133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

bókmenntasjóður.

513. mál
[10:38]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mál það sem við ræðum er sett fram af hæstv. menntamálaráðherra að því er segir í markmiðsgrein frumvarpsins til „að efla íslenskar bókmenntir og bókaútgáfu og búa íslenskri bókmenningu hagstæð skilyrði.“ Ekki skal ég andmæla því markmiði og lýsi auðvitað yfir stuðningi við þau sjónarmið sem liggja þarna að baki. Á hitt skal benda að ríkisstjórninni hefur gengið það heldur brösuglega að fylgja eftir markmiðum af þessu tagi þegar um er að ræða stuðning við menningu og listir.

Þannig hefur það verið reynt á löggjafarsamkundunni að útbúa svipað fyrirkomulag og þegar styrkveitingar til tónlistar eru annars vegar þar sem við fyrir röskum tveimur árum settum lög um tónlistarsjóð og settum honum yfirstjórn og markmiðið var einmitt þetta, að efla íslenska tónlist og tónlistarsköpun og koma styrkveitingum frá hinu opinbera og ríkissjóði til tónlistarmála í einfaldan og skýran farveg. Það eru að hluta til markmið þessa frumvarps líka hvað varðar bókmenntirnar.

Hins vegar hefur ekki tekist nægilega vel til að mínu mati með tónlistarsjóðinn vegna þess að fjárlaganefnd hefur ekki getað á sér setið og heldur áfram að úthluta ómarkvisst og án nokkurra úthlutunarreglna eða auglýsinga styrkjum til tónlistarmála sem hefur orðið til þess að nú er orðinn til við hliðina á tónlistarsjóðnum, sem átti að taka til sín alla þessa ómarkvissu úthlutun og setja undir einn hatt, annar sjóður sem fjárlaganefnd úthlutar úr án auglýsinga og án nokkurra úthlutunarreglna. Auðvitað er sú hætta til staðar einnig hér. Það er ekki nægilega vel að verki staðið í þessum efnum og vilji Alþingis þarf þá að koma í ljós og vera skýrður fyrir þingmönnum ekki síst þeim sem starfa í fjárlaganefnd sem þurfa að taka mið af þeirri stefnumörkun sem hér er sett.

Í annan stað vil ég segja að ef við ætlum að efla stórlega íslenskar bókmenntir og bókaútgáfu og búa bókmenningu í landinu hagstæð skilyrði þurfum við einnig að skoða þá fjármuni sem til þessara mála renna. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að það fé sem varið hefur verið samkvæmt fjárlögum til bókmennta úr nokkrum sjóðum á vegum menntamálaráðuneytisins renni í Bókmenntasjóð. Í fjárlögum 2007 er gert ráð fyrir 37,3 millj. kr. í framlag í bókmenntasjóðinn og sú upphæð kemur í stað 13 millj. kr. framlags sem veitt var til Menningarsjóðs, 12,5 millj. kr. sem var veitt til þýðingarsjóðs, 10 millj. kr. til Bókmenntakynningarsjóðs og 2,6 millj. kr. til ýmissa framlaga menntamálaráðuneytisins. Það er svo hlálegt að þegar lagðar eru saman þessar tölur og þær bornar saman við 37,3 milljónirnar sem bókmenntasjóðurinn á að fá fyrsta árið, þá skortir 800 þús. kr. upp á að framlagið sé jafnhátt í krónum talið sem ætlað er til hins nýja bókmenntasjóðs og þess sem ætlað var til hinna sjóðanna sérgreindu. Við spurðum um þetta á fundi menntamálanefndar hverju sætti og svarið var það að hagræðingarkrafa væri gerð. Það er því byrjað brösuglega. Menn falla í fyrsta spori, að mínu mati, þegar yfirlýsingin og markmiðið um eflingu bókmenntanna og aukna vegferð þeirra í þessu tilliti er í raun sniðgengið strax í fjárlögum ársins 2007. Ég segi því: Er það nema von að maður hafi hér nokkra vantrú, en ég sé þó ekki ástæðu til að vera andvíg frumvarpinu því í sjálfu sér er ég mjög fylgjandi því að fjárveitingar af þessu tagi séu veittar í einfaldan og gagnsæjan farveg. Mér finnst skipta verulegu máli að úthlutanir til list- og menningarstarfsemi séu auglýstar og um þær farið eftir ákveðnum reglum. Fram fari faglegt jafningjamat við borð sjóðstjórna og ég geri ráð fyrir að við séum í sjálfu sér að feta inn á þá braut en þá þurfum við, sem á löggjafarsamkomunni störfum, að viðurkenna þá stefnumörkun og beygja okkur undir hana og lýsa yfir stuðningi við hana, ekki síst í verki og vinnubrögðum.

Varðandi það sem kemur fram í nefndarálitinu um breytingu á úthlutunarnefndinni þar sem gert er ráð fyrir að fjölgað verði um tvo í því skyni að Myndstef, Myndhöfundasjóður Íslands, eignist þar fulltrúa, þá lagði ég mikla áherslu á það í nefndinni að svo yrði, því mér fannst afar snautlegt eins og gert var ráð fyrir í upphaflegum frumvarpstexta, að Myndstef skyldi ekki eiga aðild að þeirri úthlutunarnefnd þar sem Myndstef hefur átt fulltrúa í stjórn Bókasafnssjóðsins hingað til.

Myndstef sendi okkur umsögn um málið og vakti athygli okkar á því að hér væri kannski verið að fara á svig við góða vinnuvenju. Myndstef vakti athygli okkar á því að lögin um Bókasafnssjóð höfunda fjölluðu um greiðslur til höfunda vegna útlána á verkum þeirra á bókasöfnum. Þar væri um að ræða rithöfunda fræðibókahöfunda og þá myndhöfunda sem eiga myndir í verkum sem eru til útlána í íslenskum söfnum. Þar væri um að ræða í sjálfu sér greiðslur sem væru hugsaðar sem bætur vegna afnota almennings af þessum verkum, sem sagt afnotagjöld frekar en nokkur höfundagjöld og þeim greiðslum væri síðan skipt á milli höfunda eftir ákveðnum reglum. Í sjóðsskipaninni, eins og hún hefur verið hingað til, er verið að tryggja að allir þeir höfundar sem eiga vernduð verk í bókum, sem eru til útlána í bókasöfnum, hafi fulltrúa í stjórn sjóðsins. Ég tek undir rök Myndstefs í þessum efnum og er ánægð með það að menntamálanefnd skuli hafa gert það sömuleiðis og gert þá bragarbót sem getið er um í breytingartillögu á þingskjali 1238.

Um þá grein frumvarpsins sem fjallar um afnotagreiðslur á bókasöfnum og þá ákvörðun eða kannski þann misskilning sem virðist hafa verið hér til staðar við 1. umr. málsins og þegar málið kom til nefndar varðandi rétt höfunda sem búsettir væru í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins, rétt þeirra til greiðslna vegna notkunar bóka þeirra í bókasöfnum sem rekin eru á kostnað ríkisins, þá vil ég segja þetta: Ég lít svo á að með breytingartillögunni við 2. mgr. 4. gr. hafi verið komið til móts við þau sjónarmið sem okkur voru kunngjörð í nefndinni og lít svo á að hér hafi verið gerð sú bragarbót sem nauðsynleg er. Hins vegar vegna hins knappa tíma sem gefinn er til að ræða málið þá held ég að eðlilegt sé að við hlustum á sjónarmið þeirra sem höfðu athugasemdir við þetta mál. Þar nefni ég kannski fyrst og fremst Rithöfundasamband Íslands og er eðlilegt að við hlustum á það. Þegar þessi þingskjöl eru komin á vef Alþingis áttar fólk sig þá á því sem verið er að gera hér, þeirri breytingu sem lögð er til varðandi 4. gr. Við hlýddum á sjónarmið sem þeir sem best þekkja til hafa fram að færa í þessum efnum. En að því gefnu að hér sé um breytingu að ræða sem kemur til móts við sjónarmið Rithöfundasambands Íslands og annarra þeirra sem gerðu athugasemdir við upphaflegu 4. gr. sé ég ekki ástæðu til annars en að styðja þetta frumvarp í trausti þess að það verði á endanum til þess að bókmenntir og bókaútgáfa í landinu fái aukinn byr undir vængina og að henni verði þannig búið að segja megi að hún búi við hagstæð skilyrði, eins og markmiðssetning 1. gr. segir.