133. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2007.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[02:14]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta er nánast sögulegt frumvarp eða öllu heldur sögulegar málalyktir sem hér eru að verða því nú er að ljúka meira en ársgamalli sögu sem hófst með því að frumvarp sem að stofni til mun hafa verið undirbúið og samið til þess að sameina Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnun sem unnið hafði verið um alllangt skeið og eftir því sem best er vitað allgóð sátt var orðin um, að þegar frumvarpið var í drögum fékk þáverandi hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og byggðamálaráðherra Valgerður Sverrisdóttir þá ágætu hugmynd, eða kannski slæmu hugmynd, að láta Byggðastofnun fá far með þessari sameiningu Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnunar. Þannig var nefnilega að málefni Byggðastofnunar voru og eru og hafa verið í hinni mestu útideyfu hjá ríkisstjórninni um langt árabil og verður að segjast eins og er að það er mikil sorgarsaga hvernig farið hefur verið með þá stofnun um alllangt árabil. Má segja að hún hafi aldrei almennilega borið sitt barr eftir að hún var flutt vistaskiptum frá forsætisráðuneytinu og undir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið og frá Sjálfstæðisflokknum og til Framsóknarflokksins.

Stofnunin var líka flutt norður á Sauðárkrók fyrir allmörgum árum og þó það kunni að hafa verið og sé að mörgu leyti góð hugmynd urðu ýmsir hlutir til þess að hún hefur átt erfitt uppdráttar. Þar urðu miklar deilur, væringar og mannaskipti og síðan hefur verið illa að henni búið hvað varðar rekstrarfé og möguleika til að sinna sínu hlutverki. Það var svo illa komið fyrir tæpu einu og hálfu ári eða fyrir 15–18 mánuðum að stofnunin sá sig knúna til þess að hætta lánastarfsemi einfaldlega vegna þess að fjárhagur hennar leyfði ekki lengur að hún lánaði út fé miðað við reglur um lágmarks eigið fé fjármálastofnana. Það tókst að vísu svo undarlega til að ráðherra skipaði stofnuninni engu að síður að halda áfram að lána þótt hún mætti ekki gera það samkvæmt reglum.

Svo kom þessi hugmynd um að hún fengi far á þessum vagni sameiningar Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnunar. Frumvarpið sem flutt var á síðasta þingi bar þess auðvitað augljós merki að þarna hafði verið klastrað saman í raun tveimur óskyldum þáttum. Annars vegar sameiningu þessara rannsókna- og þjónustustofnana sem eru, Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnunar, og hins vegar Byggðastofnunar og byggðamálunum sem slíkum. Þetta fór auðvitað illa, var hroðvirknislega og illa unnið og málið strandaði í fyrra eins og allir vita.

En ósköpin komu aftur fram og það er loksins núna undir lok þessa þings sem stjórnarliðið og meiri hlutinn viðurkenna þessa vitleysu upp á sig og draga allt saman til baka. Eftir stendur þá, ef breytingartillögur iðnaðarnefndar verða samþykktar, í grunninn upphaflega frumvarpið um sameiningu Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnunar. Það er ágæt hugmynd og ef góð samstaða er um það hjá viðkomandi aðilum er sjálfsagt að greiða götu þess. Vissulega má færa fyrir því rök að það sé ekki endilega sjálfgefið að þær stofnanir passi vel saman. Þó gera þær það að ýmsu leyti og hugmyndin hefur jafnframt verið að þær kunni að færa sig um set og flytja sig í nágrenni við háskólasamfélagið í miðbænum. Það kann einnig að verða starfseminni til styrktar.

Þá standa eftir málefni Byggðastofnunar. Þó hér sé vissulega farið fögrum orðum um það í nefndarálitinu að efla þurfi þá starfsemi og huga að henni þá örlar auðvitað hvergi á því enn þá. Núverandi ríkisstjórn er að ljúka sínum líftíma og hefur haft ærinn tíma til þess að reyna að gera eitthvað af viti í byggðamálum en verður varla úr þessu. Auðvitað skilur hún við málaflokkinn í uppnámi og hörmulega illa að því búið hvað varðar fjárhag og úrræði þeirra aðila sem eiga þarna að vera sinna verkum. Sú starfsemi er öll óskaplega veikburða, bæði Byggðastofnun að segja má, þó afkoman hafi heldur batnað eins og formaður iðnaðarnefndar er hér að upplýsa með frammíköllum. Svo má líka nefna hversu veikburða starfsemi atvinnuþróunarfélaganna er víða um landið og sár þörf er á því að efla þá starfsemi.

Fyrirvari minn lýtur sem sagt að tvennu: Annars vegar því, svo ég útskýri það í lok máls míns, að það eru vissulega uppi sjónarmið sem ekki eru öll einboðin hvað það varðar að sameina Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnun og þau þekkir maður. Þó miklu fremur að því að ég tel auðvitað að byggðamálin, Byggðastofnun og verkefni hennar og sá málaflokkur hafi stórskaðast af þessu hringli. Ábyrgðina af því verður auðvitað að senda beint þangað sem hún á heima og það er hjá ríkisstjórninni, hjá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherrum fyrrverandi og núverandi sem (Gripið fram í.) bera alla ábyrgð á því að nú er búið að fara næstum eitt og hálf ár í þetta rugl. Auðvitað hefur Byggðastofnun hangið í lausu lofti á meðan og enginn hefur vitað hvernig stjórnskipulag og fyrirkomulag þessara mála yrði. Það er stórkostlega ámælisvert að menn skuli hafa látið þennan málaflokk, ofan á allt sem á undan var gengið og varðar óvissu og deilur og það sem ég hef hér rakið, fjársvelti o.s.frv., að þá skuli Byggðastofnun hafa þurft að lenda í þeim hremmingum að þessi skyndihugmynd um að sulla henni í þetta samhengi, láta hana fá far með þessari sameiningu Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnunar skuli hafa kostað eitt og hálft ár í viðbót í hangandi óvissu um þessi mál. Auðvitað er ekki hátt á þessu risið. (Gripið fram í.) Ég veit að hv. þm. Hjálmar Árnason er mér algerlega sammála um að þetta er búið að vera til verulegs álitshnekkis fyrir þá sem hér bera pólitíska ábyrgð á að hafa haft þetta svona í útideyfu og hringli.

Fyrirvari minn lýtur því að því og auðvitað hefði verið æskilegt ef iðnaðarnefnd hefði haft til þess tíma og bolmagn (Gripið fram í: Og döngun.) og döngun í sér til þess já, þakka ábendinguna um heppilegt orð í þessu samhengi, að taka almennilega á málum Byggðastofnunar og setja hnefann í borðið og heimta að búið yrði miklu betur að henni þannig að hægt væri að setja einhvern kraft í þessa hluti. En það er búið með það og útséð um það að núverandi ríkisstjórn mun ekki gera það og það bíður nýrrar ríkisstjórnar og betri eins og mörg önnur brýn verkefni að taka til hendinni í þessum efnum.

Mín trú er sú að það muni vora vel í pólitíkinni á Íslandi og að við fáum kraftmikla ríkisstjórn (Gripið fram í.) sem m.a. og ekki síst setji stóraukinn kraft í það á nýjan leik að jafna aðstæður í byggðamálum og hefja nýtt uppbyggingarskeið á landsbyggðinni svipað og þegar voraði eftir kulda viðreisnarstjórnarinnar sálugu og allt fór á fulla ferð í landsbyggðinni í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar. Eins og menn muna var síðasta virkilega jákvæða tímabilið í uppbyggingu og þróun á landsbyggðinni áttundi áratugurinn þegar menn nutu góðs af þeim fjölþættu ráðstöfunum sem vinstri stjórnin sem sat að völdum frá 1971–1974 setti í gang. Við verðum því væntanlega að sætta okkur við það að þetta verkefni bíði nýrrar ríkisstjórnar alfarið og illa skilur ríkisstjórnin við að þessu leyti. Það verður að segjast.