133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[12:44]
Hlusta

Frsm. heilbr.- og trn. (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndarálitum á þskj. 1117 um frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu, á þskj. 1128 um frumvarp til laga um embætti landlæknis og á þskj. 1109 um frumvarp til laga um Heyrnar- og talmeinastöð.

Þingskjal 1117 er nefndarálit um frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu, eins og ég gat um áðan. Þetta er allítarlegt og mikið mál sem hefur fengið mjög vandaðan undirbúning, fyrst af hálfu stjórnskipaðrar nefndar hæstv. heilbrigðisráðherra sem var skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka og auk þess fulltrúum ýmissa hagsmunaaðila og skilaði líklega ein 15 manna nefnd sameiginlegri niðurstöðu og tillögu að frumvarpi. Áður höfðu þeirri nefnd borist ríflega 100 umsagnir um tillögur sínar sem aftur leiddu til þess að gerðar voru nokkrar lagfæringar á málinu áður en það kom til þingsins.

Hæstv. forseti. Heilbrigðisnefnd hefur farið mjög ítarlega og vel ofan í málið og fengið til sín fjölda gesta eins og sjá má á nefndarálitinu á þskj. 1117 og sömuleiðis komu til nefndar fjölmargar umsagnir eins og þar er nánar rakið og ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að fjalla um frekar.

Góð samstaða myndaðist í málinu og við í heilbrigðisnefnd lögðum áherslu á að ná sátt um þau atriði sem enn var nokkur ágreiningur um. Hann varð einkum við lækna en ágætissátt náðist í þeim efnum, m.a. með því að hnykkja á faglegri ábyrgð lækna í frumvarpinu.

Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til, hæstv. forseti, að rekja nefndarálitið frekar. Nefndin leggur til allmargar breytingar sem voru m.a. til að mæta sjónarmiðum sem fram komu á fundi nefndarinnar, bæði frá einstökum nefndarmönnum og ekki síður frá gestum nefndarinnar. Á þskj. 1118 er að finna breytingartillögu frá nefndinni. Ég vil í því sambandi einkum benda á 5. tölulið sem fjallar um fagstjórnendur og nýtt orðalag á 10. gr. Sömuleiðis 13. gr. varðandi fagráð og loks vil ég vekja athygli á 26. gr., 16. tölul., en lagt er til að ný grein komi á eftir 26. gr. frumvarpsins, um skráningu óvæntra atvika. Ég vil jafnframt vekja athygli á d-lið 12. gr. þar sem fjallað er um nýtt orðalag að því er varðar ráðgjafarnefnd Landspítala.

Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að fjalla frekar um þetta mál en tengt því eru hin tvö málin sem eru til umfjöllunar, þ.e. annars vegar nefndarálit um frumvarp til laga um embætti landlæknis, sem er á þskj. 1128 og er samþykkt af öllum nefndarmönnum í heilbrigðis- og trygginganefnd en nefndin leggur til nokkrar breytingartillögur sem er að finna á þskj. 1134. Hins vegar er á þskj. 1109 að finna nefndarálit um frumvarp til laga um Heyrnar- og talmeinastöð og leggur nefndin til að það frumvarp verði samþykkt með minni háttar breytingum eins og fram kemur á þskj. 1109.

Ég vil geta þess að undir nefndarálit á þskj. 1117, um frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu, skrifa auk mín hv. þingmenn Ásta Möller, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, með fyrirvara, Guðrún Ögmundsdóttir, með fyrirvara, Pétur H. Blöndal, Kristján L. Möller, með fyrirvara, Drífa Hjartardóttir og Sæunn Stefánsdóttir. Þuríður Backman var fjarverandi við afgreiðslu málsins eins og fram kemur í nefndarálitinu.

Að nefndaráliti á þskj. 1128, um frumvarp til laga um embætti landlæknis, standa auk mín hv. þingmenn Drífa Hjartardóttir, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Pétur H. Blöndal, Kristján L. Möller, Gunnar Örlygsson og Sæunn Stefánsdóttir. Hv. þm. Þuríður Backman var fjarverandi við afgreiðslu málsins en hv. þm. Valdimar L. Friðriksson sem sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi er samþykkur álitinu.

Að nefndaráliti á þskj. 1109 standa auk mín hv. þingmenn Ásta Möller, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Pétur H. Blöndal, Kristján L. Möller, Drífa Hjartardóttir og Sæunn Stefánsdóttir. Hv. þm. Valdimar L. Friðriksson sat fundi nefndarinnar um þau mál sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti nefndarinnar. Hv. þm. Þuríður Backman var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að hafa þetta mikið lengra, hæstv. forseti. Ég tel að hér sé um mjög stórt mál að ræða og er sérstaklega ánægður með að heilbrigðis- og trygginganefnd hafi náð að afgreiða þessi þrjú mál. Ég vil nota tækifærið sérstaklega til að þakka samstarfsmönnum mínum í nefndinni, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu sem komu með fjölmargar ábendingar og ég tel að þessi mál eins og þau liggja fyrir nefndinni séu afrakstur af mjög góðri samvinnu allra nefndarmanna. Ég er mjög þakklátur fyrir það hversu vel tókst í þeim efnum og tel að allir geti vel við unað, enda er mikil samstaða um þessi mál í nefndinni.