133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[23:34]
Hlusta

Frsm. minni hluta umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Þótt mál mitt hafi ekki verið stutt þegar ég mælti fyrir áliti minni hlutans um þetta þingmál þá bar það nokkuð brátt að. Ég hef það mér til afsökunar í síðara innleggi mínu í kvöld að það var verið að ræða mál nr. 18, 19 eða 20 á dagskránni og þá birtist allt í einu á sjónvarpsskjánum sem var í námunda við mig formaður umhverfisnefndar. Ég horfði á hann svolitla stund og fannst ég eitthvað kannast við manninn en vissi ekki alveg hvað hann var að tala um en uppgötvaði síðan að hann var að tala um losun gróðurhúsalofttegunda. Ég hljóp hingað upp og setti mig á mælendaskrá og hafði ekki undirbúið mál mitt meira en það sem nefndarálitið lýsti. Ég tel því rétt að gera eina leiðréttingu, leiðrétta eitt atriði sem ég minntist á hér áðan og gera tveimur umsögnum aðeins betri skil og skal vera stuttorður um hvort tveggja.

Leiðréttingin felst í því að ég bar það upp á Þorkel Helgason að hann hefði verið að vitna í Bandaríkjaforsetann Bill Clinton þegar hann var þvert á móti að vitna í George W. Bush. Það er nú nokkur munur á og sjálfsagt að hafa það nákvæmlega rétt. Þorkell hefur fyrirlestur sinn frá ársfundi Samorku 2007 einmitt með því að rifja það upp að fyrir níu árum hafi hann í fyrsta sinn farið á heimsþing Alþjóðaorkuráðsins, sem svo sannarlega væri gaman að sækja, sem þá var haldið á miklum orku- og olíuslóðum í Texas og hátíðarræðumaður var George W. Bush sem þá var þar ríkisstjóri. Þorkell heldur, eða er a.m.k. búinn að festa það í minni sér, að styrktaraðili þingsins, eins og sagt er á góðri íslensku, hafi verið fyrirtækið Enron. Hann hefur greinilega gaman af því að hvor tveggja sé nokkuð á fallandi fæti, annars vegar fyrirtækið Enron og hins vegar George þessi Bush sem þá var ríkisstjóri í olíuríkinu Texas. Hann leggur nokkuð út af því í ræðu sinni um orkumál á þessum loftslagstímum.

Ég ætlaði líka að gera skárri skil þeim niðurstöðum sem felast í glæruútprenti Landverndar en þær fylgja umsögn þeirra nokkuð rækilegar en ég gaf til kynna áðan. Mig langar að lesa niðurstöðurnar. Þetta eru sjö atriði, punktar, og hljóða svo, með leyfi forseta:

„1. Álframleiðsla á Íslandi er í hnattrænu samhengi óhagstæðari en álframleiðsla í þeim heimshlutum þar sem bæði er að finna vatnsafl og báxítnámur.

2. Flutningur á hráefnum heimshorna á milli veldur losun gróðurhúsalofttegunda.

3. Með því að nýta „íslenska ákvæðið“ í þágu áliðnaðar stuðla Íslendingar að aukinni losun gróðurhúsalofttegunda með óþarfa flutningi á hráefnum.

4. Ef ákvæðið væri notað í iðngrein þar sem framleiðsla hérlendis mundi draga úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda horfði málið öðruvísi við.

5. Við getum hins vegar lagt okkar af mörkum í formi þekkingar og aðstoðað við uppbyggingu í heimshlutum þar sem hráefni og vatnsafl eru til staðar.

6. Miðað við samfélagsþátt sjálfbærrar þróunar eiga undirboð Íslands á orkuverði heldur ekki rétt á sér. Ætla má að samfélög í sumum þeim álfum sem eiga vatnsafl og báxít hafi ríkari þörf fyrir uppbygginu af þessu tagi en velmegunarlandið Ísland.

7. Líta ætti á heimildina um 1,6 milljónir tonna sem hámarksheimild á síðasta ári tímabilsins en ekki sem meðaltal á samningstímanum.“

Ég tel að ég hafi þurft að gera umsögn Landverndar þessi skil úr því að ég hóf máls á henni og las hér úr henni. Þessar niðurstöður, það sem sést á glærunum, eru svo sannarlega sjálfur kjarni umsagnarinnar og ég tek undir hvern einasta punkt og get staðið við það því að við í minni hluta nefndarinnar höfum gert þann síðasta þeirra að einum af þremur eða fjórum breytingartillögum okkar í málinu.

Hæstv. umhverfisráðherra hefur verið svo kurteis að sitja hér í þessari umræðu sem er auðvitað viðeigandi að hún geri. Hún þarf þess ekki samkvæmt ströngum þingvenjum því að málið er ekki lengur á hennar forræði heldur á forræði þingsins og framsögumaður nefndarálits meiri hlutans er ábyrgðarmaður í málinu að þingvenju. En þar sem ráðherra er viðstaddur vil ég lesa þann kafla úr umsögn Náttúruverndarsamtakanna sem ég hefði átt að gera meira úr í framsöguræðu minni en hann fjallar um samningsmarkmið Íslands. Ég tel ástæðu til að hæstv. umhverfisráðherra upplýsi það hér við þessa umræðu, þegar við ræðum um að stíga þetta skref og hvert á að stíga, upplýsi okkur um áætlanir sínar og ríkisstjórnarinnar þann tíma sem eftir lifir — starf ríkisstjórnar miðast ekki eingöngu við líf hennar heldur við landsins gagn og nauðsynjar og þarf að halda áfram hvað sem líður kosningum og stjórnarskiptum. Ég tel ástæðu til að hún upplýsi okkur um afstöðu ríkisstjórnarinnar í þeim viðræðum sem eru að hefjast á næstunni um tímabilið eftir að Kyoto-tímabilinu, 2008–2012, lýkur.

Í umsögn Náttúruverndarsamtakanna segir, með leyfi forseta:

„Forustumenn ríkisstjórnar Íslands hafa lýst yfir að markmið Íslands sé að afla heimilda til frekari uppbyggingar stóriðju á Íslandi. Þáverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, lýsti því yfir á Alþingi 6. febrúar 2006, að: „Það liggur fyrir að við höfum heimild til að byggja stóriðju sem samsvarar 1.600 þús. tonnum af CO 2 . Það ákvæði gildir til 2012. Hvað tekur við eftir 2012 vitum við ekki. Ég hef svarað því mjög skýrt að við hljótum að gera þá kröfu áfram að geta nýtt okkar endurnýjanlegu auðlindir og tekið þátt í því að minnka mengun í heiminum með því að framleiða rafmagn með vistvænum hætti á Íslandi. Það vil ég að sé alveg skýrt.““

Þessi ummæli, svo að ég skreppi út úr greinargerðinni, eru náttúrlega á þann veg að það sem hann er í raun og veru að segja, ekki það sem hann í sjálfu sér segir þegar hann segir að þetta sé alveg skýrt, er þannig að hann ætli sér í raun að halda áfram kröfugerð af Íslands hálfu um frekari undanþáguákvæði á næsta Kyoto-tímabili.

Náttúruverndarsamtökin segja síðan áfram:

„Umhverfisráðherra, Jónína Bjartmarz, hefur ítrekað lýst yfir sams konar skilningi á hlutverki Íslands og í stefnuræðu sinni við setningu Alþingis sl. haust lagði forsætisráðherra, Geir Haarde, áherslu á sérstöðu Íslands. Flest bendir því til að frumvarp þetta sé biðleikur nema skýrt komi fram í athugasemdum við það á hvern hátt það tengist loftslagsstefnu stjórnvalda og samningsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar á vettvangi Kyoto-bókunarinnar.“

Með athugasemdum tel ég að umsagnarritarinn eigi kannski við ræðurnar um frumvarpið og nefndarálitin við það en ekki hinar eiginlegu athugasemdir sem við köllum svo í okkar þingslangri.

Og áfram segir, með leyfi forseta:

„Brýnt er að fram komi sá skilningur löggjafans að íslenska undanþáguákvæðið verði ekki endurtekið og að álfyrirtæki á Íslandi verði í framtíðinni að finna leiðir til að draga verulega úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda eða bæta fyrir losun með öðrum hætti. Á sama hátt og gert er ráð fyrir í frumvarpinu að þau fyrirtæki geri sem ekki rúmast innan losunarheimilda Íslands 2008–2012.

Það má ekki gerast að ríkisstjórnin fari aftur fram með kröfur um undanþágur fyrir orkufrekan iðnað á Íslandi í anda þess ákvæðis sem samþykkt var á 7. fundi aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Marrakesh árið 2001. Slíkt samningsmarkmið samrýmist hvorki yfirlýstum tilgangi lagafrumvarps þessa né loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar.“

Þetta segir m.a. í umsögn Náttúruverndarsamtaka Íslands og ég framlengi þessar staðhæfingar og þessar spurningar til hæstv. umhverfisráðherra sem hér er stödd. Í fyrsta lagi óska ég eftir því að hún greini okkur frá því með hvaða hætti þetta frumvarp tengist loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar og hvernig á því stendur að fyrsta skrefið í þeirri stefnu er að auka losun sem á að minnka um 50–75% árið 2050 frá því sem var árið 1990, fyrir 17 árum.

Í öðru lagi spyr ég hæstv. ráðherra: Hver eru samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar í þeim viðræðum sem eru að hefjast, eða eru í raun og veru hafnar má segja, um næsta tímabil eftir það sem við kennum við Kyoto?