133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[13:30]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu og þau tvö mál sem þeim lagabálki fylgir, þ.e. frumvarp til laga um Heyrnar- og talmeinastöðina og frumvarp til laga um embætti landlæknis. Ástæðan fyrir því að frumvörpin fara saman er sú að í núgildandi lögum um heilbrigðisþjónustu eru ákvæði bæði um Heyrnar- og talmeinastöðina og eins um landlækni. Með þeim breytingum sem nú er verið að gera þykir eðlilegt að hafa sérstakt frumvarp um landlæknisembættið og taka Heyrnar- og talmeinastöðina út úr lögunum og hafa um þá starfsemi sérstök lög.

Hvað varðar landlæknisembættið vil ég segja það að ef af afgreiðslu málsins verður, frumvarpi til laga um heilbrigðisþjónustu, sem ég veit að er vilji fyrir á þinginu, þá mun hlutverk landlæknisembættisins aukast til muna frá því sem nú er. Embættið fær fleiri verkefni, úttektaraðili verður á öllum umsögnum um starfsemi bæði nýrra heilbrigðisstofnana og eins þeirra sem vilja endurnýja rekstrarsamning sinn. Þetta er og verður að öllum líkindum töluvert starf hjá embættinu fyrir utan það að gerðar eru meiri kröfur til faglegs eftirlits og ný verkefni bætast við landlæknisembættið.

Ég tel að til þess að geta sinnt þessum nýju vekefnum eins og lögin gera ráð fyrir þurfi í fyrsta lagi að fjölga starfsmönnum hjá embættinu og m.a. að hafa þar starfandi lögfræðing sem tekur á þeim málum sem eins er víst að verður vísað til embættisins og það þarf að fást við, laga sem snúa að lagatæknilegum úrlausnarefnum. Eins er verið að efla neytendavernd, réttindi sjúklinga. Landlæknisembættið hefur umsjón með kvörtunarmálum og utanumhald á ýmsum skrám, svo sem sjúkraskrám og nú nýrri skrá um óhöpp í heilbrigðisþjónustunni þannig að eftirlitshlutverk landlæknisembættisins er mikið. Ráðgefandi hlutverk landlæknisembættisins verður jafnvel enn meira við gildistöku nýrra laga því það verður á verksviði landlæknis að móta leiðbeiningar um faglegt starf heilbrigðisstarfseminnar, stofnana og eins varðandi faglegar kröfur sem gera á til heilbrigðisstarfsmanna. Hann á að gefa út leiðbeinandi reglur um hvaða kröfur þurfi að uppfylla til þess að geta rekið heilbrigðisþjónustu hvort sem hún er á vegum ríkisins, sveitarfélaga eða einkaaðila og hvaða skilyrði sú starfsemi þarf að uppfylla. Svo á hann að hafa eftirlit með þessari þjónustu allri þannig að þetta ætti að vera umtalsverð styrking á því embætti.

Ég fagna því að allt sem er í heilbrigðisþjónustunni sé styrkt og því hvet ég næstkomandi og næstverðandi ríkisstjórn, hver sem hún verður, skora á hana að gæta vel að því að landlæknisembættinu verði vel sinnt, sem sagt í fyrstu skrefunum og það hafi mannskap til að sinna þessum mikilvægu verkefnum.

Eins er með Heyrnar- og talmeinastöðina. Ég fagna því að henni skuli enn vera fundinn staður með sérstakri löggjöf og gætt sé að því að hún sé enn þá rekin af fjárlögum því ákveðnir hópar, sérstaklega börn og unglingar, þurfa mjög mikla og sérstaka þjónustu sem væri ábyrgðarleysi að vísa yfir á frjálsan markað. Þetta er þjónusta sem getur og á að vera neytendum gjaldfrjáls eða gjaldlítil þannig að ég fagna því að Heyrnar- og talmeinastöðin skuli hafa fengið að vera því það er alveg ljóst að það eru líka uppi mjög sterkar og ákveðnar raddir um það að leggja hana niður í núverandi mynd og koma allri þjónustunni yfir í einkarekstur eins og er einnig starfandi. Ég tel að sú þjónusta sem er á hinum frjálsa markaði og eins Heyrnar- og talmeinastöðin styrki hvor aðra.

Síðan ætla ég ekki að hafa þessi orð fleiri um þessi tvö frumvörp þó ég telji að frumvarp til laga um embætti landlæknis hefði átt skilið góðan tíma og góða yfirferð í 2. umr. um þetta mikilvæga frumvarp og mikilvæga embætti. Þar sem þetta er síðasti dagur þingsins er okkur settur mjög þröngur tímarammi til að fara yfir mál sama af hvaða toga þau eru.

Ég vil, hæstv. forseti, fá að segja það að ég tek undir orð formanns heilbrigðis- og trygginganefndar hvað varðar undirbúninginn að frumvarpinu til laga um heilbrigðisþjónustu. Það er búinn að vera góður aðdragandi. Undirbúningsnefndin vann í um tvö og hálft ár og margir komu þar að. Þetta var fjölmenn nefnd. Þar áttu hinir pólitísku flokkar allir sinn fulltrúa og margir voru kallaðir til. Þau drög sem nefndin skilaði af sér voru send út til umsagnar. Töluverðar breytingar voru gerðar á drögunum áður en niðurstaðan birtist í frumvarpsformi. Þetta tel ég allt af hinu góða. Vinnunni var ekki hætt fyrr en samkomulag náðist um niðurstöðuna og það er mjög eðlilegt að það hafi ekki allir verið sáttir, haft aðra sýn á löggjöfina en fram kemur í frumvarpinu. Því tel ég það miður, hæstv. forseti, að málið skyldi hafa verið tekið út þann dag sem ég var forfölluð. Ég sat fund á vegum þingsins í Helsinki þennan dag og var því löglega forfölluð en það þýðir að ég og Vinstri hreyfingin – grænt framboð getum ekki skilað nefndaráliti með frumvarpinu og þar af leiðandi ekki skýrt álit okkar á frumvarpinu og höfum ekki möguleika á að láta koma fram pólitískan vilja. Þetta vil ég segja, hæstv. forseti, því það hefði verið hægt að hafa það skjalfest hvaða sýn við höfum á málið. Því verð ég að taka nokkrar mínútur til að fara yfir málið.

Ég tel sem sé undirbúningsvinnuna við frumvarpið jákvæða og margir sem komu að henni. Ég tel að 3. gr. um að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaðurinn sé einn mikilvægasti þátturinn í frumvarpinu. Ég tel einnig mjög jákvætt og gott að það skuli vera komið í frumvarpið að heimilt sé að vista á hjúkrunarheimilum einstaklinga sem eru yngri en 67 ára. Ég tel það líka mjög mikilvægt og áreiðanlegt að komið sé í frumvarpið skráning óvæntra atvika, þ.e. óhappa sem verða í heilbrigðisþjónustunni eins og á öðrum stöðum en við höfum ekki skráð sem skyldi fram til þessa og þar af leiðandi ekki haft jafnmikla möguleika á að, eins og vonandi í framtíðinni, læra af mistökum okkar.

Hvað varðar vinnuna í nefndinni var frumvarpið lagt fram í lok október og talað fyrir því í nóvemberbyrjun og sent út til umsagnar. Umsagnarferlið var þar til þing kom saman 15. janúar og það sér það hver maður að tíminn sem við höfum haft í nefndinni er ekki mjög langur. Þetta eru tæpir tveir mánuðir og fjöldi mála sem eru inni. Ég verð þó að segja að ég, eins og aðrir nefndarmenn, vann að þessum málum af heilum hug og lagði það til sem ég hafði þekkingu og vit á og út frá minni pólitísku sýn. Tekið hefur verið tillit til margra athugasemda og er það allt af hinu góða og ég tel að þær fjölmörgu breytingartillögur sem koma frá nefndinni séu allar jákvæðar og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði munum styðja þær allar.

Þrátt fyrir þá jákvæðni sem ég er búin að lýsa sagði ég það strax í byrjun þegar við tókum málið til afgreiðslu í nefndinni að þetta væri eitt af þeim málum sem ég teldi að væri gott að lifði lengur en einn vetur. Ég er að meina að þingsköp okkar leyfðu það að við hefðum mál til lengri vinnslu en á einu þingi. Ég segi þetta, hæstv. forseti, fyrir það að við erum að móta algerlega nýja stjórn á heilbrigðisþjónustunni. Það er allt önnur framkvæmd en er í dag og mikil óvissa um það hvernig framhaldið verður vegna þess að það er það mikið skilið eftir í reglugerðarheimildum að ég hefði talið heppilegt að taka inn breytingarnar núna, afgreiða síðan ekki málið, senda þetta aftur út og taka það sem sé þannig að þetta fengi meiri kynningu og við tækjum það svo aftur upp á sumarþingi og afgreiddum það þá. Þetta var mín skoðun og ég tek undir með Læknafélagi Íslands að mál af þessu tagi og þetta mál þurfi lengri tíma til skoðunar, til gerjunar, bara meðferð málsins.

Þar sem ég er þeirrar skoðunar finnst mér það mjög miður að ofan á allt annað skulum við svo lenda í því að vera að afgreiða á lokadegi þingsins mál sem okkur er ekki mögulegt að ræða eða fara í gegnum. Mér finnst að það sé þinginu og þingstörfum til vansa að fara með svo mikið mál í raun umræðulaust í gegn á þinginu. Hefði það komið fram á öðrum tíma þá hefði ég haldið að þetta væri mál sem hefði verið rætt í a.m.k. tvo daga á þingi við 2 umr. en ekki í einhvern hálftíma eða klukkutíma núna.

Að þessu leyti vísa ég afgreiðslu málsins og ábyrgðinni alfarið yfir á ríkisstjórnarflokkana og ríkisstjórn en ég vil, hæstv. forseti, gera grein fyrir breytingartillögum frá mér. Ekki gefst tími til að fara í hverja grein fyrir sig en hvað varðar frumvarpið í heild tel ég að vald ráðherra verði mjög mikið með þessu frumvarpi. Í raun ætti frumvarpið að heita frumvarp til laga um stjórnun heilbrigðisþjónustu. Þetta er stjórnunarþátturinn. Það vantar allt innihaldið. Innihaldið á að koma með reglugerðum. Reglugerðirnar þekkjum við ekki og vitum ekki hvernig verða þannig að þetta ætti í raun og veru að vera frumvarp til laga um stjórn heilbrigðisþjónustu. Þegar kemur að stefnumörkun segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðherra markar stefnu um heilbrigðisþjónustu innan ramma laga þessara.“

Það er ekkert kveðið á um eftir hverju hæstv. ráðherra á að fara. Það er ekki einu sinni vísað til heilbrigðisáætlunar sem Alþingi samþykkir eða Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar eða einhverra markmiða. Það er sem sagt ráðherra sem ræður. Það er þessi opnun og allsherjarvald ráðherra sem ég set spurningarmerki við. Með því að hafa þótt ekki væri nema að ráðherra bæri að móta stefnu sína um heilbrigðisþjónustu samkvæmt heilbrigðisáætlun hefði það verið mun skýrara, eða settur meiri rammi utan um málið.

Hvað varðar II. kaflann og skipulag heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisumdæmi er það nýmæli að það á að skipta landinu upp í heilbrigðisumdæmi. Í sjálfu sér er þetta ný hugsun og ég vona að hún þróist á jákvæðan hátt en í frumvarpinu segir ekkert um það hversu stór þessi heilbrigðisumdæmi eigi að vera. Ef þau eru landfræðilega mjög stór verður stjórnarþátturinn erfiðari og hætt við að sú þróun haldi áfram að frekar verði horft á þjónustuna út frá hagkvæmnissjónarmiðum en þjónustunni sem slíkri. Þess vegna hefði verið mjög æskilegt að það væri alveg skýrt hvað teldist til grunnþjónustu sem ætti að vera hjá öllum. Það er farið í það í þessu frumvarpi en ég tel að það hefði þurft að vera enn skýrara en er hér.

Síðan kemur að því sem lýtur að fagstjórnun og ábyrgð fagmanna, sama hvort um er að ræða lækna, hjúkrunarfræðinga eða annarra fagstétta. Eins og frumvarpið leit fyrst út var alveg greinilegt að það var verið að setja þessa stjórn heilbrigðisþjónustunnar í ramma venjulegra fyrirtækja. Ég lít hins vegar svo á að heilbrigðisþjónustan sé ekki eins og hver önnur þjónusta, heldur eigi hún að hafa sérstöðu í stjórnkerfinu hvað varðar stjórnun og aðkomu fagaðila að henni. Ég er með breytingartillögu við 10. gr. um fagstjórnendur þar sem ég reyni af veikum mætti að styrkja stöðu yfirlækna og eins deildarhjúkrunar með því að ítreka eða draga betur fram faglega ábyrgð. Ég leyfi mér að sleppa í þessari grein tilvísan til forstöðumanns stofnunarinnar af því að annars staðar er alveg sérstök grein um ábyrgð forstöðumanns og ég tel að þegar verið er að ræða um fagstjórnun þurfum við ekki að taka það aftur fram. Forstöðumaður er alfarið yfir stofnuninni, ber rekstrarlega og alla aðra ábyrgð á henni þannig að það er ekki að því að gá.

Það hefði mátt styrkja stöðu deildarstjóranna enn betur með því að taka fram að það væri einnig á þeirra ábyrgð að starfsemi hverrar deildar væri sem hagkvæmust og markvissust. Þar sem þessi breytingartillaga var unnin seint hef ég eftir á fengið ábendingu um þetta sem segir manni líka hvað það býður hættunni heim að vera að vinna að afgreiðslu máls á svo skömmum tíma.

Ég er með aðra breytingartillögu við 13. gr. þar sem ég legg til að fagráð verði á háskóla- og kennslusjúkrahúsum, svæðisbundnum heilbrigðisstofnunum og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, þ.e. að þar skuli vera starfandi læknaráð, hjúkrunarráð og eftir atvikum önnur fagráð. Svæðisbundnar heilbrigðisstofnanir eru stórar, Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurlands, og ef að líkum lætur verða fleiri slíkar stofnanir stórar. Ég tel að við þær eigi skilyrðislaust að vera fagráð.

Hvað varðar 20. gr. er ég með breytingartillögur við stjórn Landspítalans og legg til, eins og kom fram hjá mörgum sem lögðu fram umsagnir og komu fyrir nefndina, að ekki sé nóg að hafa forstjórann einan á toppnum, það sé heldur ekki nóg að hafa með honum ráðgjafarnefnd sem samkvæmt frumvarpinu er óskilgreind nema að þar á að vera fulltrúi neytenda. Ég legg til að yfir Landspítalann verði sett níu manna stjórn og jafnmargir til vara til fjögurra ára. Þar hef ég til hliðsjónar stjórn Tryggingastofnunarinnar og í breytingartillögu minni segir til um hlutverk þessarar stjórnar. Ég nefni að tveir skuli vera tilnefndir af starfsmannaráði Landspítalans en samkvæmt frumvarpinu á að leggja niður öll starfsmannaráðin. Þeirra er ekki getið en á vinnustað eins og Landspítalanum með nokkur þúsund starfsmenn tel ég óráð annað en að þess sé getið einhvers staðar að þar sé heimilt að hafa starfsmannaráð og að þar eigi fulltrúar starfsmanna að eiga aðild að stjórn Landspítalans, svo og fulltrúi tilnefndur af Öryrkjabandalaginu. Ég nefni Öryrkjabandalagið því að það er regnhlíf yfir öryrkja. Það verður enginn öryrki nema af einhverjum sjúkdómum þannig að ég tel að það gæti verið heppilegur vettvangur.

Hæstv. forseti. Ég gæti haft mjög langa framsögu og eins og ég sagði hefði ég viljað geta rætt þetta mál og farið vel yfir það við 2. umr. Ég er alveg sannfærð um að fleiri í heilbrigðis- og trygginganefnd og aðrir hefðu viljað ræða málið og mér finnst ósvinna að fara með stórt mál sem hefur svo miklar breytingar í för með sér í gegnum þingið á svo skömmum tíma og geta ekki rætt það.

Fjórða breytingartillaga mín snýr að gildistökunni. Verði frumvarpið að lögum eiga þau að taka gildi 1. september. Ég tel þá dagsetningu allt of skammt undan. Verðandi heilbrigðisráðherra á eftir að semja 15 reglugerðir um allt sem lýtur að þjónustunni sjálfri, um þjónustuna sjálfa og hvað þessi stjórnunarrammi á að halda utan um. Að ætla sér ekki lengri tíma en til 1. september nk. gengur ekki þannig að ég legg til að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2008.