133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

starfstengdir eftirlaunasjóðir.

568. mál
[21:36]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um starfstengda eftirlaunasjóði, frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Nefndin fékk á sinn fund gesti eins og getið er um á þskj. 1130 og málið sem um er að ræða er enn fremur skýrt í því þingskjali.

Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu í samræmi við umsögn Fjármálaeftirlitsins um það, það er að við frumvarpið bætist þrjú ákvæði sem fjalli um varasjóð, upplýsingaskyldu og eftirlit. Slík ákvæði er að finna í tilskipuninni en voru ekki tekin upp í frumvarpið. Á það má benda að um þessar mundir eru engir slíkir sjóðir starfræktir hér á landi.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Birkir J. Jónsson, Lúðvík Bergvinsson, Birgir Ármannsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta Möller, Sæunn Stefánsdóttir og Ögmundur Jónasson.