133. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2007.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði.

523. mál
[01:22]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um breytingar á lagaákvæðum um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði en það er að finna á þskj. 1129. Á því þingskjali eru enn fremur taldir upp þeir gestir sem komu á fund nefndarinnar og þess getið að nefndinni hafi borist umsagnir.

Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breytingu á samkeppnislögum, þskj. 788, 522. mál. Frumvörpin byggja á starfi nefndar sem forsætisráðherra skipaði um viðurlög við efnahagsbrotum en formaður nefndarinnar var dr. Páll Hreinsson.

Í nefndarálitinu eru lýsingar á frumvarpinu og vísa ég til þess.

Kveðið er á um það í frumvarpinu að brot gegn lögunum sæti aðeins opinberri ákæru ef kæra þar að lútandi berst lögreglu frá Fjármálaeftirliti. Einungis meiri háttar brot sæta kæru til lögreglu og er það sérstaklega skilgreint í frumvarpinu hvenær brot teljast meiri háttar. Fjármálaeftirlitinu ber að gæta jafnræðis og er sérstaklega kveðið á um það í frumvarpinu að gæta skuli samræmis við úrlausn sambærilegra mála. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson og Ögmundur Jónasson skrifa undir álit þetta með fyrirvara. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Jóhanna Sigurðardóttir, með fyrirvara, Dagný Jónsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, með fyrirvara, Birgir Ármannsson, Drífa Hjartardóttir, Sæunn Stefánsdóttir og Ögmundur Jónasson, með fyrirvara.