133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[21:58]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að sjálfsögðu að spyrja um stöðu þessara mála innan ramma gildandi samkomulags, Kyoto, fram til ársins 2012. Við vitum öll að framtíðin er óráðin þó að allt hnígi í þá átt að menn muni vilja taka miklu stærri skref á næsta tímabili til samdráttar í losun.

Hér er um samning að ræða sem Ísland er aðili að og er þjóðréttarlega skuldbindandi í þeim skilningi. Ég held að það sé mjög ódýr leið, ef ég má orða það svo, að ætla að vísa ábyrgðinni yfir á fyrirtækin og segja að þau verði að kaupa sér losunarkvóta, það sé bara þeirra mál, því skuldbindingin er þjóðréttarleg. Ísland hefur undirgengist þetta og ef þarna er verið að vísa á viðskipti samkvæmt einhverju regluverki sem tæpast er til eða alls ekki til og óvíst er að muni nokkuð virka eða verði nokkuð til staðar er þetta þá í raun og veru ekki feluleikur, hálfgerður flótti, til þess að reyna að láta líta svo út sem við séum að taka á þessum málum þó við séum kannski alls ekki að gera það?

Ríkisstjórnin er auðvitað í grenjandi vandræðum með framgöngu sína í málinu vegna þess að það hafa ekki verið settir neinir fyrirvarar í undirbúningsferlin hjá stóriðjufyrirtækjunum sem eru að undirbúa gríðarlega aukningu í losun. Auðvitað eru það gríðarlega afdrifarík mistök að hafa ekki sett strax fyrirvara þannig að fyrirtækjunum væri það ljóst að óvissa væri um það hvort þau gætu nokkuð hafið hér starfsemi vegna þess að þessi mál yrði að leysa. Eða ætlum við að standa þannig að málum að í lokin á tímabilinu, jafnvel þó að losunin sleppi vegna meðaltalsreglunnar, séum við komin langt út fyrir öll mörk í fullkominni óvissu um hvað við tekur eftir 2012?

Þetta verkar á mig eins og hálfgerður kattarþvottur og þess vegna var ég að vona að hv. þingmaður gæti útskýrt: Hvað hefur ríkisstjórnin fyrir sér í því að þetta muni yfir höfuð ganga?