133. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2007.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[01:13]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ákvað bara að nýta mér andsvarsformið til að segja hér eins og eina replikku, svo ég leyfi mér nú að sletta, í tilefni af síðustu orðum hv. þm. Marðar Árnasonar, ég gleymdi að geta þessara hugleiðinga okkar með nafnið. En ég tek undir orð hv. þingmanns um að þingmenn hugleiði hvort við eigum ekki að láta safnið heita Náttúrusafn Íslands.

Mér finnst það hljóma vel og mér finnst það gefa góða mynd af því sem við erum að reyna að sjá fyrir okkur. Því við sjáum fyrir okkur húsrými í höfuðstað Íslands, a.m.k. við flest sem vorum að vinna við þetta í nefndinni, þar sem náttúru Íslands verða gerð skil á nýstárlegan hátt vonandi í formi margmiðlunar og sýningargripa og samspils arkitektúrs hússins og ljóss og skugga og þess sem skapar gott og gefandi húsnæði.

Ég held að það færi vel á því að slíkt safn héti Náttúrusafn Íslands. Ég bið því hv. þingmenn að hugleiða hvort við ættum ekki að koma með breytingartillögu eða vísa því til menntamálaráðherra að það verði hugleitt að það verði nafnið.