133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[23:57]
Hlusta

Frsm. minni hluta umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Það ætti kannski að reyna að hafa gæslu við þingdyr þannig að ráðherrar geti fylgst með umræðum án afskipta aðvífandi hv. þingmanna. Um Evrópusambandið er það að segja að hafi ráðherra fylgst með málum áðan þá er gjaldheimild okkar einmitt miðuð við þá staðreynd að undir 2008 fá fyrirtækin í Evrópu úthlutað 90% af sínum losunarheimildum ókeypis. Við gerum ráð fyrir öðru kerfi, m.a. vegna þess að við erum fyrst og fremst með álver og svigrúm þeirra til hegðunar gagnvart losunarheimildum er hreinlega annað en þeirra fyrirtækja sem miðað er við í Evrópusambandinu. Þar eru álver vissulega ekki inni í kvótanum. Það eru sérstakar ástæður til þess, m.a. sú að þeim er að fækka mjög í Evrópu og sú líka að þau eru ekki talin svara þessum hagræna hvata sem kerfið þar á að koma upp. Við teljum þess vegna heppilegast hér, og á bak við það lá auðvitað ákveðin hugsun, að vera með sömu gjaldheimtuna á alla, að gera þetta sem sé þannig. Við gerum okkur grein fyrir að þau geta ekki dregið saman á þessu fyrsta tímabili — en kannski mætti hvetja þau til þess beinlínis að draga saman. Þar með tengist það þeirri spurningu sem ég var að leggja fyrir ráðherrann, vegna þess að hún minntist á þessa merkilegu þróun, þessa merkilegu tækni sem kynni að vera að koma upp, að rafskaut í áliðnaði séu kolefnislaus og þar með sé hægt að draga verulega úr losun í áliðnaðinum, hvað hefur ráðherra gert til að hvetja álfyrirtæki hér eða hvað hyggst hæstv. ráðherra gera til að hvetja álfyrirtæki hér til að taka þátt í þessari þróun?