133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

umferðarlög.

388. mál
[14:48]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum um frumvarp til breytinga á umferðarlögum. Ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara og vil gera grein fyrir honum í nokkrum orðum.

Meginefni frumvarpsins gengur út á að herða á aðgerðum til að taka á svokölluðum ofsaakstri. Út af fyrir sig er ég sammála því að herða þurfi á því þegar menn aka sýnilega með því lagi að beinlínis stafi stórkostleg hætta af. Ég hef í sjálfu sér ekki athugasemdir við að herða á þeim viðurlögum sem snúa að slíku athæfi.

Ég hef hins vegar hugsað um það varðandi þessi mál almennt, hæstv. forseti, að í raun og veru held ég að það sé nauðsynlegt að huga að því að opna hér það sem við getum kallað kappakstursbrautir eða akstursíþróttabrautir þar sem ungu fólki, sem á kraftmiklar bifreiðar eða mótorhjól, bifhjól, geti fengið að keppa, stunda æfingaakstur eða annan akstur sem er ekki háður takmörkuðum hámarkshraða eins og er vissulega á þjóðvegunum, sem er bráðnauðsynleg allsherjarregla vegna vegakerfisins og samgangna.

En því er ekki að heilsa, hæstv. forseti, að hér á landi sé til kappakstursbraut í þeim skilningi sem við sjáum víða erlendis, þar sem menn hafa æfingabrautir og kappakstursbrautir og geta fengið að keppa sín á milli eða æfa sig í akstri.

Ég held að við þurfum að huga að því, hæstv. forseti, að stuðla að gerð einhvers konar brauta hér á landi þar sem menn geta fengið að keppa á þessum tækjum sín á milli. Þar með kæmi jafnframt upp sú eðlilega krafa að einhver skilgreining yrði sett á það hvers konar ökutæki séu almennt notuð á þjóðvegum þótt það geti verið mjög snúið að setja þá reglu. Það er samt svo að menn spyrja sig bara þeirrar skynsamlegu spurningar: Hvað höfum við að gera með sportbíla á þjóðvegunum, sem eru 300–400 hestöfl, til þess að keyra á almennum þjóðvegum? Hvað höfum við að gera með það til notkunar á almennum þjóðvegum?

Menn kaupa sér tæki, tiltölulega litla bíla sem oft eru aðeins ætlaðir fyrir tvo farþega eða að hámarki fjóra og er þá yfirleitt þröngt um þá sem aftur í eru. Þetta eru sérhannaðir bílar til að fara mjög hratt sem er alls ekki það aksturslag sem við heimilum á neinum þjóðvegum. Við höfum heldur ekki neinar þær brautir hér á landi þar sem menn geta fengið að spreyta sig á þessum ökutækjum.

Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að taka verður á þessu í framtíðinni þótt ekki sé hægt að segja að ég sé með beina útfærslutillögu á því. Ég vil þó láta þess getið, hæstv. forseti, að ég hyggst koma fram með breytingartillögu við 3. umr. inn í umferðarlögin þar sem sett yrði skilgreining á orðinu akstursíþróttabraut eða kappakstursbraut. Það væri í 2. gr. laganna þar sem talað er um akbraut, með skilgreiningu á því og síðan akrein, með skilgreining á því. Í þriðja lagi verður þá kappakstursbraut eða akstursíþróttabraut og skilgreining á því.

Í mínum huga er slík braut sérbyggð akbraut sem ætluð er til hraðaksturs bifreiða eða bifhjóla og þar sem stunda má akstursíþróttir eða æfingasvæði þar sem mönnum er beinlínis heimilað að stunda hraðakstur. Ég held að það þurfi að vera hægt að beina því fólki, sem við beinum þessum lagabreytingum að, inn á einhver þau svæði þar sem fólk getur fengið að keppa. Það fer ekkert á milli mála, hæstv forseti, að fjöldi fólks á landinu hefur mikinn áhuga á akstursíþróttum. Það sjáum við af áhorfi á Formúluna, á torfæruakstur og ýmislegt fleira. Menn hafa mikinn áhuga á akstursíþróttum.

Ég held, hæstv. forseti, að við þurfum að finna lausnir þar sem beina megi fólki inn á aksturssvæði þar sem það fær að keppa sín á milli. Þar með losnum við væntanlega við að menn séu nánast í kappakstri á þjóðvegunum, bæði innan borgar og utan.

Bæði lögreglan og við á Alþingi vitum að menn mæta til ákveðinnar aksturskeppni á þjóðvegum landsins löngu eftir miðnætti, þegar umferðin er dottin niður. Þeir mæla sér mót á ákveðnum svæðum landsins þar sem þeir þenja fákana hver á móti öðrum og keppa í að komast sem hraðast eftir þjóðvegunum þegar öll önnur umferð er dottin niður. Þeir eru með vöktuð svæði norðan og sunnan við til þess að láta vita ef lögreglan kemur inn á svæðið eða önnur umferð.

Þetta er vegna þess að það eru engar svona brautir til staðar, hæstv. forseti. Þess vegna er ég að benda á þetta. Ég held að við eigum að huga að þessu vandamáli. Marka inn í umferðarlögin hugtakið akstursíþróttabraut eða kappakstursbraut og að finna því svo tekjustofn, hvernig megi byggja upp slíka braut. Það er full ástæða til að huga að því. Samkvæmt því sem ég veit best þá sýnist mér að um 2 milljarðar kr. komi í tekjur til ríkisins af akstri mótorhjóla í gegnum bensíngjald, innflutningsgjöld af mótorhjólum og bifhjólum og hvað þá ef skilgreindar væru sérstaklega það sem við köllum hraðakstursbifreiðar, litlar bifreiðar með mikinn hestaflafjölda.

Það væri hægt að hugsa sér að marka ákveðna tekjustofna af gjöldum af þessum bifreiðum, m.a. til að koma þessum bifreiðum af þjóðvegunum og búa þá til íþróttasvæði og þjálfunarsvæði þar sem menn geti notað þessi tæki, eins og menn eru stundum að spreyta sig við á götum borgarinnar og landsins, en þá algjörlega með ólögmætum hætti að sjálfsögðu. En freistingin er til staðar og þess vegna er þessi mikli hraðakstur stundum langt um fram það sem talist getur eðlilegt hæstv. forseti.

Ég vildi vekja athygli á þessu. Ég vænti þess að hv. alþingismenn hafi skilning á því að setja a.m.k. skilgreiningarákvæði inn í umferðarlögin þannig að síðar megi vinna að því að hér verði búin til eða opnuð sérstök akstursíþróttasvæði eða keppnissvæði. Ég held að vænlegt væri að taka það upp í umræðum við íþróttahreyfinguna sem hefur þegar stofnað til, ef ég veit rétt, sambands akstursíþróttamanna og við þurfum að byggja upp svona aðstöðu. Ég tel að það muni draga úr hraðakstrinum þegar slík aðstaða verður til staðar, a.m.k. gæti lögreglan vísað mönnum á svæði þar sem þeir gætu fengið að spreyta sig á meiri hraða en ætlast er til að menn fari á um þjóðvegi landsins, hvort sem það er í borg eða byggð.

Þetta vildi ég nú sagt hafa, hæstv. forseti, og ætla ég svo sem ekki að tala meira um þetta núna. En það er fjölmargt sem ég vildi víkja að, t.d. að festingu farms og hvernig að því er staðið. Þar mætti nefna fleira en það sem oft hefur verið nefnt, að sérstakar grindur eða stálsúlur þurfi til að halda farmi kyrrum. Auðvitað kann það að þurfa í sumum tilvikum. En fyrst og fremst þarf frágangur farmsins að vera tryggur. Það er hægt að tryggja frágang farms og festa hann vel með ýmsu fleiru heldur en hliðarsúlum þótt þær kunni vissulega að vera nauðsynlegar í sumum tilvikum. Við höfum séð að bifreiðar aka um þjóðvegi landsins, m.a. með svokölluðu ræsi í vegagerð, þar sem aðeins er um eina festingu að ræða, eitt strekkiband, svo rúllar þetta til hliðanna eftir því hvernig bíllinn beygir.

Það eru mörg dæmi um slíkt því miður og sjálfsagt að beina því til ökumanna og þeirra sem eiga flutningabifreiðar að huga betur að festingu farms og tryggja hann. En það er nú svo að oft koma fáir óorði á fjöldann og það á jafnt við um vöruflutningabifreiðar eins og þá sem keppa í hraðakstri á þjóðvegum landsins. En þessi tilvik eru fleiri en svo að hægt sé að horfa á aðgerðarlaus, hæstv. forseti.

Það er hins vegar eitt atriði sem mig langar til að nefna í lok ræðu minnar. Það varðar punktakerfið. Ég tel að það þurfi að skoða þetta punktakerfi betur, einkanlega varðandi unga menn sem lenda í að fá punkta. Mér sýnist, eins og lögin eru uppsett, að menn gætu endað með bráðabirgðaakstursskírteini nánast alla ævina. Það er kannski ekki alveg eins og við vildum hafa það. Það er spurning hvort ekki ætti að endurskoða þetta punktakerfi. Hversu alvarleg eru brotin og hvaða áhrif á kerfið hafa?

Einnig held ég að það sé tímabært, hæstv. forseti, að velta fyrir sér hvort sektir eigi að einhverju leyti að vera tekjutengdar. Sá sem hefur miklar tekjur finnur minna fyrir sektinni. Hún kemur ekki við hans afkomu og líf ef hann er mjög tekjuhár en sekt hefur kannski mikið að segja gagnvart þeim sem tekjulægri eru. Áhrifin af sektargreiðslunni eru mjög mismunandi eftir því hver tekjustaða fólks er. Þetta er samt vandrötuð braut, hæstv forseti, þótt menn geti auðvitað skoðað að fara hana.

Að lokum vil ég minna á reglur sem eru mjög umdeildar, varðandi aksturs- og hvíldartíma vörubifreiðastjóra sem keyra um langan veg á þjóðvegum landsins við mismunandi aðstæður. Ég hef í tvígang komið af Vestfjörðum með tiltölulega stuttu millibili og sú leið sem vöruflutningabifreiðarnar, t.d. í Ísafjarðardjúpi, fyrir Reykjanes og Vatnsfjörð og síðan inn Mjóafjörð, þar sem er gamall og slitinn malarvegur, er nánast ófær. Ef veghaldari ætti að ákveða á honum aksturslagið þá mundi hann sjálfsagt bara loka veginum. Ég held að það væri ekkert flóknara. Honum yrði bara lokað, enda er vegurinn nánast óökufær. Hann verður það væntanlega á þessu vori áfram vegna þess að hann hefur ekki burðarþol til að taka við flutningum sem um hann fara.

Þetta kemur inn á hvíldartímann og aksturstímann vegna þess að aksturstíminn miðast við færð og þann hraða sem hægt er að keyra á eftir vegunum. Þegar menn eru komnir niður í 20 kílómetra hraða á löngum vegarköflum lenda þeir yfir aksturstímanum sem miðað er við og þá er farið að beita sektarákvæðum út á vegakerfi sem býður alls ekki upp á að menn fylgi neinum reglugerðum. Þetta er sannleikur, hæstv. forseti, og mjög erfitt fyrir þéttbýlisbúa sem aldrei fara af götum Reykjavíkur að skilja um hvað málið snýst.