133. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2007.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[00:18]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ólíkt því máli sem við ræddum áðan um losun gróðurhúsalofttegunda hlaut þetta mál nokkuð góða og vandaða umfjöllun í hv. menntamálanefnd og ég er þakklát fyrir að heyra að hv. formaður nefndarinnar sendir hér þakkarkveðjur til þeirra sem unnu málið með honum.

Hins vegar vil ég segja í upphafi míns máls að það er að sjálfsögðu fagnaðarefni að nú skuli loksins hilla undir að áratugalangri baráttu fyrir Náttúruminjasafni Íslands ljúki. Það er sannarlega orðið tímabært að endahnútur verði bundinn á þá baráttu og í sjálfu sér vona ég og læt í ljósi þá einlægu ósk að tekið verði myndarlega á í þessum efnum og stofnað af framsýni og fagmennsku öflugt safn á sviði náttúruvísinda sem getur tryggt að þeir vísindamenn sem starfa að náttúruvísindum geti vel við unað. Þeir ferðamenn sem koma hingað til Íslands og vilja kynnast náttúru Íslands í gegnum öflugt, kraftmikið, framsækið og nútímalegt safn, fái það. Ég held því að gríðarlega miklar vonir séu bundnar við þá stofnun sem á grundvelli þessara laga þarf að rísa.

Hitt er svo aftur annað mál að þegar frumvarpið leit dagsins ljós á Alþingi var það nokkuð gagnrýnt að efnisatriði frumvarpsins voru nokkuð óljós og veik. Segja mátti að frumvarpið væri lítið annað en umgjörð utan um starf forstöðumanns safnsins. Þetta er í sjálfu sér í samræmi við það sem virðist vera orðin lenska í menntamálaráðuneytinu. Frá hæstv. menntamálaráðherra koma frumvörp eftir frumvörp sem gera ráð fyrir að hitt og þetta sé sett á laggirnar og stofnað sé til þessarar og hinnar ríkisstofnunarinnar, en það má sama sem ekkert segja um fyrirkomulag eða skipulag viðkomandi stofnana en því meiri áhersla er lögð á að ráðinn sé forstöðumaður sem fái frjálsar hendur til að véla með málefni stofnunarinnar að vild.

Þetta er að mínu mati veik löggjöf, veik prinsipp í svona málum. Þegar verið er að setja á laggirnar ríkisstofnanir sem eiga að standa undir lögbundnum verkefnum, þá skiptir verulegu máli að verkefnin séu skilgreind í lögunum og stofnuninni sé sett kannski ekki ítarleg skipulagsskrá í lögunum en engu að síður að skipulag stofnunarinnar sé að ákveðnu marki að minnsta kosti bundið í lagatextann.

Eins og hv. formaður nefndarinnar gat um skrifaði ég undir frumvarpið með fyrirvara og fyrirvarar mínir lúta að m.a. þessu sem ég hóf mál mitt á að segja. En þó eru hér aðrir þættir sem mig langar til að gera frekari grein fyrir.

Samningur Hins íslenska náttúrufræðifélags og menntamálaráðherra, Eysteins Jónssonar, frá 16. júní 1947, sem er fylgiskjal með nefndarálitinu, sýnir okkur tilurð þessa máls sem við hér ræðum. Stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags var búin að vinna að því lengi að reyna að koma þeim munum og gripum sem til voru í fórum félagsins inn í einhvers konar safnaform. Á endanum varð til sá samningur sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson las, og þar kemur í ljós að félagið leggur þar fram ákveðinn sjóð upp á 82.000 kr. rúmar sem félagið hafði safnað „í því skyni að reisa safninu hús, svo og bækur, áhöld, skjöl og allt annað, er safninu hafði fylgt og fylgir“ kæmist undir þak og gæti þá orðið vísir að metnaðarfullu náttúruminjasafni.

Þessi samningur gaf mönnum fyrirheit um að eitthvað ætti að fara að gerast. Menn héldu það um miðja síðustu öld í alvöru að ríkisstjórnin ætlaði að taka af afli á málefni safnsins. Það gekk því miður ekki eftir. Við vitum nú við hvaða kost þetta safn býr í fórum Náttúrufræðistofnunar Íslands sem hefur við afar þröngan kost reynt að setja upp sýningu, sem er glæsileg að því leytinu til miðað við það húsnæði sem hún er í, sem er afar lítið og hentar engan veginn markmiðinu, að þá er sú litla sýning sem þar er í glerskápum afar athyglisverð og hefur reynst skólabörnum og öðrum sem vilja sækja það heim reglulega vel. Ég þekki það sjálf hafandi komið þangað nokkrum sinnum og skoðað þá muni sem þar eru. Það sem við sjáum þar er auðvitað hluti af því sem Hið íslenska náttúrufræðifélag ánafnaði ríkinu á sínum tíma. En þar er, eins og ég segi, húsakostur slíkur að þar fer ekki þannig um safnið að nægilegur sómi sé að því.

Safninu fylgdi líka gríðarlega mikið vísindasafn og bækur og annað sem er auðvitað ekki til sýnis en er engu að síður geymt í geymslum Náttúrufræðistofnunar. Talandi um geymslur Náttúrufræðistofnunar Íslands þá könnumst við vel við það að sumarið 2006, síðasta sumar, glataðist gífurlegt magn af verðmætum sýnum sem voru í vísindasafni Náttúrufræðistofnunar þegar rafmagn fór af frystigeymslum sem teknar höfðu verið á leigu undir hluta safnsins og í haust og vetur lá við tjóni á óbætanlegum náttúrumunum þegar sprungu í tvígang vatnsrör í húsnæðinu á Hlemmi. Þetta segir meira en mörg orð, virðulegi forseti, um þær aðstæður sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur verið gert að búa Náttúruminjasafninu.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur þurft að búa við fjársvelti svo árum skiptir. Ár eftir ár hafa komið inn á Alþingi óskir um aukna fjármuni til stofnunarinnar og það að húsnæðisvandi stofnunarinnar verði leystur á viðunandi hátt. En allt hefur komið fyrir ekki. Stærsti hluti vísindasafnsins er í geymslum einhvers staðar úti í bæ. Fuglshamir og vísindagögn í frystigeymslum og stór hluti þessara verðmæta er svo geymdur í óviðunandi húsnæði á Hlemmi.

Það er auðvitað mjög miður að stjórnvöld skuli ekki hafa gripið fyrr í taumana en raun ber vitni í þessum efnum. En betra er seint en aldrei. Og núna kortéri fyrir kosningar þá skal hæstv. menntamálaráðherra tryggja það að hún geti komið með frumvarp til laga og nýsett lög rétt áður en kosið verður, varðandi mál sem hún hefur dregið lappirnar í frá því hún tók við embætti. Því auðvitað hefur verið legið í henni eins og öðrum menntamálaráðherrum um að gera bragarbót í þessum efnum en hingað til hefur verið skellt skollaeyrum við því. En núna, eins og ég segi, á kosningavetri er allt í einu gerð bragarbót og þetta frumvarp lítur dagsins ljós.

Eitt af því sem þvælst hefur fyrir okkur í menntamálanefnd í vinnu við málið er aðskilnaður safnsins og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Sá aðskilnaður er kominn til vegna safnalaganna sem kveða á um þrjú höfuðsöfn en safnalögin eru lög nr. 106 frá 31. maí 2001. Þau kveða á um þrjú höfuðsöfn sem eru þá Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands. Þetta er búið að vera í lögunum frá 2001 að Náttúruminjasafn Íslands sé eitt af höfuðsöfnum íslensku þjóðarinnar þó ekki hafi nú glitt í stofnun þess fyrr en nú. Sem sýnir auðvitað hvaða hugur hefur fylgt máli hjá núverandi hæstv. ríkisstjórn. Þegar safnalögin voru sett eru það orðin tóm í 5. gr. safnalaganna þar sem segir að Náttúruminjasafn Íslands sé höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Náttúruminjasafn Íslands eigi að annast söfnun, skrásetningu, varðveislu, kynningu og sýningar á náttúru Íslands og nýtingu náttúruauðlinda.

Það er auðvitað vandkvæðum bundið eðli málsins samkvæmt þegar skilja á að rannsóknarstofnun á borð við Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruminjasafn sem samkvæmt safnalögum á nú að heyra undir menntamálaráðherra. Það þekkja það allir sem kynnst hafa því hvernig vélað er um hluti og hvernig ráðherrar reyna að skipta á milli sín málaflokkum, að það getur reynst ansi snúið. Ég er hrædd um að það geti reynst snúið í þessu tilfelli. Það fengum við að heyra og sjá í umsögnum málsaðila í menntamálanefnd.

Í því sambandi ég ætla að byrja á að vitna í bréf sem starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands skrifaði hæstv. umhverfisráðherra, Jónínu Bjartmarz, þann 25. janúar síðastliðinn. Það bréf varðar húsnæðismál Náttúrufræðistofnunar Íslands þar sem segir um aðbúnaðinn, með leyfi forseta:

„Aðalstarfsemi Náttúrufræðistofnunar í Reykjavík er nú í 1.800 fermetra húsnæði á þremur hæðum við Hlemmtorg. Þar er afgreiðsla, skrifstofur 35 starfsmanna, bókasafn, rannsóknastofur og vísindasöfn, auk sýningarsafns“ — sem ég gat um áðan — „sem þar hefur verið í tveimur herbergjum um áratugaskeið. Meginhlutanum af vísindasöfnum stofnunarinnar, en þau eru mikilvæg undirstaða í rannsóknastarfi hennar, hefur hins vegar vegna þrengsla verið komið fyrir til bráðabirgða í 600 fermetra iðnaðarhúsnæði við Súðarvog. Í starfsstöð stofnunarinnar á Borgum á Akureyri vinna átta manns og er húsnæðismálum þar vel fyrir komið. Stjórnvöldum hefur um langt skeið verið ljóst að brýnt sé að leysa húsnæðisvanda stofnunarinnar í Reykjavík en fjárveitingar hafa ekki fengist til úrbóta.“

Í kjölfar þeirra óhappa sem ég gat um í máli mínu áðan fagna starfsmenn því að svo virðist sem hreyfing sé komin á málið. Þeir láta í ljósi ósk sína og hvetja eindregið til þess að allar áætlanir um betra húsnæði fyrir starfsemi stofnunarinnar og nýtt húsnæði fyrir Náttúruminjasafn miði að heildstæðri framtíðarlausn enda þótt framkvæmdum kunni að verða áfangaskipt, allt eftir aðstæðum, og að starfsemi þessara stofnana, sem eru greinar af sama meiði, sem er öflun og miðlun þekkingar í náttúru landsins verði skoðuð í því ljósi. Í því sambandi leggja starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands eftirfarandi til í bréfinu til hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„1. Fundin verði framtíðarlausn á húsnæðismálum Náttúrufræðistofnunar Íslands, vísindasöfnum hennar og Náttúruminjasafns.

2. Náttúrufræðistofnun ásamt vísindasöfnum sínum og Náttúruminjasafni Íslands verði á sama stað eða í nánum tengslum hvort við annað.

3. Starfsemi þessara stofnana verði í höfuðborg landsins.“

Þeir vísa í því sambandi til fylgiskjals sem fylgir bréfinu með eftirfarandi rökstuðningi, með leyfi forseta:

„Safnalög og frumvörp um náttúruminjasafn: Með safnalögum, nr. 106/2001, voru sett í fyrsta sinn rammalög um starfsemi safna á Íslandi en samkvæmt þeim skulu starfa þrjú höfuðsöfn í landinu: Þjóðminjasafn, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands.

Með safnalögum færðist yfirstjórn allra minjasafna, þar með talið Náttúruminjasafns, til menntamálaráðherra en umhverfisráðherra fer áfram með starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Í safnalögum er gert ráð fyrir því að Náttúruminjasafn skuli vera höfuðsafn á sviði náttúrufræða, verða öðrum söfnum til ráðgjafar og stuðla að samvinnu safna og samræmdri safnastefnu í náttúrufræði; annast söfnun, skrásetningu, varðveislu, kynningu og sýningar á náttúru Íslands og nýtingu náttúruauðlinda. Rannsóknir á náttúru Íslands eru eftir sem áður verkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, sbr. 4. gr. laga nr. 60/1992, og gerir frumvarp menntamálaráðherra um Náttúrugripasafn Íslands ráð fyrir sérstöku samkomulagi um náið samstarf Náttúrufræðistofnunar og Náttúruminjasafns, sbr. 3. gr.“

Síðan fer starfsfólkið yfir hlutverk Náttúruminjasafns Íslands og gerir þar að umfjöllunarefni fræðsluhlutverkið sem er að miðla fræðslu um íslenska náttúru til skóla, fjölmiðla og almennings. Starfsfólkið viðurkennir að það sé eitt mikilvægasta hlutverk safnsins sem því miður hafi verið vanrækt. Það hefur kannski fyrst og fremst verið vegna hins bágborna húsakosts sem ekki hefur verið hægt að hafa til sýnis nema lítið brot af því sem til er af munum og erfitt að taka á móti fjölmennum hópum í þetta litla húsnæði við Hlemmtorg.

Svo segir um fræðsluhlutverkið í rökstuðningi starfsfólks Náttúrufræðistofnunar að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir því að gripir úr vísindasöfnum Náttúrufræðistofnunar verði nýttir til sýninga og fræðslu. „Því er mikilvægt“ — segir starfsfólkið — „að um þetta verði náin samvinna milli Náttúrufræðistofnunar og Náttúruminjasafnsins.“ Í greinargerð með frumvarpinu sem þau vitna til í bréfi sínu er þess einmitt getið að mikilvægt sé að þessar stofnanir samnýti húsnæði til varðveislu gripa, forvörslu og rannsókna.

Það er augljóst að fræðsluhlutverki Náttúruminjasafnsins, segir starfsfólkið í rökstuðningi sínum, verði best sinnt á þéttbýlasta svæði landsins, eins og gildir um hið höfuðsöfnin. Þess er getið að borgarráð Reykjavíkur hafi einmitt ályktað í sömu veru. Og þess er getið í bréfinu að á deiliskipulagi Háskólareits sé gert ráð fyrir lóð undir Náttúruhús sem ætlað var að hýsa m.a. Náttúrufræðistofnun Íslands ásamt vísindasöfnum og náttúrugripasafni. Lóðin er í Vatnsmýrinni, við hliðina á Öskju, kennsluhúsnæði Háskóla Íslands í náttúrufræðum. Sá staður er að mati þessa starfsfólks afar heppilegur fyrir þessa starfsemi.

Nú fer þetta sjónarmið starfsmannanna alveg saman við niðurstöður nefndar sem skilaði ályktun og tillögum um úrlausn í þessum málum og það var ekki fyrsta nefndin sem starfaði til að reyna að finna niðurstöðu í þessi mál. Þessi nefnd skilaði af sér tillögum árið 1991, hún skilaði þessari svokölluðu bláu skýrslu sem þeir sem hafa fjallað um Náttúruminjasafn og Náttúrufræðistofnun Íslands í gegnum tíðina er vel kunn. Þessi skýrsla gerir einmitt ráð fyrir því að reist verði náttúruhús í Reykjavík í eigu ríkisins, Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og hugsanlega fleiri aðila og í kjölfarið á þessari vinnu var einmitt tekin frá sú lóð sem starfsfólk Náttúrufræðistofnunar getur um í rökstuðningi sínum .

Starfsfólkið fjallar einnig um fræðasamfélagið í bréfi sínu og segir, með leyfi forseta:

„Helstu rannsóknastofnanir í náttúruvísindum eru auk Náttúrufræðistofnunar og Háskóla Íslands: Hafrannsóknastofnunin, Íslenskar orkurannsóknir, Veiðimálastofnun, Veðurstofa Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands. Meginþunginn í starfsemi allra þessara stofnana, annarra en Landbúnaðarháskólans, er í Reykjavík enda þótt þær hafi einnig starfsstöðvar annars staðar á landinu.

Íslenska fræðasamfélagið í náttúruvísindum er fámennt og hefð fyrir nánu samstarfi vísindamanna og stofnana í rannsóknum og kennslu. Á síðustu sjö árum hafa árlega útskrifast 37–50 stúdentar úr líffræði, 12–19 úr landafræði og 6–16 úr jarðfræði við Háskóla Íslands. Þeir sem hyggja á rannsóknatengt framhaldsnám gera það oftar en ekki í samvinnu við eða á vegum þeirra rannsóknastofnana sem áður eru nefndar. Ljóst er að stúdentar í náttúrufræðum mundu hafa mikið gagn af öflugu Náttúruminjasafni sem og af vísindasöfnum Náttúrufræðistofnunar. Samstarf þessara stofnana mundi þannig bæði efla kennslu í náttúrufræðum á háskólastigi og rannsóknir á vegum Náttúruminjasafns og Náttúrufræðistofnunar.“

Í tengslum við þessa röksemdafærslu, hæstv. forseti, setti ég fram hugmynd í nefndinni þegar vinna við frumvarpið stóð yfir um það að búnar yrðu til í lagatexta tengingar á milli Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands og annarra vísindastofnana. Ég vildi reyndar að ákveðnar rannsóknastofnanir yrðu nafngreindar í frumvarpinu og lagði til hugmynd sem var rædd og reifuð í nefndinni og mig langar til að geta í máli mínu. Hún var orðuð með þessum hætti:

Náttúrufræðistofnun Íslands, Háskóli Íslands og Hafrannsóknastofnun eru ásamt öðrum opinberum stofnunum sem samið er sérstaklega við vísindalegur og faglegur bakhjarl Náttúruminjasafnsins. Stofnanirnar skulu styðja við fræðslu- og sýningarstarfsemi safnsins og rannsóknir á þess vegum með því að veita safninu, eftir því sem um semst, aðgang að safnkosti og vísindalegum gögnum og rannsóknarniðurstöðum til afnota. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um samstarf viðkomandi stofnana.

Með þessari tillögu, hæstv. forseti, taldi ég jafnframt að bráðabirgðaákvæði frumvarpsins eins og hæstv. menntamálaráðherra lagði það fram væri óþarft en í því er eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður nefndarinnar, gat um áðan getið um það að gert skuli samkomulag á milli Náttúruminjasafnsins og Náttúrufræðistofnunar um tengsl og samvinnu þessara stofnana. Ég teldi algerlega eðlilegt og nánast einboðið að samkomulag af því tagi yrði líka gert við nafngreindar tilteknar stofnanir sem ég hefði talið að ættu að vera Háskóli Íslands og Hafrannsóknastofnun. Ég byggi þessa tillögu mína á áðurnefndri skýrslu sem gerði ráð fyrir þessum nánu tengslum.

Nú er það auðvitað svo, að Hafrannsóknastofnun Íslands er líka á sama hátt og Náttúrufræðistofnun Íslands öflug rannsóknastofnun á sviði náttúrufræða og náttúruvísinda. Náttúran sem Hafrannsóknastofnun rannsakar er að hluta til í þágu atvinnuveganna, þ.e. fiskveiðanna, en að hluta til bara dæmigerð rannsóknarstofnun sem gerir grunnrannsóknir á lífríki sjávar, á hafinu sem slíku og vistkerfi þess. Ég lít svo á og tel að ég fari með rétt mál þegar ég segi að Hafrannsóknastofnun búi yfir gríðarlega miklu safni vísindagagna og eflaust muna sem mundu sóma sér afar vel í nýju Náttúruminjasafni Íslands. Ég hefði því talið verulegan feng að því að hafa þessar stofnanir nafngreindar inni í lagatextanum. Það er kannski vegna þess að ég tel eins og ég sagði í upphafi máls míns að kveða þyrfti nánar á um skipulag og útlit þessarar stofnunar í frumvarpstextanum eða í lagatexta en hæstv. menntamálaráðherra telur þörf á.

Ég ætla að ljúka við að vitna í rökstuðning starfsmanna Náttúrufræðistofnunar Íslands sem auk þess að fjalla um fræðsluhlutverkið og fræðasamfélagið í bréfi sínu fjalla líka um landkynninguna og þann þátt sem lýtur að landkynningu í starfsemi safns af þessu tagi. Þar segja starfsmennirnir að flestir þeirra erlendu ferðamanna sem hingað komi geri það í þeim tilgangi að kynna sér náttúru landsins. Þetta er auðvitað stutt með rökum. Við höfum rannsóknir um þetta sem sýna hvað það er sem dregur erlenda ferðamenn í langflestum tilfellum hingað til landsins og það er náttúra Íslands. Þeir sem ekki komast upp á öræfi til að kynna sér hana þar sem hún er í öllu sínu veldi kysu auðvitað að eiga aðgang að glæsilegu nútímalegu náttúruminjasafn. Ég tek því undir þau sjónarmið þessara starfsmanna Náttúrufræðistofnunar að gott náttúrufræðisafn gæti orðið afar mikilvægt í landkynningarskyni. Þar sem flestir ferðamenn hafa viðkomu í höfuðborginni má búast við að rekstrargrundvöllur safnsins verði einna best tryggður þar og lýsi ég stuðningi við þau sjónarmið einnig.

Þetta dreg ég fram, hæstv. forseti, til að sýna hversu augljóst það er að Náttúrufræðistofnun Íslands og væntanlegt Náttúruminjasafn þurfi að finna lausn á því hvernig stofnanirnar verði aðskildar og hvernig þær verði í samstarfi. Ég geri ráð fyrir að þetta sé mikil vinna og vandasamt verk og það hefði getað auðveldað þessa vinnu og þetta vandasama verk ef fleiri stofnanir hefðu verið til kallaðar formlega í lagatexta til þess að vera þessir vísindalegu bakhjarlar Náttúruminjasafnsins.

Af því að ég hef verið að vitna til hugmynda starfshóps sem skipaður var á 10. áratugnum og skilaði tillögum sínum um Náttúruhús 1991 er kannski rétt að geta þess að starfshópurinn gerði tillögu í nokkuð mörgum liðum sem gekk að sumu leyti svipaðar brautir og þetta frumvarp sem við fjöllum um hér en að sumu leyti örlítið aðrar. Það er forvitnilegt að sjá að starfshópurinn fór svo langt að reikna út hvað það mundi kosta að byggja svona metnaðarfullt hús og komst að niðurstöðu um það að í heild yrði Náttúruhús í Reykjavík um 6.800 fermetrar og áætlaður byggingarkostnaður yrði rúmar 860 millj. kr. á verðlagi í júní 1991. Þar af var gert ráð fyrir að hluti náttúrusafns yrði rúmir 3.800 fermetrar og áætlaður byggingarkostnaður með innréttingum í sýningarsölum rúmar 590 millj. en húsnæði Náttúrufræðistofnunar yrði áætlað tæpir 3.000 fermetrar og kostnaður rúmlega 270 millj. kr. Á móti þeim fjárfestingum var talið að losna mundi 1.520 fermetra húsnæði stofnunarinnar við Hlemmtorg í Reykjavík.

Af því að við höfum yfir að ráða afar öflugri upplýsingadeild á Alþingi Íslendinga óskaði ég eftir því við upplýsingadeildina að þessar tölur yrðu framreiknaðar til þess að við sæjum í hendi okkar út frá verðlagi dagsins í dag við hvað menn hafi verið að miða 1991. Það er forvitnilegt þegar litið er á þetta að tölurnar verða með framreikningi, miðað við hækkun vísitölu íbúðarhúsnæðis — framreikningurinn er reyndar svolítið flókinn, hann kemur til mín í tvennu lagi, annars vegar er getið um það að vísitala íbúðarhúsnæðis hafi hækkað um 98,1% frá júní 1991 til mars 2007 og hins vegar að vísitala íbúðarhúsnæðis hafi hækkað um 93% fyrir sama tímabil og ef við förum ákveðinn milliveg milli vísitölu iðnaðarhúsnæðis þá erum við kannski á einhverju svæði sem gæti talist raunsætt og þá eru 860 millj. sem heildarkostnaðurinn var áætlaður 1991 1 milljarður og 660 millj. fyrir heildarkostnað við Náttúruhús í Reykjavík sem hýsa ætti Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrugripasafn. Þar af yrði safnhlutinn 1,1 milljarður og í hlut Náttúrufræðistofnunar kæmi 521 millj. Þetta er til gamans gert að geta þess að þarna hafa menn verið að tala um gríðarlega háar upphæðir sem við sjáum þegar búið er að framreikna þær og það er rétt að geta þeirra hér og nú til þess að við áttum okkur á því hversu stórt verkefni er fyrir dyrum.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið kemur í ljós að menntamálaráðuneytið hafði ekki lagt fyrir fjárlagaskrifstofu áætlanir um uppbygginguna eða rekstur Náttúruminjasafnsins og frumvarpið veiti takmarkaðar upplýsingar sem hægt sé að byggja á kostnaðarmat. Þó kemur fram að ráðinn verði forstöðumaður og að gripir sem tilheyra Náttúrufræðistofnun Íslands, sem hafi fyrst og fremst sýningargildi, verði á forræði safnsins og æskilegt sé að kanna möguleika á að stofnanirnar tvær sameinist um húsnæði og aðstöðu og geri samkomulag um ýmis atriði, svo sem varðandi sýningu á gripum í vísindasafni Náttúrufræðistofnunar og fleira.

Úr því að engar áætlanir liggja fyrir gefur fjármálaráðuneytið sér afar einfaldar forsendur við gerð kostnaðarmats til að gefa grófar hugmyndir um áætlaðan kostnað. Þar kemur í ljós að forstöðumannsstaðan eigi að kosta 7–8 millj. á ári og útgjöldin vegna lágmarksskrifstofubúnaðar sé 1–2 millj. kr., verði fleira fólk ráðið megi vænta að útgjöld aukist um 3–10 millj. kr. fyrir hvert starf, að reikna megi með 4–6 starfsmönnum og rekstrarkostnaður geti numið 30–50 millj. kr. Ekki gerir fjárlagaskrifstofan ráð fyrir að byggt sé yfir safnið þannig að hér eru ekki tilgreindir neinir 1,5 milljarðar króna eða svo í húsbyggingu. Ég held að við verðum öll að átta okkur á þeirri skuldbindingu sem við, löggjafinn, Alþingi Íslendinga erum í raun að undirrita með því að samþykkja þessi lög. Kannski fyrst og fremst þess vegna samþykki ég frumvarpið og fagna því að þetta verði að lögum. Ég sé fyrir mér að hugmyndinni sem starfshópurinn skilaði 1991 verði að einhverju leyti fylgt þar sem gerð var metnaðarfull áætlun um náttúruhús í Vatnsmýrinni.

Ég ætla ekki að vera að lengja mál mitt með því að vera að fara yfir skýrslu starfshópsins. Hún er afar fróðleg og sýnir hversu langt menn hafa verið búnir að hugsa þetta. Ég ráðlegg þeim sem eiga eftir að vinna við þetta mál áfram að kynna sér vel niðurstöðurnar. Ég tel að í þeim séu fólgnir ákveðnir lyklar að þessu máli, hvernig megi vinna það svo vel fari.

Ég tek undir með umsagnaraðilum sem létu í ljós þær skoðanir að mikilvægt væri að vel tækist til við verkaskiptingu og samstarf Náttúrufræðistofnunar Íslands og hins væntanlega Náttúruminjasafns þótt ég hefði kosið að fleiri stofnanir yrðu teknar með. Ég vænti þess, svo notuð séu orð úr umsögn Veðurstofu Íslands, að strax verði hafist handa við að koma upp metnaðarfullu náttúruminjasafni sem stendur undir nafni og hæfir mikilvægi og fegurð íslenskrar náttúru. Hér segir, með leyfi forseta: „Það má ekki seinna vera og vonandi verður tekið á þessu verkefni af slíkum myndarbrag að 100 ára aðgerðaleysi verði eftir á talið réttlætanlegt.“ — Sannarlega, hæstv. forseti, tek ég undir þessi orð. 100 ára aðgerðaleysi í málefnum Náttúruminjasafns Íslands er dökkur skuggi sem stjórnvöld hafa ekki náð að reka af sér fyrr en nú. Það er vonum seinna, verð ég að segja, og nauðsynlegt að áformin og fyrirheitin sem fólgin eru í frumvarpinu verði efnd sem allra fyrst, af miklum glæsibrag og af raunsæi. Það þarf að tryggja að nýtt náttúruminjasafn á Íslandi verði eins og draumar manna hafa staðið til frá því að menn fóru að orða þessar hugmyndir í upphafi. Árið 1947 gaf Hið íslenska náttúrufræðifélag ríkinu til eignar safnmuni sem það hafði þá komið upp.

Ég hefði haft gaman af því að vitna í nokkrar umsagnir. Það er fróðleikur í umsögnum sem nefndinni bárust og sjónarmið sem þar bárust eru þarft innlegg í umræðuna en eins ömurlega og hér háttar til, hæstv. forseti, er ekki svigrúm fyrir efnisumfjöllun um þetta mál því miður. Slík efnisumfjöllun ætti að vera og snautlegt að hæstv. ríkisstjórn skuli láta okkur ræða þetta mikilvæga og metnaðarfulla mál um miðja nótt á Alþingi Íslendinga örfáum stundum áður en menn þykjast ætla að fresta þinginu. Þetta ber ekki vott um mikla reisn í störfum þingsins og ítreka ég og undirstrika enn gagnrýni mína á þá sem hér fara með stjórn.

Ég held að ég láti það verða lokaorð mín í stað þess að lesa úr umsögnum eða geta þeirra frekar. Það munu kannski aðrir ræðumenn gera á eftir mér. Ég ítreka enn og undirstrika þá von mína að hér verði haldið þannig á málum að það líði ekki langur tími þangað til við getum litið glæsilegt náttúruminjasafn og ég heiti því ef við í stjórnarandstöðunni komum til með að eiga hlut að ríkisstjórn á næstu missirum þá verður þetta eitt af forgangsmálunum sem við komum til með að beina kastljósinu að.