133. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[00:00]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ágæt ræða hæstv. umhverfisráðherra áðan gaf það auðvitað til kynna sem við höfum verið að reyna að halda fram í umræðunni, að hér sé fullt tilefni til að skiptast á skoðunum um þetta viðamikla mál sem við í stjórnarandstöðunni fögnum í grunninn þó við gagnrýnum ákveðna þætti þess, eins og fram hefur komið.

Ég saknaði þess úr ræðu hæstv. umhverfisráðherra að við fengjum að vita eitthvað um það hver samningsmarkmið íslenskra stjórnvalda koma til með að verða á næsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar. Fyrsti fundurinn að því er mér skilst varðandi undirbúning þess tímabils verður haldinn í haust á Balí og ég vil endilega fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvaða áform íslensk stjórnvöld séu með uppi í þeim efnum.

Ég er sammála hæstv. ráðherra í því sem hún sagði að almennt mætti búast við þrengingum í þeim almennu skuldbindingum sem gert er ráð fyrir að þjóðríki undirgangist. Ég er sammála því að hægt sé að búa til kraftmikinn markað með losunarheimildirnar en það skiptir mestu máli að þrengja sviðið, draga úr losuninni og hafa minna til skiptanna. Markmiðið er að draga úr.

Það væri líka forvitnilegt að vita hvort hæstv. ráðherra hafi einhverjar skoðanir á þeim tillögum sem við höfum lagt fram í stjórnarandstöðunni varðandi greiðslu fyrir losunarheimildirnar. Í breytingartillögu okkar við 9. gr. gerum við ráð fyrir að atvinnurekstur þurfi að greiða 100 kr. fyrir hverja losunarheimild sem honum er úthlutað og að Umhverfisstofnun verði fengin umsýsla með því gjaldi og gjaldið eigi síðan að renna í ríkissjóð og ónýttar losunarheimildir sé hægt að leggja aftur inn og skal þá fjárhæðin endurgreidd. Mér fyndist ágætt ef hæstv. ráðherra vildi aðeins tjá sig um þessar tillögur.