133. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2007.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

515. mál
[01:47]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Það er frá 1. minni hluta iðnaðarnefndar.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að lesa hér upp allt nefndarálitið. Ég vísa til þingskjals 1010. En frumvarp þetta fjallar um breytingar á ákvæðum um lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Það frumvarp sem hér er til umræðu fjallar um réttindi og skyldur leyfishafa, leyfisveitingar og ýmis stjórnsýsluverkefni sem eru færð frá iðnaðarráðuneyti yfir til Orkustofnunar. En jafnframt er í þessu frumvarp gert ráð fyrir að styrkari stoðum verði skotið undir ýmsar gjaldtökuheimildir.

Hér er um að ræða verkefni sem fyrst fremst lýtur að leit að olíu. Ég vísa enn til þingskjals 1010, en 1. minni hluti gerir hins vegar tillögu um tvær breytingar á frumvarpinu. Það er annars vegar í c-lið 5. gr. frumvarpsins þar sem er fjallað um leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis án auglýsinga. 1. minni hluti var þeirrar skoðunar að eins og frumvarpið hljómar þá væru það heldur rúmar heimildir og leggur til þær breytingar á ákvæðinu þess efnis að birta skulu tilkynningu í Lögbirtingablaði annars vegar og hins vegar í stjórnartíðindum Evrópusambandsins þar sem fram komi afmörkun viðeigandi svæðis ásamt leiðbeiningum um hvar veittar séu frekari upplýsingar um leyfisveitingar á svæðinu.

Hin breytingin sem 1. minni hluti leggur til eru á ákvæði 13. gr. frumvarpsins varðandi þagnarskyldu starfsmanna Orkustofnunar. 1. minni hluti telur að trúnaðarskylda á gögnum á rannsóknarleyfistíma þurfi ekki að vera eins fortakslaus og gert er ráð fyrir í frumvarpinu og að heimilt ætti að vera að semja við umsækjendur um heimildir til rýmri aðgangs að og notkunar á rannsóknargögnum, eins og rakið er í þingskjali 1011.

Ég vísa að öðru leyti til þingskjala 1010 og 1011 varðandi þær breytingartillögur og nefndarálit sem 1. minni hluti leggur til. Undir það rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Sigríður A. Þórðardóttir, Kjartan Ólafsson og Birgir Ármannsson.