í dag.

Þetta er náttúrlega nánast, hæstv. forseti, óframkvæmanlegt. Ef maður hefði reynt að segja einhverjum manni þessa sögu fyrir 30 árum hefði maður sennilega lent inni á Kleppi, hefði maður sagt einhverjum að leigja ætti þorsk á 180 kr. og fara svo á sjó og fá fyrir hann 140 kr. Ég þori að fullyrða að ekki nokkur einasti Íslendingur hefði trúað manni ef maður hefði reynt að bera þetta á borð fyrir 20–30 árum.

Það er náttúrlega þess vegna sem það er svo, þrátt fyrir að maður muni nú hundskast til, hæstv. forseti, fyrirgefðu orðalagið, að samþykkja þetta mál, að ég hef enga trú á því í raun og veru að þetta sé lausnin sem verið er að koma með hér. Það er nefnilega búið að gera álíka tilraunir í nokkuð mörg ár að reyna að ná fram eðlilegri verðlagningu í gegnum Verðlagsstofu skiptaverðs og tryggja þar með eðlilegt verð fyrir aflann til útgerða og sjómanna, m.a. með því lagi að koma í veg fyrir að svokölluð leiga og/eða sala á afla milli útgerðarmanna hafi áhrif á kaup sjómanna og hvað þá heldur, hæstv. forseti, það sem reyndustu útgerðarmenn í þessum bransa kalla kínversku aðferðina, sem ég ætla nú ekkert að skýra hér út fyrir hv. landsliði, en hún felst í ákveðnu leigufyrirkomulagi þar sem menn taka á milli sín ákveðna hluti á ákveðnum tímapunkti og færa hann svo til baka aftur eftir hentugleikum þegar ákveðin dagsetning er komin, þ.e. fiskveiðiáramótin.

Það sem við hins vegar stöndum frammi fyrir þegar við skoðum þessi verðlagsmál í heild sinni er þetta og við hljótum öll að staldra við það að það sem gæti í rauninni leyst þessi mál er að fiskur væri almennt verðlagður á ferskfiskmörkuðum. Í þessu tilfelli erum við fyrst og fremst að tala um verðlagningu á ferskum fiski sem landað er til vinnslu hér innan lands í beinum viðskiptum svokölluðum, þar sem útgerð gerir verðsamning við einhvern kaupanda og sá verðsamningur þarf að vera viðurkenndur af Verðlagsstofu skiptaverðs um að hann nái ákveðnu hlutfalli sem reyndar sýnir sig að vera allt of lágt í viðmiðun Verðlagsstofu skiptaverðs þegar meðalverðssamningarnir eru á 140 kr. en meðalverð á mörkuðunum liggur sennilega á bilinu 220–230 kr. og hærra, hæstv. forseti, núna á vertíðinni þegar fiskurinn er fullur af hrognum og lifrarmikill. Ég hygg að núna meðan vertíðin gengur yfir séum við jafnvel að tala um verð þar sem þetta meðalverð upp á 140 kr. er nær því að vera um helmingur verðsins sem fæst á fiskmarkaði.

Þetta eru staðreyndir málsins og segja okkur að verðmyndunarkerfið, sem við bjuggum til fyrir mörgum árum um Verðlagsstofu skiptaverðs til að reyna að koma í veg fyrir að sjómenn væru látnir taka þátt í kvótaleigu eða kvótakaupum, hefur ekki tekist. Með frumvarpinu á þó að reyna að bæta aðeins í og efla starfsemina og gera hana markvissari. En ég verð að segja, hæstv. forseti, að þó svo að við munum nú greiða þessu máli atkvæði hef ég ekki mikla trú á að þetta sé sú lausn sem muni nást til framtíðar. Það eru margar ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi fá allir sjómenn á frystiskipum allt annað verð. Þeir fá heimsmarkaðsverð, það verð sem fæst fyrir unna vöru eða lítið unna vöru eftir því hvað er verið að vinna með fiskinn um borð í frystiskipunum. En hann er seldur úr landi eða á einhverja markaði, ef til vill hér innan lands, t.d. til veitingahúsa í litlu magni, miðað við það heildarmagn sem frystiskipin veiða en á því verði sem fæst fyrir hann á heimsmarkaði og sjómenn fá skipt úr því verðmæti, heimsmarkaðsverðinu. Og enginn getur jú ætlast til þess að fá skipti úr verði sem er umfram það verð sem endanlega fæst fyrir afurðirnar upp úr sjónum. Við sem höfum verið að fjalla um þetta teljum, og sá sem hér stendur hefur nú gert það í nokkur ár áður en hann kom á Alþingi, að það sé eðlileg verðmyndun og menn geti fallist á hana.

Sama má segja um ferskan fisk sem er fluttur út í gámum. Hann er fluttur á uppboðsmarkað erlendis og seldur þar á því verði sem Evrópumarkaðurinn er tilbúinn að borga fyrir hann. Þar lítum við einnig svo á að þegar verið er að reyna að ná hæsta verði fyrir aflann, það sama á við, hæstv. forseti, um þann afla sem seldur er á fiskmörkuðum innan lands, fyrir hann fæst, eins og ég sagði áðan, miklu hærra verð en næst í samningum Verðlagsstofu skiptaverðs og er í raun og veru það verð sem bestu verkendur hér innan lands treysta sér til að kaupa fiskinn á á hverjum tíma miðað við að þeir séu að gera úr honum hámarksverðmæti í vinnslu sinni og meðferð.

Það eru að stórum hluta þær fiskvinnslur sem kaupa nánast allan afla sinn á uppboðsmörkuðum sem ekki eru með neinum hætti tengdar útgerð, svokallaðar fiskvinnslustöðvar án útgerðar. Þessi fyrirtæki hafa á undanförnum árum fundið marga markaðsholuna sem gefið hefur hámarksverð og hærra verð en t.d. stóru fyrirtækin hafa fundið þótt stóru fyrirtækin með sína sterku kvótastöðu hafi svo sótt inn í þá verðsamninga eftir á þegar frést hefur af þeim. Þar eru fyrirtækin oft í harðri samkeppni.

Því hefur verið haldið fram, hæstv. forseti, að á undanförnum árum hafi dregið úr þátttöku sjómanna í kvótakaupum. Minna hafi borið á því á undanförnum árum að sjómenn væru látnir taka þátt í kvótaleigu eða kvótakaupum. Þessu vil ég mótmæla, hæstv. forseti, vegna þess að ég lít svo að á verðsamningar sem eru að meðaltali með þorskverð upp á 140 kr. eins og gefið er upp af Verðlagsstofu skiptaverðs, þar sé í raun og veru falin kvótaleiga og kvótakaup. Jafnvel þó að viðkomandi útgerð landi í sína eigin fiskvinnslu og inn á fyrirtækið sé ekki leigt eitt einasta kíló. Þá segir verðið okkur það að í rauninni er verið að taka mið af því sem ella gæti fengist. Og þar er sá sem veiðiheimildirnar hefur að reikna sér ákveðinn arð, um það bil helming þess arðs sem kostar að leigja heimildirnar, svona um það bil. Miðað við 140 kr. verð er alveg hægt að halda því fram að sá sem veiðiheimildirnar hefur, ef það er bæði útgerð og fiskvinnsla sem býr til verðsamning og meðalverðið er um 140 kr., þá eru menn í raun og veru að taka til sín miðað við markaðsverðið um það bil 80 kr., hæstv. forseti. Ætli það sé ekki nálægt því að vera helmingur þess meðalverðs sem var á óveiddum fiski á leigumarkaðnum á þessu fiskveiðiári, þ.e. framan af árinu þótt verðið sé orðið nokkru hærra núna þegar farin er að verða vöntun á markaðnum og það sé komið upp í 180 kr.

Þetta er nú staðreynd máls, hæstv. forseti. Þess vegna er það auðvitað svo að við náum ekkert að leysa þetta vandamál með þessari aðferð þó væntanlega verði eitthvað bætt í í störfum Verðlagsstofu skiptaverðs með þeim heimildum sem Verðlagsstofan hér fær. En ég vil líka segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að miðað við lögin sem í gildi voru gat Verðlagsstofan gert meira. Það liggur bara fyrir að mínu viti. Það var hægt aðhafast meira í að vinna í málunum á undanförnum árum en raun ber vitni um.

En hér er sem sagt verið að taka af tvímælin um það að Verðlagsstofan fái meira vald til þess að afla sér upplýsinga og fylgjast með verðsamningum og kalla inn upplýsingar þó hún verði að vísu að gæta meðalhófsreglu eins og kemur fram í nefndarálitinu. Þar segir að tilgangurinn með frumvarpinu sé að veita Verðlagsstofu skiptaverðs auknar heimildir til að hafa eftirlit með því að samningar um fiskverð séu réttilega efndir.

Guð láti gott á vita, hæstv. forseti, ef það tekst. Það segir einnig að megintilgangur frumvarpsins sé aftur á móti að styrkja heimildir stofunnar til að synja staðfestingar af sömu ástæðum þegar hennar hefur verið óskað í tilefni af kvótaframsali, þ.e. ef ekki eru á viðeigandi verðsamningar o.s.frv. Ég vænti því þess, hæstv. forseti, að þótt ég hafi nú ekki mikla trú á þessu fyrirbæri þá sé þetta þó til bóta en lýsi þeirri skoðun minni og okkar í Frjálslynda flokknum að við teljum þetta ekki framtíðarlausn, hæstv. forseti, og teljum að þessi mál verði eingöngu leyst í framtíðinni með því að fiskur sé almennt verðmyndaður hér á fiskmörkuðum og þar fái allir það raunvirði fyrir aflann sem raunverulega er hægt að borga fyrir hann. En menn geti ekki búið sér til þá aðstöðu, sem ég hef hér getið um, að þeir hafi veiðiheimildir og fiskvinnslu geti búið sér til fiskverð sem er ekkert í námunda við það sem meðalverðið er og ætti að vera.

Ég held ég hafi dregið, hæstv. forseti, fram það sem ég vildi aðallega segja um þetta mál og við munum ekki leggjast gegn málinu. Við munum samþykkja málið í Frjálslynda flokknum. Einnig er verið að taka fyrir Landssamband smábátaeigenda og lögin öðlast gildi 1. janúar, gefin aðlögun til þess. Og við væntum þess vissulega að það verði einhver árangur af þessu en ég er fullur efasemda um að svo verði. Framtíðarsýn okkar er sú að um þetta verði markaðsöflin að sjá um fyrst og fremst, klára þetta mál. Þannig held ég að framtíðin verði að vera, hæstv. forseti.