133. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2007.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

279. mál
[01:33]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, með síðari breytingum, frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Nefndarálitið er að finna á þingskjali 1255. Þar er getið um þá gesti sem komu á fund nefndarinnar og einnig að umsagnir hafi borist. Svo er lýsing á frumvarpinu en það er lagt fram samhliða frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun (þskj. 293, 280. mál) og frumvarpi forsætisráðherra til laga um breyting á lögum um Vísinda- og tækniráð (þskj. 308, 295. mál).

Í því frumvarpi sem iðnaðarnefnd hefur haft til umfjöllunar er gert ráð fyrir að tryggingardeild útflutnings verði vistuð innan Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Hefur iðnaðarnefnd lagt til breytingu á því frumvarpi þannig að tryggingardeild útflutnings muni áfram vistast hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Þykir því einsýnt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd leggi til breytingar á frumvarpinu í þeim tilgangi að þau ákvæði falli brott sem kveða á um brottfall þeirra ákvæða laganna sem fjalla um tryggingardeild útflutnings. Þá er í frumvarpinu lagt til að vöruþróunar- og markaðsdeild Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins verði lögð niður og verður eigið fé hennar hluti af eigin fé Nýsköpunarsjóðs, að sjóðnum verði heimilt að gera afleiðusamninga og að aðeins Ríkisendurskoðun hafi eftirlit með reikningum sjóðsins og eignum en ekki Fjármálaeftirlitið jafnframt. Að lokum skal nefnt að lagt er til að ákvæði laganna um refsinæmi brota verði fellt brott.

Í umsögnum og í umræðum í nefndinni var vakin athygli á því að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins var upphaflega myndaður að hluta úr eigin fé Fiskveiðasjóðs og Iðnlánasjóðs sem runnu í Fjárfestingarbanka Atvinnulífsins (FBA) og viðkomandi starfsgreinar töldu eign sína. Þetta skýrir t.d. tilnefningar í stjórn sjóðsins en tveir af fimm stjórnarmönnum eru skipaðir annars vegar af samtökum atvinnufyrirtækja í iðnaði og hins vegar af samtökum atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi.

Jafnframt var rætt um það í nefndinni að ráðherra staðfesti reglur um mat á fjárfestingartækifærum, auk umsókna um lán og ábyrgðir. Segja má að þetta sé grundvöllur þess að ráðherra geti sinnt sínu eftirlitshlutverki en það er ekki ætlunin að ráðherra hafi afskipti af störfum sjóðsins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með áðurnefndum breytingum sem fram koma á þingskjalinu sem ég gat um.

Hv. þingmenn Ögmundur Jónasson og Ágúst Ólafur Ágústsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hv. þingmenn Anna Kristín Gunnarsdóttir og Jóhann Ársælsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Anna Kristín Gunnarsdóttir, með fyrirvara, Dagný Jónsdóttir, Jóhann Ársælsson, með fyrirvara, Drífa Hjartardóttir, Kjartan Ólafsson og Birkir J. Jónsson.