133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[12:24]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða breytingu á lögum um málefni aldraðra og eins og kom fram þegar mælt var fyrir nefndarálitinu skrifum við hv. þingmenn Samfylkingarinnar í heilbrigðisnefnd undir þetta mál án fyrirvara. Hér er verið að einfalda og breyta framkvæmd vistunarmats. Aftur á móti væri full ástæða til að ræða ítarlega um lögin um málefni aldraðra því að núna í lok þingsins er verið að breyta þessum lögum á tveimur stöðum án þess að þau séu skoðuð í heild. Það var búið að lofa samtökum aldraðra heildarendurskoðun og kalla átti saman nefnd strax í haust til þess. Það er ekki enn búið að því. (GÓJ: Það er búið núna.) Það er búið núna, segir formaður nefndarinnar, en það hefur þá bara gerst núna á síðustu dögum.

Síðan eru atriði sem hefði þurft að taka á eins og að færa verkefni til sveitarfélaganna og loks málefni Framkvæmdasjóðs aldraðra. Þegar við afgreiddum þetta mál út úr nefndinni hafði mér ekki borist svar um greiðslur úr framkvæmdasjóðnum sem mér barst núna í vikunni. Ég verða að benda — er hæstv. heilbrigðisráðherra ekki stödd hér húsinu?

(Forseti (JónK): Hæstv. heilbrigðisráðherra mun ekki vera í húsinu.)

Þá verð ég að eiga orðastað við formann nefndarinnar um þessi mál en það kom í ljós eftir að við höfum afgreitt málið úr nefndinni að greiðslur fyrir framkvæmd vistunarmats eru ekki eins og segir í fylgiskjali frá fjármálaráðuneytinu en þar segir að nú sé það þannig að vistunarmatið og framkvæmd þess sé kostað af sveitarfélögunum en við þessa breytingu verði þetta greitt úr ríkissjóði og muni verða ódýrara en áður.

Aftur á móti þegar ég fór að skoða svar sem ég fékk í vikunni um hvaða styrkir hefðu verið greiddir úr Framkvæmdasjóði aldraðra á vegum ráðuneytisins kemur í ljós að landlæknisembættið fékk á síðasta ári, 2006, tvo styrki og þar stendur: Landlæknisembættið, framkvæmdir á vistunarmati. Það fara 4 millj. kr. úr Framkvæmdasjóði aldraðra til landlæknisembættisins til að framkvæma vistunarmatið. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarpið og þessa breytingu segir að sveitarfélögin greiði þetta mat en að eftir að þessi lagabreyting verður gengin í gegn á þinginu muni ríkissjóður annast það. Það er hvergi talað um það að Framkvæmdasjóður aldraðra hafi verið að greiða fyrir vistunarmat. Ég hafði ekki hugmynd um það og það kom ekki fram í nefndinni þegar við ræddum þetta mál. Ég hafði ekki hugmynd um það fyrr en ég fór að lesa þetta svar sem mér var að berast frá hæstv. ráðherra um alla þá fjölmörgu styrki sem hafa komið úr framkvæmdasjóðnum.

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að fram komi skýring á þessu máli áður en við ljúkum umræðu um þetta þingmál. Þarna er verulegt misræmi á ferðinni sem þarfnast skýringa. Ég óska eftir því áður en þessari umræðu lýkur að skýringar komi á því hvernig á því standi að í umsögn fjármálaráðuneytisins sé talað um að sveitarfélögin greiði vistunarmatið. Í svari frá ráðherra um styrki úr Framkvæmdasjóði aldraðra kemur fram að framkvæmd á vistunarmatinu sé greidd þaðan með styrk til landlæknisembættisins upp á 4 millj. kr., og síðan að það muni greitt úr ríkissjóði framvegis. Þetta þarfnast skýringa og ég fer fram á að fá þær áður en þessari umræðu lýkur.

Eins og ég sagði áðan erum við þingmenn Samfylkingarinnar sammála þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu. Það er verið að einfalda framkvæmd á vistunarmatinu, verið er að færa það úr 43 nefndum, eða 45 held ég þegar allt tínist til, á mun færri hendur sem mun auðvitað auka samræmið hvað þetta varðar.