133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

umferðarlög.

388. mál
[14:36]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar þá skrifum við fulltrúar Samfylkingar undir þetta nefndarálit með fyrirvara. Við erum að mestu leyti mjög ánægð með þá niðurstöðu sem náðist í nefndinni. Eins og komið hefur fram var mikil umræða um þetta mál í hv. samgöngunefnd og ýmsar breytingar sem við náðum sem betur fer samstöðu um að gera í nefndinni.

Fyrirvari okkar varðar kannski helst að til framtíðar þarf að huga að hinu svokallaða punktakerfi, bæði útfærslu og eftirfylgni þess. Þetta er ábending, ekki bara til löggjafans heldur líka til hæstv. samgönguráðherra sem hefur mjög mikið reglugerðarvald í sínum höndum í því kerfi. Við viljum koma því til skila að það sé tímabært að endurskoða hvernig því er framfylgt, hvernig það skilar sér og hvort það er eitthvert ósamræmi í því hvernig refsingar eru samkvæmt punktakerfinu. Því viljum við koma á framfæri.

Annað sem var reyndar rætt mjög lauslega í nefndinni og er í sjálfu sér ekki umfjöllunarefni þessa frumvarps en hefur m.a. verið gert á Norðurlöndunum við álagningu umferðarsekta, sérstaklega hraðaksturssekta, er að víða hefur því verið þannig komið fyrir að þær eru tekjutengdar. Sú umræða er vart hafin hér á landi.

Við jafnaðarmenn í Samfylkingunni hyggjum að alveg sé tímabært að fara að skoða hvernig hægt væri með einhverju móti að tekjutengja slíkar sektir því við vitum að sektir við sumum umferðarlagabrotum eru það lágar að það er vart hægt að segja að menn finni mjög fyrir þeim. Ég tala nú ekki um ef fólk er sterkefnað. Þessu vil ég koma hér á framfæri.

Að öðru leyti erum við samþykk því sem fram kemur í nefndarálitinu og teljum það mikið framfaraskref að herða viðurlög við ofsaakstri sem er auðvitað ekkert annað en áhættuhegðun af verstu sort sem skapar almannahættu og hefur leitt af sér hræðileg slys eins og við vitum. Þess vegna teljum við að fullu tímabært að herða refsingar við ofsaakstri eins og fyrir liggur.

Einnig viljum við fagna því að inn í frumvarpið, í breytingartillögum með því, hefur ratað mál frá hv. þm. Samfylkingarinnar Jóhönnu Sigurðardóttur um að hægt verði að setja reglur um flokkun og notkun viðurkennds hlífðarfatnaðar og annars hlífðarbúnaðar ökumanna og farþega bifhjóla. Þetta er nokkuð sem bifhjólamenn, m.a. Sniglarnir, hafa beðið um mjög lengi og er mikið öryggismál fyrir ökumenn bifhjóla úti á vegum landsins.

Nokkuð var rætt í samgöngunefndinni um hleðslu og frágang farms. Eins og hv. þingmenn vita þá hefur mikil umfjöllun verið í fjölmiðlum um frágang og hleðslu farms á flutningabílum hérlendis, sérstaklega í dagblöðum undanfarin missiri. Við vorum öll sammála um það í nefndinni að ekki mætti slaka á neinum öryggiskröfum hvað þessi mál varðar. Reyndar kom það fram að samkvæmt reglugerðum og leiðbeiningum þeim sem t.d. vöruflutningabílstjórar fara eftir þá eru reglurnar mjög skýrar. Það þarf hins vegar að vera hægt að fylgja því þannig eftir að atvinnubílstjórar komist ekki upp með að hlaða bíla sína með þeim hætti að hætta geti stafað af eins og dæmin sanna.

Mikil umræða varð í samgöngunefndinni um það ákvæði sem síðar náðist samstaða um að fella út úr frumvarpinu. Það var að taka þannig sérstaklega á ungum ökumönnum að hægt væri að banna þeim akstur bifreiða á tilteknum tíma sólarhrings eða takmarka fjölda farþega þeirra á tilteknum aldri. Auðvitað er það þannig að það eru ákveðin rök sem hníga til þess að slíkar aðgerðir gætu borið árangur. Okkur þótti hins vegar ósanngjarnt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að setja inn í lög ákvæði sem refsaði þarna stórum hópi ungra bifreiðarstjóra vegna hegðunar ekki margra, oftast örfárra ungra karla.

Við trúum því að hægt sé að ná til þessa hóps með öðrum ráðum. Auðvitað verður að gera það meðvitað og með öflugri fræðslu, það kostar peninga og um það þarf vitundarvakningu í samfélaginu. En það á ekki bara við um unga bílstjóra. Ég tel það eiga við um bílstjóra á öllum aldri, það þarf að efla umferðaröryggi með aukinni fræðslu og koma því þannig til skila til íslenskra ökumanna og þeirra sem aka bifreiðum á vegum landsins að það sé á allra ábyrgð að aka eins og menn og fylgja lögum og standa ekki í ofsaakstri eða öðru slíku.

Hæstv. forseti. Þetta vildi ég fá að segja um þetta mál og fulltrúar Samfylkingarinnar í hv. samgöngunefnd eru samþykkir þessari afgreiðslu með þeim fyrirvara sem ég tiltók.