133. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2007.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[02:22]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég skrifaði ekki undir þetta með fyrirvara einfaldlega vegna þess að við vorum búin að ræða þetta mál í iðnaðarnefnd bæði í fyrravetur og aftur í vetur og allan tímann héldum við því fram, samfylkingarfólkið, að þetta væri röng leið sem lagt var til í frumvörpunum, þ.e. að sameina þessar þrjár stofnanir, Iðntæknistofun, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Byggðastofnun. Nú hefur það orðið niðurstaðan að gera það ekki heldur fara þá leið sem iðnaðarnefnd leggur núna til, þ.e. að þær tvær stofnanir sem upphaflega hafði verið unnið að að sameina yrðu sameinaðar, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnun.

Að setja Byggðastofnun í þetta var auðvitað, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði, afskaplega umdeilanlegt og var auðvitað, hvað eigum við að segja, endipunktur á endalausum vandræðagangi og aðför að Byggðastofnun í gegnum tíðina. Það er óskapleg hörmungarsaga sem ég ætla ekki að fara yfir hér að næturlagi en er auðvitað ástæða til að rifja upp oft og mörgum sinnum svo menn læri það.

Ég ætla hins vegar að minna á að það hafa ekki allir verið sammála um þessa vegferð. Þegar fjallað var um byggðaáætlun á síðasta þingi varð um það samstaða að styrkja Byggðastofnun og fela henni aukið vægi hvað varðar framgang byggðaáætlunar og líka gefa um leið fjárlaganefnd Alþingis möguleika til þess að standa við bakið á Byggðastofnun og þeim málum sem þurfa á fjármunum að halda vegna byggðamála. Ég hef því þá trú að nú muni Byggðastofnun aftur rísa upp til þess að verða það verkfæri sem hún á að vera til þess að vinna að byggðamálum. Ef Íslendingar ætla á annað borð að sinna byggðaþróun og byggðamálum þarf auðvitað til þess verkfæri og Byggðastofnun átti að vera til þess. En sú ríkisstjórn sem hefur setið á undanförnum árum hefur helst viljað nota öll önnur verkfæri til þess að vinna að byggðamálum en Byggðastofnun og verið í því að hluta hana niður, flytja hingað og þangað og finna upp verkefni í byggðamálum sem Byggðastofnun hefur alls ekki átt að koma nálægt. Um það eru mörg dæmi og það er með eindæmum hvernig unnið hefur verið að þessum málum í gegnum tíðina.

Ég lít þannig á að þessi vegferð sem núna endar með þessari niðurstöðu iðnaðarnefndar sé til marks um það að menn ætli nú að snúa af þessari braut og nota Byggðastofnun til þess sem henni er ætlað. Ég trúi því að sú ríkisstjórn sem sest að völdum eftir næstu kosningar muni nota Byggðastofnun til þess að vinna að byggðamálum, byggðaáætlunina til að skerpa áherslurnar til að vinna að byggðamálunum og að hún muni veita fjármuni til þess að standa við bakið á hinum veiku byggðum landsins þannig að Byggðastofnun fái bæði hlutverk og möguleika til þess að sinna því.

Ég ætla ekki að hafa mörg um þessi mál en ég fagna þessari niðurstöðu vegna þess að það er full ástæða til þess þegar menn snúa af röngum brautum að hæla þeim þó fyrir það að viðurkenna að þeir hafi verið í ófæru og vitleysu og að þeir hafi viðurkennt að ástæða væri til að snúa af brautinni. Það er gert með þeirri niðurstöðu sem varð í iðnaðarnefnd og ég tel ástæðu til þess að koma hér og fagna henni.