133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

opinber innkaup.

277. mál
[10:06]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Í þessu lagafrumvarpi eru skilgreindar reglur um útboð á vegum ríkisins og ríkisstofnana. Við þetta frumvarp er sitthvað að athuga. Það er prýðilega smíðað í tæknilegu tilliti en hin pólitíska forskrift var slæm að því leyti að ekki var tekið nægilegt tillit til umhverfisþátta og félagslegra sjónarmiða. Öllu heldur mætti segja að ekki er gert skylt að taka tillit til þessara þátta við útboð á vegum ríkisins.

Í 1. gr. þessa frumvarps er tilgangurinn skýrður. Þar segir, með leyfi forseta:

„Tilgangur laga þessara er að tryggja jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu.“

Allt er þetta ágætt. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum bæta við 1. gr. eftirfarandi, þannig að á eftir virkri samkeppni komi, með leyfi forseta:

„… efla umhverfisnefnd og félagslegar og siðrænar áherslur við opinber innkaup með sjálfbæra þróun í huga.“

Þessi hugsun á að vera samþætt öllum greinum frumvarpsins í samræmi við kröfur sem fram hafa verið settar af hálfu verkalýðshreyfingarinnar í Evrópu. Þær eru í samræmi við kröfur sem settar hafa verið fram af hálfu umhverfissamtaka og af hálfu annarra almannasamtaka, t.d. samtaka fatlaðra o.s.frv. Ég vísa þar í evrópsk samtök sem Öryrkjabandalag Íslands á aðild að.

Það er annað sem er gagnrýnivert í þessu frumvarpi. T.d. má deila um það hvort viðmiðunarupphæðir séu ekki of lágar. Þær eru 5 millj. kr. Séu vöruinnkaup yfir 5 millj. kr. skulu þær fara í útboð og verkleg þjónusta sem fer yfir 10 millj. kr. skal fara í útboð. Þetta eru þrengri skilyrði en almennt tíðkast í Evrópusambandsríkjunum. Við skulum hafa í huga að útboð geta verið mjög kostnaðarsöm.

Þá vil ég vekja athygli á 21. gr. frumvarpsins. Þar er ráðherra veitt reglugerðarheimild til að skipa ríkisstofnunum að fara með alla sína þjónustu í útboð. Það er einnig mjög varhugavert.