133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

uppbygging ferðaþjónustu á Melrakkasléttu.

36. mál
[14:13]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil aðeins fagna því að þessi tillaga fái þó þá afgreiðslu að henni er vísað til ríkisstjórnarinnar og við treystum því að það sé með jákvæðum hætti, þ.e. að ríkisstjórn sé í raun og veru falið að vinna úr þessari tillögu af velvilja. Þetta er gagnmerk tillaga og hv. þm. Halldór Blöndal á hrós skilið fyrir þá umhyggju sem hann hefur sýnt þessu máli.

Það skyldi nú ekki eiga eftir að fara svo að undur og stórmerki og dásemdir Melrakkasléttunnar reynist ein af vannýttum og óþekktum eða lítt þekktum auðlindum Íslands? Staðreyndin er sú að Melrakkasléttan er stórkostleg. Hún fóstrar gagnmerkt lífríki. Þar er unaðslegt á vorin þegar allt iðar af lífi og hvergi, fullyrði ég, er fegurra að taka sér miðnæturbíltúr um Jónsmessuna en fyrir Sléttu, eins og við segjum, með sólina vel uppi yfir sjólokunum norðan við heimskautsbaug. Þar leynast bæði náttúrugersemar og merk saga. Þar er Þorgeir Hávarsson heygður í grjóthaugi miklum og þar iðar silungur í mörgum vötnum og þar fram eftir götunum.

Reyndar mætti gjarnan að mínu mati útvíkka svæðið og taka möguleika norðausturhornsins alls undir og ég veit reyndar að tillögumenn hafa haft það í huga. Svipað má segja um Langanes. Þar eru að opnast miklir möguleikar með bættum vegi alla leið á Langanesfont og þar liggur önnur undraveröld lítt þekkt enn þá af þorra landsmanna.

Sannarlega veitir byggðinni á þessum slóðum ekki af að hlúð sé að þeim möguleikum sem þar finnast og vonandi bregður nú til hins betra með bættum samgöngum sem loksins hillir undir með vegi þvert yfir utanverða Öxarfjarðarheiði eða Hólaheiði og Seljaheiði um Hófaskarð og tengingu til Raufarhafnar. Bættar samgöngur eru að sjálfsögðu hluti af því að leggja grunn að atvinnustarfsemi og ferðaþjónustu og öðru slíku.

Ég hefði auðvitað helst kosið að þessi tillaga hefði verið samþykkt hér en næstbesti kosturinn er, hygg ég, sá sem hér er lagður til að henni sé vísað til ríkisstjórnar og það styðjum við í trausti þess að ríkisstjórnin taki við málinu með jákvæðu hugarfari.