133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

námsgögn.

511. mál
[11:58]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um námsgögn. Ég tók þannig til orða við 1. umr. málsins að ég hefði ákveðnar efasemdir um það. Sjónarmið mín eru fyrst og fremst þau að Námsgagnastofnun, sú stofnun sem hefur verið svelt fjárhagslega árum saman, fái nú loks ákveðna úrlausn sinna mála, þ.e. námsefnisgerðin sjálf fái úrlausn í því rausnarlega aukna framlagi sem hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja í námsgagnagerðina, en þá mega þeir fjármunir ekki fara beint til hinnar sveltu stofnunar, Námsgagnastofnunar, heldur fara þeir í sjóði þaðan sem verður útdeilt með ákveðnum hætti, sem ég í sjálfu sér set mig ekki upp á móti, en mér finnst ákveðin hætta fólgin í þessu og ákveðin yfirlýsing í þessu af hálfu hæstv. menntamálaráðherra að Námsgagnastofnun fær ekki kannski þá umbun eða þá viðurkenningu fyrir biðlundina sem hún þó hefur sýnt, biðlundina eftir því að greitt sé úr og leyst úr þessum málum og námsgögn fái þann sess í fjárlögum íslensku ríkisstjórnarinnar og íslenska ríkisins sem eðlilegt getur talist.

Ég vil segja það hér, virðulegi forseti, að ég vona sannarlega að þessi ráðstöfun verði til góðs og komi til með að þjóna markmiði sínu og Námsgagnastofnun verði ekki að engu á fyrsta degi eftir þessa breytingu. Ég held að það sé afar mikilvægt að við séum á varðbergi gagnvart þeirri tilhneigingu sem er í öllu kerfinu núna til einkavæðingar allra þátta og þetta er auðvitað liður í þeirri breytingu og er tímanna tákn. Efasemdir Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru því mjög klárar og ljósar og þær eru á þessum grunni reistar. Ég hef ekki áhyggjur af því sem ráðuneytisstjóri menntamálaráðuneytisins kallaði þegar hann kom fyrir nefndina, þ.e. miðstýrt ráðstjórnarlegt kerfi, sem hefur verið við lýði í námsgagnagerð upp á síðkastið. Námsgagnastofnun hefur boðið út verkefni, hefur átt samstarf við einkaaðila á sviði námsgagnagerðar og hefur keypt námsefni víða að. Það sem hefur hins vegar verið til staðar hjá Námsgagnastofnun er ákveðið gæðamat og gæðaeftirlit sem eðli málsins samkvæmt þeir sem um þessi mál véla og hafa á þeim áhuga hafa áhyggjur af núna í þessum breytingum. Þar á meðal er Kennarasamband Íslands en sambandið segir í umsögn til menntamálanefndar um málið — um leið og það ítrekar sjónarmið sitt að í stjórn Námsgagnastofnunar sé „rétt að sitji einn fulltrúi háskóla sem veitir kennaramenntun, tilnefndur sameiginlega af viðkomandi háskólum“ — hvað varðar gæðamat og gæðaeftirlit að ekki sé ljóst af lestri 6. gr. eða í greinargerðinni um hana hvernig tryggja eigi að við úthlutun fjármuna samkvæmt úthlutunarreglum verði gæði þeirra námsgagna sem keypt verða fyrir hið úthlutaða fé í hávegum höfð og nægilega mikil til þess að sómi verði að. Kennarasambandið vitnar til greinargerðar með frumvarpinu en í greinargerð á bls. 14 stendur, með leyfi forseta:

„Þá er lagt til að menntamálaráðherra setji sjóðnum úthlutunarreglur. Gert er ráð fyrir að í þeim yrði m.a. kveðið á um skilyrði fyrir ráðstöfun fjárveitinga úr sjóðnum, þ.e. að slík ráðstöfun yrði einskorðuð við kaup á námsgögnum sem teljast uppfylla réttmætar gæðakröfur og samrýmast markmiðum aðalnámskrár.“

Þá segir Kennarasambandið í tengslum við þetta að það hljóti að þurfa að verða skýrt á hvern hátt þetta gæðamat fari fram og það fái í raun ekki staðist, ef marka má orðanna hljóðan í 6. gr., að það sé í raun eitthvert mark takandi á því sem stendur í greinargerðinni. Enn fremur segir, með leyfi forseta:

„Kennarasambandið telur brýnt að skýrt verði hvort þetta fái staðist þar sem ætla má að fyrst verði úthlutað fé og síðan keypt fyrir það efni eða með öðrum orðum hvort og hvernig umræddu gæðamati eða eftirliti verði komið fyrir á þessu stigi málsins.“

Ég vil geta þess að við spurðum um þetta í viðræðum við ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins og hann viðurkenndi að ákveðin mistök hefðu orðið við prentun greinargerðarinnar þar sem á ákveðnu stigi við samningu frumvarpsins hefði hugmyndin verið sú að fara þá leið sem segir eða má skilja í greinargerð um 6. gr. en í raun og veru hafi lendingin á endanum orðið önnur. Ráðuneytisstjórinn viðurkennir því að greinargerðin sé ekki í samræmi við 6. gr. heldur endurspegli hún einhvern ákveðinn fasa í umræðu nefndarinnar en hafi ekki verið í samræmi við endanlegar niðurstöður hennar. Endanleg niðurstaða er í rauninni það sem speglast í 6. gr., nefnilega það að gæðamatið fari fram eftir á. Það er sjónarmið ráðherrans og ráðuneytisins að gæðaeftirlitið, sem nú fer fram hjá Námsgagnastofnun, verði fært til og fari í sjálfu sér til foreldra og kennara og þeir muni í sjálfu sér verða hinir endanlegu eiginlegu eftirlitsgjafar þegar þessar breytingar hafa gengið eftir.

Ég er svo sem þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að setja í lagatexta endanlegar reglur um gæðamatið en ég geri mér grein fyrir að kennarar hafa afar mikið um það að segja á hvern hátt það eftirlit fer fram sem nauðsynlegt er að eigi sér stað.

Um hinar fámennari greinar vil ég einungis taka undir það sem kemur fram í umsögn Félags íslenskra framhaldsskóla til nefndarinnar. Þar óttast félagið að með tilkomu þróunarsjóðs námsgagna, sem er sameiginlegur fyrir leik- og grunnskóla á framhaldsskólastigi, verði hlutur smærri greina afskiptur og hlutur iðn- og starfsmenntunar verði þar rýr. Í nefndarálitinu, sem við stöndum sameiginlega að, er þessa getið og látin í ljósi sú ósk að tekið verði tillit til hinna fámennari greina og nauðsynlegt sé að standa vörð um að þær fái sinn sess í kerfinu og það sé ekki meiningin nema síður sé að rýra eitthvað hlut þeirra.

Ég tel að niðurstaða nefndarinnar sé ásættanleg, breytingartillagan sem lögð er til sé af hinu góða og auðvitað fagna ég þeim yfirlýsingum sem komið hafa frá hæstv. menntamálaráðherra um fjármögnun þessara sjóða beggja, að þróunarsjóðurinn verði ekki tómur heldur eigi að setja í hann fjármuni því það er auðvitað grundvallarskilyrðið fyrir því að hér sé vel að verki staðið. Við skulum vona að þetta sé djúpur vilji Sjálfstæðisflokksins að svona sé að málum staðið þó svo að hv. þingmenn hafi svo sem haft ansi langan tíma til að leiðrétta mál af þessu tagi, þá er það kannski ekki of seint núna. Það er alla vega verið að gera það með myndarlegum hætti og ég lýsi eingöngu stuðningi við þá aðgerð sem hér er í farvatninu.