133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

588. mál
[15:15]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það eru sérstaklega tvö atriði sem ég vildi gera hér að umræðuefni varðandi frumvarpið um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Það er í fyrsta lagi 4. gr. um flokkun veitingastaða þar sem þeir eru flokkaðir eftir hvað er þar á boðstólum.

Veitingastaðir flokkast með eftirfarandi hætti: Staðir án áfengisveitinga, umfangslitlir áfengisveitingastaðir og umfangsmiklir áfengisveitingastaðir. Síðar í greininni stendur:

„Á veitingastöðum er hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar né með öðrum hætti að gera út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru. Leyfisveitandi getur þó heimilað í rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum að fram fari nektardans í atvinnuskyni á veitingastað, að fengnum jákvæðum umsögnum umsagnaraðila skv. 10. gr. Á slíkum stöðum er sýnendum óheimilt að fara um á meðal áhorfenda og jafnframt eru hvers konar einkasýningar bannaðar.“

Ég gerði þetta atriði að umtalsefni í hv. samgöngunefnd og spurði þá gesti sem komu þangað hvort það væri að ósk fulltrúa atvinnulífsins þar að hafa þetta ákvæði inni.

Þá minnist ég einnig þess að síðast þegar þessi lög voru til samþykktar fyrir nokkrum árum og þetta ákvæði kom inn gerði ég alvarlegar athugasemdir við það ákvæði að þarna væri nánast verið að lögleiða stétt fólks sem gerði út á nektardans. Því það stendur þarna, nektardans í atvinnuskyni. Það er því verið að lögleiða atvinnustétt með þessum hætti.

Ég minnist þess að í umræðunni þá sem þingheimur lagði einhvern annan skilning í en ég, sagði ég: Maður stofnar ekki stéttarfélag nema gerðir séu um það kjarasamningar. Mér vitanlega hafa ekki verið búnir til neinir sérstakir kjarasamningar eða að hvaða stéttarfélagi þetta fólk á aðild, sem samkvæmt þessu lagafrumvarpi getur stundað nektardans í atvinnuskyni. Ég gerði athugasemdir við þetta í nefndinni. Á það var bent að það væri í höndum sveitarfélaganna að taka afstöðu til þess hvort þetta væri leyft.

Ég geri áfram athugasemdir við þetta ákvæði og tel að það sé komið inn með óeðlilegum hætti. Ef lögleiða á nektardans í atvinnuskyni skulu menn búa honum þá lagalegu umgjörð sem honum ber ef það er á annað borð samþykkt af löggjafans hálfu.

Ég vil taka það fram og ég er alveg sama sinnis og ég var fyrir líklega sjö árum þegar þetta var samþykkt á sínum tíma. Ég gerði þá athugasemdir við þetta atriði og geri enn, ég tel að þetta ákvæði eigi ekki að vera. Það er ekki vilji minn eða flokks míns að leyfa hér nektardans í atvinnuskyni. Þetta vildi ég láta koma fram. Þó að þetta hafi ekki komið fram í fyrirvara mínum, þá var þetta rætt í nefndinni og athugasemdir mínar komu þar fram.

Hitt atriðið sem ég vildi aðeins minnast á og hv. framsögumaður kom inn á er varðandi tækifærisleyfin þar sem í frumvarpinu var kveðið á um að hægt væri að skylda þann sem stæði fyrir hátíðahöldum að greiða löggæslukostnað samkvæmt ákvörðun lögreglunnar. Í 4. lið 17. gr. stendur að sá sem fyrir skemmtun stendur greiði kostnað af ráðstöfunum sem lögreglustjóri ákveður. Um þetta var tekin töluvert mikil umræða í nefndinni, eins og hv. formaður samgöngunefndar kom inn á. Við þekkjum það þegar verið að halda bæjarhátíðir, íþróttahátíðir, sérstaklega úti um land, hefur lögreglustjórinn komið með kvaðir á að svo og svo mikil löggæsla þurfi að vera til staðar og að þeir sem halda hátíðirnar verði að greiða þær.

Ég minnist þess t.d. þegar unglingamót UMFÍ var haldið á Sauðárkróki fyrir nokkrum árum og Skagfirðingar töldu sig vera búna að búa góða umgjörð utan um unglingalandsmótið, bæði hvað varðaði eftirlit og annað því um líkt, þá kom tilkynning frá ríkislögreglustjóra í gegnum sýslumann um að skaffa verði þessa og þessa löggæslu og að mótshaldarar verði að greiða það.

Ég man að flestir mótmæltu þessu og sýslumaður gat lítið í málinu gert. Honum var þröngur fjárhagslegur stakkur skorinn og fékk þá skipun frá dómsmálaráðherra að hann yrði annaðhvort að innheimta gjald eða taka þetta af fjárveitingum sínum, sem voru þá litlar eftir. Þannig höfum við hvað eftir annað rekið okkur á bæði ósanngirni og mismunun hvað það varðar þegar verið er að leggja þetta á lítil samfélög á landsbyggðinni sem vilja halda hátíðir, hvort sem það eru íþróttahátíðir, æskulýðshátíðir eða bæjarhátíðir, og þau orðið að lúta oft og tíðum kröfum lögreglustjóra hvað þetta varðar. Sýslumennirnir fjárvana og stundum hefur orðið að hætta slíkum hátíðum.

Þetta var því tekið út þótt kannski hefði mátt gera það enn betur og enn ákveðnara að jafnræði gilti og lögreglan hefði ekki alfarið sjálftökurétt í að leggja gjald á þá sem halda æskulýðshátíðir, útihátíðir eða bæjarhátíðir. Það var því dregið mjög úr því og ég styð það.

Frú forseti. Önnur atriði frumvarpsins styð ég. Ég vil þó vekja athygli á að hvergi er minnst á orðið bændagisting. Ég spurði eftir því en fékk ekki svör við því hvers vegna það væri ekki inni. Að öðru leyti eru mörg góð atriði í frumvarpinu sem ég get stutt.