133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[23:44]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Mér finnst eðlilegt í þessari umræðu að bregðast við einhverjum þeim atriðum sem komið hafa fram í ágætri framsöguræðu Marðar Árnasonar af hálfu minni hluta umhverfisnefndar og reyna að svara einhverjum af þeim spurningum eða álitaefnum sem hv. þingmaður hafði orð á í ágætri og yfirgripsmikilli ræðu sinni. Ég vil byrja á því að segja að mér finnst ánægjulegt að minni hluti umhverfisnefndar fagnar frumvarpinu, tilgangi þess og efni, í grundvallaratriðum eins og kemur fram í áliti minni hlutans þótt hann leggi fram breytingartillögur við það.

Tengingin við loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar er vissulega til staðar. Ef hér verður áframhaldandi uppbygging stóriðju í áliðnaði er í fyrsta lagi ljóst að hún þarf að hlíta ströngustu mögulegum skilyrðum um lágmörkun losunar. Íslensk álver sem framleiða á heimsmarkaði losa aðeins um þriðjung til fjórðung af gróðurhúsalofttegundum miðað við meðalálver í heiminum og til lengri tíma munu þau þurfa að gera enn betur og m.a. þróa tækni um kolefnalaus rafskaut á næstu árum eða áratugum. Ég hef fulla trú á að svo geti orðið. Losun frá álverinu í Straumsvík á framleitt tonn af áli hefur minnkað um tvo þriðju eða meira frá 1990 og markmið stjórnvalda um 50–75% minnkun losunar til 2050 eru mjög sterk skilaboð til atvinnulífsins og almennings um að hefja markvissa þróun í átt að loftslagsvænni atvinnustarfsemi. Ef árangur þjóðfélagsins í heild verður jafngóður á næstu 40 árum og áliðnaðarins á Íslandi á sl. 15 árum næst þetta markmið.

Mig langar að nefna, frú forseti, varðandi það atriði að losunarheimildin sé takmörkuð gæði — minni hlutinn leggur til að að gjald verði lagt á losunarheimildir stóriðju á komandi skuldbindingartímabili og vitnar þar til kerfis ESB máli sínu til stuðnings. Þar er þó miklum meiri hluta heimilda úthlutað ókeypis en fyrirtækjum er gert að minnka losun með samdrætti eða með kaupum á heimildum þeirra sem ná að minnka meira en þeir þurfa. Það verður að leggja áherslu á það að áliðnaðurinn er ekki inni í kerfi ESB. Því má segja að minni hlutinn sé að krefjast sérstakrar skattlagningar á stóriðju á Íslandi sem er ekki fyrir hendi í ESB varðandi þá starfsemi sem fellur undir það frumvarp sem hér um ræðir. Engin tilefni eru til slíks og við megum ekki gleyma því í þessu samhengi að íslensk ákvæði setja stóriðju mjög þröng skilyrði þannig að losun hér verður að vera eins lítil og besta fáanlega tækni gerir á annað borð mögulegt. Þetta hefur kostnað í för með sér fyrir fyrirtækin og með frumvarpinu verða settar nýjar kvaðir á stóriðjufyrirtæki. Þau geta fengið úthlutað heimildum af þeim kvóta sem Ísland fær úthlutað frá skrifstofu Kyoto-bókunarinnar en losun umfram það þurfa fyrirtækin að greiða á markaðsvirði. Við verðum að hafa það í huga í allri umræðunni um þetta mál að í dag eru engar hömlur á losun koldíoxíðs frá stóriðju en með samþykkt frumvarpsins eru settar slíkar hömlur sem verða til þess að stjórnvöld hafa tæki til að tryggja að við stöndum við Kyoto-skuldbindinguna. Við megum ekki gleyma því grundvallaratriði sem frumvarpið gengur út frá.

Jafnframt hefur minni hlutinn haft á orði að það sé óheppilegt að blanda saman úthlutun samkvæmt undanþáguákvæðinu og úthlutun úr almenna kvótanum og gagnrýnir að tekinn sé af handahófi hluti almenna kvótans og settur til stóriðjuúthlutunar. Ég viðurkenni að útreikningurinn á bak við þetta er vissulega nokkuð flókinn en því fer hins vegar fjarri að tölurnar séu teknar af handahófi og er ítarlegar skýringar að finna um þetta í frumvarpinu (Gripið fram í: Það er ekki svo.) eins og ég veit að hv. nefndarmenn í hv. umhverfisnefnd kannast við. Við höfum líka í framsögu um þetta mál farið nokkuð nákvæmlega yfir hvað liggur þarna að baki. En svo háttar til að ef einungis er úthlutað af kvótanum í íslenska ákvæðinu þá kemur upp sú skrýtna staða að greina þarf á milli losunar í tveimur verksmiðjum, álverinu í Straumsvík og Járnblendiverksmiðjunni, þar sem hluti hennar var til staðar 1990 en annar hluti fellur þá undir íslenska ákvæðið sem nær eingöngu til nýframkvæmda eða stækkunar eftir 1990. Þetta er mun flóknara í framkvæmd en sú leið sem er valin í frumvarpinu, að úthluta losunarheimildum sem duga fyrir allri losun frá þessum verksmiðjum. Með því að setja takmarkanir á losun frá stórum verksmiðjum, bæði af því sem fellur undir íslenska ákvæðið og hinu sem fellur undir almennar skuldbindingar Íslands, er líka verið að setja strangari öryggisgirðingar utan um losun stóriðju en ef eingöngu væri litið til íslenska ákvæðisins. Ef takmarkanir í ókeypis losun næðu eingöngu til íslenska ákvæðisins væri t.d. engin lagaleg heimild til að takmarka losun frá starfsemi sem fellur ekki undir skilyrði þess. En sá hluti sem fellur undir almennu heimildirnar dugar eingöngu til losunar stóriðju sem var fyrir hendi fyrir 1990 auk sementsverksmiðjunnar sem að öllum líkindum þarf á heimildum að halda og hugsanlegrar rafskautaverksmiðju á Katanesi sem þegar hefur starfsleyfi. Hér er því um að ræða strangar öryggisgirðingar sem alls ekki eru settar af handahófi.

Það er ýmislegt annað, frú forseti, sem ég hefði viljað koma inn á og bregðast við sem kom fram í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar, sem framsögumanns minnihlutaálitsins, og þó ætla ég til þess að reyna að stytta mál mitt að nefna nokkur almenn atriði varðandi stóriðju- og loftslagsmál í tilefni af ræðu bæði hv. þm. Marðar Árnasonar og Kolbrúnar Halldórsdóttur og segja að það er full ástæða til að fara með gát varðandi bæði virkjun og stóriðju og það á sérstaklega við vegna náttúruverndarsjónarmiða. Við megum ekki rasa um ráð fram við virkjun fallvatna og háhitasvæða og breyta ásýnd landsins meira og hraðar en við kærum okkur um. Margir eru eindregnir andstæðingar stóriðju af öllu tagi af þessum sökum en við megum hins vegar ekki láta slíka andstöðu blinda okkur gegn staðreyndum. Virkjun fallvatna og jarðhita getur verið neikvæð frá náttúruverndarsjónarmiðum en nýting endurnýjanlegrar orku er jákvæð frá loftslagssjónarmiðum.

Tilgangur og grunnur þessa frumvarps er að setja stóriðju skorður vegna skuldbindingar okkar samkvæmt Kyoto-bókuninni og það sendir líka skilaboð fyrir framtíðina um, og nú tel ég mig vera að svara fyrirspurnum hv. þingmanna, að almennt megi búast við þrengingu um heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda vegna nýrra alþjóðlegra skuldbindinga. Frumvarpið getur þess vegna ekki á nokkurn hátt talist hvetjandi til frekari uppbyggingar stóriðju hér á landi.

Þetta ætla ég, frú forseti, að láta duga sem svar vegna þess hversu háttar með tíma og hversu mikil áhersla er lögð á undir lok þingsins að menn tali stutt svo að hægt sé að flýta fyrir þingstörfum en ekki tefja þau.