133. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2007.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

515. mál
[01:54]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Virðulegi forseti. Það væri nú gaman að ræða hér stundarlangt um olíuleitarmál okkar og líkurnar á því að það kunni að finnast olía, eða að minnsta kosti gas einhvers staðar í nágrenni við Ísland, í íslensku sérefnahagslögsögunni. Það væri nú gaman því það er sem betur fer þannig frá málum gengið að auðlindir í og á hafsbotni og öllu íslensku yfirráðasvæði eru sameign þjóðarinnar eins og vinsælt er að kalla það nú til dags. (Gripið fram í.)

Að vísu er í þessu tilviki skýrt fram tekið að ríkið fari með eignarhaldið fyrir hönd þjóðarinnar. En sameign er það auðvitað engu að síður. Kannski er það ekki eins fjarlægur möguleiki og manni fannst það nú yfirleitt að hér gætu átt eftir að finnast nýtanlegar olíuauðlindir eða gasauðlindir. Aðallega er það vegna þess að verðþróun á jarðefnaeldsneyti kann að gera það að verkum að áhugi glæðist á því að leita og leggja fjármuni í rannsóknir, að einfaldlega með hækkandi olíuverði verði það mögulega áhættunnar virði að leita að vinnanlegum olíulindum eða gaslindum á hafsvæðinu þá væntanlega norður og norðaustur af landinu.

Hér er sem sagt verið að lappa upp á lög sem þegar eru í gildi um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Þau hafa verið í gildi um nokkurra ára skeið og nú sýnist mönnum ástæða til að endurskoða þau lög og setja inn í þau ný ákvæði. Væntanlega vegna þess að sá möguleiki kunni að vera nær að á þau reyni beinlínis.

Fram að þessu hafa í raun engar eiginlegar rannsóknir sem miða að því að afmarka möguleg vinnslusvæði eða staðsetja mögulegar tilraunaboranir farið fram heldur eingöngu forrannsóknir og kannanir með bergmálsmælingum eða endurvarpsmælingum. Þær rannsóknir eru síðan yfirleitt unnar af aðilum sem síðan hyggjast selja þær öðrum ef til leitar komi. En það er út af fyrir sig alveg hægt að taka undir það og viðurkenna að hugsanlega er sá tími nær okkur en maður hefði haldið fyrir nokkrum árum síðan að einhverjir fari að hyggja á alvörurannsóknir þarna og til þess geti jafnvel komið að sótt verði um leyfi til þess að fara út í tilraunaboranir og mögulegar vinnslutilraunir.

Þá kemur auðvitað að því hvernig eigi að framselja leyfi til slíks frá ríkinu, sem eins og hér stendur, er óumdeilanlega eigandi að auðlindum hafsbotnsins. Ég verð nú að taka það fram, af því það er tekið fram hér í nefndaráliti og frumvarpinu að ekki séu lagðar til breytingar á eignarrétti kolvetnisauðlinda, að þá liggur við að maður segi að þakka skyldi það nú að ekki sé verið að leggja það til. Það hefði farið vel saman við auðlindaákvæðið fræga sem átti að setja inn í stjórnarskrána en nú er farið sína leið að hrófla eitthvað við þessum eignarrétti ríkisins.

Það er hins vegar stórkostlega vandasamt mál hvernig um það er búið ef ríkið framselur vinnsluleyfi, nýtingarleyfi á sameiginlegri auðlind eins og þessari. Það er líka mikil spurning um það hvort menn vilji ekki að einhverju leyti hafa möguleika á að stýra vinnslunni í farveg sem þýðir uppbyggingu þekkingar og mögulega aðild innlendra aðila að slíkri vinnslu, jafnvel þó hún sé fjármagnsfrek. Sú leið var valin í Noregi eins og allir vita og Norðmenn eiga nú í dag einhver ríkustu fyrirtæki heims þar sem er ríkisolíufyrirtækið Statoil og eignarhaldsfyrirtæki sem á miklar auðlindir í formi vinnsluréttinda sem það hefur leigutekjur af, nýtir í gegnum það að fá aðra til samstarfs um vinnsluna.

Danir fóru aðra leið. Þeir framseldu þessi réttindi beint í hendur einkafélaga og fyrir vikið byggðist þar af leiðandi ekki upp sjálfstæður iðnaður og sjálfstæð þekking, eignarhald, með sama hætti og gerðist í Noregi. Flestir eru nú þeirrar skoðunar sem borið hafa saman þessar tvær ólíku aðferðir sem frændþjóðir okkar þarna fóru að Norðmenn hafi reynst hyggnari og ekki feimnir við að beita ríkisvaldinu í því skyni að tryggja að í höndum Norðmanna sjálfra yrði öflugur iðnaður á þessu sviði á sama tíma og Danir seldu einfaldlega hinu ágæta fyrirtæki AP Möller-Maersk réttindi sín í Norðursjó og þar hafa þau verið síðan og þróunin orðið allt önnur.

Ég hef verið talsmaður þess þar sem þessi mál hefur borið á góma að við fylgjum frekar fordæmi Norðmanna. Ég mundi vilja ganga frá því mjög tryggilega að menn hefðu í sínum höndum möguleika á að fara mismunandi leiðir eftir því hverjar aðstæður kynnu að verða þegar á það reyndi að hugsanlegu hygðu einhverjir á raunverulegar rannsóknir og jafnvel tilraunaboranir og mögulega vinnslu.

Ég er því að mörgu leyti sammála því sem segir í nefndaráliti 2. minni hluta. Þar sem ég er áheyrnarfulltrúi í iðnaðarnefnd á ég ekki beina aðild að því en ég er að mörgu leyti sammála því að þarna séu ýmis ákvæði sem ástæða væri til að skoða betur. Í raun mundi ég vilja gera beinar breytingar á sjálfum lögunum til að hafa öflugri stýritæki í höndum ríkisins og valkvæðar leiðir í þessu sambandi til að ríkið gæti skilyrt útgáfu leyfa þannig að það áskildi sér til dæmis rétt til þess að mynda eignarhlut í vinnslufyrirtækjum í stað þess að taka leigugjald þá gerðist það í krafti eignar á auðlindinni meðeigandi að þeirri starfsemi sem þarna færi fram og tryggði þannig að arðurinn skilaði sér inn í efnahagslífið og til þjóðarinnar í gegnum hennar sameiginlega sjóð.

Það er nú mjög í tísku að stofna sjóði. Það er eins og stundum gleymist að landsmenn eiga saman einn ágætan sjóð og hann heitir ríkissjóður. Það er til dæmis verið að tala um að stofna einhvern auðlindasjóð og var það til umræðu hér úti í bænum í gær, sem á víst að segja því kominn er laugardagur, á iðnþingi. Framsóknarmenn hafa tekið miklu ástfóstri við þessa hugmynd að stofna auðlindasjóð og telja það vera að kanadískri fyrirmynd. Það kann svo sem að vera ágætishugmynd í sjálfu sér. En það er ástæðulaust að gleyma því að við eigum einn ágætan sjóð saman sem heitir ríkissjóður. Það er ósköp einföld (Gripið fram í.) leið ef menn vilja veita arð af einhverri starfsemi sem ríkið getur gert tilkall til vegna þess að um nýtingu á sameiginlegri auðlind sé að ræða að gera það í gegnum ríkissjóð, sjóðinn okkar allra. Hann má vel njóta þess.

Það er hægt að eyrnamerkja tekjur sem til hans berast á mismunandi hátt og binda þann tekjustofn tiltekinni ráðstöfun án þess að þurfa að stofna um það sérstakan sjóð. Þannig gæti það til dæmis verið í þessu tilviki að það væri ágætt að hugsa sér að mögulegur arður sem sprytti af vinnslu auðlinda á þessu sviði færi til sérstakra skilgreindra verkefna sem gætu verið til dæmis frekari rannsóknir og/eða stuðningur við uppbyggingu þekkingar og tækniþróun á þessu sviði o.s.frv.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta mál mikið með tilliti til aðstæðna hér, ágæti forseti, þótt margt mætti rabba um í þessu sambandi sem full ástæða væri til. Ég er sem sagt hallur undir þá skoðun sem sett er fram í áliti 2. minni hluta iðnaðarnefndar, að þetta frumvarp þurfi betri athugunar við og að ástæðulaust sé að flana neitt að þessum breytingum. Í sjálfu sér rekur ekkert þannig á eftir málinu vegna þess að augljóslega eru mánuðir og væntanlega ár til stefnu til þess að vanda þá breytingu á löggjöf sem þarf að vera klár þegar til stykkisins kemur eða kannski ef, er nú enn rétt að segja því auðvitað er enn ósýnt um hvort á það muni reyna að menn freisti gæfunnar í sambandi við olíu eða gasvinnslu við þær að mörgu leyti erfiðu aðstæður á þeim svæðum á milli Íslands og Jan Mayens sem líklegust eru í þessu sambandi að gefa eitthvað af sér.

Þó ber að hafa í huga, eins og áður sagði, að margt er að breytast í þessum efnum og þar á meðal og ekki síst það að eftirspurn eftir olíuvörum vex gríðarhratt í heiminum á sama tíma og vinnslan nær varla að fylgja eftir þeirri þróun. Nú er svo komið að menn finna minna af vinnanlegum olíuauðlindum á ári hverju heldur en sem nemur vextinum þannig að þeir eru beinlínis farnir að ganga á þekktan forða. Þá fer það væntanlega að gerast nokkuð hratt. Hvort olíuna þrýtur á 50, 100 eða 150 árum er erfitt að segja á þessu stigi málsins. En slík er stærðargráðan. Til eru þeir sem halda að ástandið sé í raun orðið miklu alvarlegra en menn hafa almennt áttað sig á meðal annars vegna þess að risinn sjálfur, Sádi-Arabía sé að kikna undan því að skaffa olíu í því magni inn á heimsmarkaðinn sem menn hafa gert þar undanfarna áratugi.

En það er nú önnur saga og ástæðulaust að fara út í þá sálma meir hér að þessu sinni. En ég hyggst sem sagt greiða atkvæði þeirri frávísunartillögu sem er í nefndaráliti 2. minni hluta með vísan til þess sem ég hef hér sagt að málið þurfi að skoðast betur.