133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

starfstengdir eftirlaunasjóðir.

568. mál
[21:46]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var afskaplega áhugaverð pæling hjá hv. þingmanni, heimspekileg, og minnir mig á það að árið 1979 flutti hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson frumvarp sem ég hafði samið fyrir hann um Lífeyrissjóð Íslands, gegnumstreymissjóð. Rökin í því frumvarpi voru einmitt þau að það skipti ekki máli þegar heil þjóð er að spara hvort það er gegnumstreymi eða söfnun. Það frumvarp dagaði reyndar uppi.

Hv. þingmaður talaði um ávöxtunina, það má segja að öll ávöxtun sé eins á góðum og gegnsæjum markaði. Ef það eru háir vextir er fólgin í því áhætta. Ríkisskuldabréf eiga að gefa tóninn, það er hin raunverulega besta ávöxtun. Þess vegna er þetta orðað þannig í lögunum. Ég man sérstaklega eftir því að þetta er orðað sem besta áhætta og besta ávöxtun miðað við áhættuna. Áhætta og vextir tengjast því alltaf.

Ég tek alveg undir með hv. þingmanni að þegar heil þjóð er farin að spara og lána sjálfri sér er þetta náttúrlega ekkert annað en tilflutningur. Það er alltaf hinn vinnandi maður sem á endanum borgar lífeyrinn. Hann sér alltaf um kynslóðirnar bæði fyrir framan sig og aftan. Þetta er hinn svokallaði kynslóðasamningur. Ég ætla ekki að fara nánar út í það svona seint að kvöldi á næstsíðasta degi þingsins, en það er áhugavert einmitt að ræða það hver stendur undir öllum bótum í þjóðfélaginu. Það er á endanum alltaf hinn vinnandi maður.