133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

starfstengdir eftirlaunasjóðir.

568. mál
[21:48]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú bregður svo við að við erum sammála í lífeyrismálum, ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal, hvað varðar samskipti kynslóðanna. En ég vil benda á eitt, að þegar við tölum um ávöxtun þá erum við ekki bara að tala um vexti. Við erum einnig að tala um hlutabréf og annars konar fjárfestingar.

Eitt af því sem ég hef viljað horfa til í fjárfestingum lífeyrissjóðanna er að þeir reyni að beina fjárfestingum sínum í farvegi sem eru uppbyggilegir fyrir samfélagið. Þetta hefur gerst í Þýskalandi og víðar þar sem lífeyrissjóðir hafa fjárfest í húsnæði, eru stóreigendur á því sviði. Ég hef verið með hugmyndir um hvernig hægt væri að ná þessu markmiði. Fyrst yrði að koma félögunum á laggirnar þannig að þau gætu plumað sig og sýnt fram á að þau væru arðsöm fyrirtæki. Þá væri komið að lífeyrissjóðunum að fjárfesta hugsanlega í slíkum fyrirtækjum. (Gripið fram í.) T.d. í orkuveitum. Þar er vandinn sá, að meðan þú ert með kröfu í lögum að þú hlaupir alltaf eftir hæstu eða bestu ávöxtuninni, þá eru lífeyrissjóðirnir ekki áreiðanlegur eða traustur bakhjarl fremur en í öðrum.

Hver skyldi hafa grætt mest á fjárfestingum í fjármálafyrirtækjum þegar sviptingar hafa verið þar? Lífeyrissjóðirnir. Hvers vegna? Hvers vegna hafa þeir verið öflugustu braskararnir? Vegna þess að þeir hugsa um það eitt að ná í arð af fjárfestingunni sinni en eru (Forseti hringir.) ekki að hugsa um völd í viðkomandi stofnunum.

Niðurstaðan er sem sagt þessi, að lífeyrissjóðirnir eru (Forseti hringir.) ekki traustir bakhjarlar í orkuveitum eins og hv. þingmaður talar um af þessum sökum.